sunnudagur, júní 12, 2005

Dagar

þar sem saman fer bónun flugulína og garðvinna eru góðir eða réttara sagt ágætir dagar. Að strjúka línu númer fimm með blautu stykki og síðan bóna með þar til gerðu efni, er helsta vísbending þess að tímabil veiða er að hefjast fyrir alvöru. Ekki verra að gróðurinn er að ná sér svolítið á strik í Vinaminnisgarði eftir kalt vor og kuldahret, en sláttur sýnist vera 2-4 vikum á eftir áætlun til sveita mér nærri; 2-3 vikum á eftir í Vinaminni. Bjartsýni hins vegar það mikil að matjurtir voru settar niður og jarðarberjaplöntum fjölgað með klippitækni og páli. Farið að Réttarhóli, þar er talsverð gróska hjá garðyrkjubóndanum, allt mjög heimilislegt og rólegt í þessi fáu skipti sem Halur hefir þar komið innan garðs. Hann tók þó eftir "best geymda leyndarmáli" svæðisins eða Vaðlaheiðarinnar (ef leyfist að nefna svæðið allt slíku nafni, sennilega rétt að mestu), en það er vindurinn; það er "aldrei" logn í Vaðlaheiðinni er mér sagt af húsfreyju minni er hafði það eftir öðru fólki. Þetta minnir Hal á annað "leyndarmál Akureyrar", en það er blessuð hafgolan; hún er sjaldan nefnd til sögunnar þegar öll lífsins gæði bæjarins eru til kölluð. Halur er takmarkaður maður að vitsmunum, en hann uppgötvaði það þó fljótt, að ætíð var mótvindur síðdegis eða eftir hádegi er hann hjólaði í norðurveg, ætíð mótvindur að sama skapi er hjólað var að morgni í suðurveg.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home