Spurning dagsins eða hvað!?
Hver er munurinn (ekki munnurinn) á því að borða einn eða með öðrum í hádeginu? Halur hefir árum ef ekki bráðum áratugum saman neytt fæðu aleinn í hádeginu með örfáum undantekningum; borðað sitt heimasmurða brauð, tekið hýðið utan af banana í eftirrétt og drukkið vatn og eða kaffi með því. Á stundum verið með epli, varla kíví og sjaldan peru ef bananaleysi ríkir, þannig að sjá má af þessari upptalningu að honum er treyst fyrir fjölbreyttri fæðu úr ríki ávaxta. Hann hefir stöku sinnum verið að spá í það að fá sér sæti meðal fólks og ókunnugra er sitja og ræða um fréttir dagsins í hádeginu, pólitíkina, uppákomur (!), sjónvarpsþætti og annað þess háttar. Þetta segir hann af því að hann veit slíkt af fenginni og heyrðri reynslu, takmarkaðri þó. Hann kemst ætíð að sömu niðurstöðu; engu er maðurinn bættur með því að bæta við sig slíkum upplýsingum. Fregnir af fólki utan pressu og frægðar eru hins vegar ætíð góðar eins og Halur frétti í dag af byggðakvóta sjómanns, er honum er kunnugur á Raufarhöfn; líðan mannsins öll ágæt og kvóti uppá ein níu tonn til viðbótar, óveiddur að mestu. Tekur 400-600 kg af fiski í góðum róðri einsamall.
Halur kvað:
Gleðjast saman góðir drengir,
gjarna´er þá svengir,
en í hádegismat
Halur einn sat;
hans heimasmurt ei þá lengir
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home