sunnudagur, júlí 03, 2005

Framkvæmdir

Hals eru af ýmsum toga, en flestar gerðar meir af striti en viti. Marg sinnis hefir hann ráðist á "hólinn" í Vinaminnisgarði, er í upphafi var þakinn ýmsum illgresistegundum og í sjálfu sér allt í góðu ef hljómgrunnur hefði verið fyrir slíkum garði. Grjót var einnig talsvert þar, asparrætur nágrannans sem enn eru til trafala þegar jörð er ræktuð eða tilraunir gerðar þar að lútandi. Enn ein árásin var gerð í gærdag og sú með góðri en ekki ókeypis hjálp eldri sonarins í Vinaminni; tímakaupið samkomulag milli hans og frúarinnar er allar fjárreiður hefur, inn og út. Sonurinn græddi reyndar a.m.k. 30 mínútur meðan Halur var að fylgjast með för frúarinnar á hinn ókleifa hamar Eyjafjarðar, sjálfar Súlur, vel yfir þúsund metra sigur. Stóð í stofu með sjónauka og frúin tilkynnti sig og eftirtektarvert var að engrar mæði varð vart hjá henni. Með í för voru drengir tveir, annar kominn alla leið frá Noregi til að sigrar hamar þennan. Ísak Freyr þaut með þeim á tindinn í fyrsta sinn en vonandi ekki síðasta. Tækni og þrautseigja frúarinnar var ómæld á leið þessari og vænt þætti Hali að hafa örlítið af hvoru tveggja.

Aftur að hólnum: hann er enn eina ferðina tilbúinn til frekari útfærslna garðyrkjulega séð og nú verður það sprengigrjót með gróðri! Sem sagt: aftur meira strit en vit eða hvað?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home