sunnudagur, júlí 31, 2005

Flatneskjan

í enskuæðinu tekur engan enda. Nú er svo komið að flestar norrænar ráðstefnur fara fram á ensku nema í göngum og afkimum þar sem norrænir menn stinga saman nefjum. Engin ráðstefna er "merk" nema málið verði enska, flatn-enska töluð í ýmsum útgáfum. Enn sérkennilegra er það að "flestir" sem e-u máli skipta á ráðstefnunni mæla á ensku sem er hjákátlegt þar sem enginn veðjar á aðrar móðurtungur. Halur skilur vel hina hagrænu og málrænu einföldunaráráttu er hér kemur fram, en verður ætíð jafnljóst að þetta er ekki algjört gæfuspor þegar hann heyrir norræn sönglög (Kim Larsen á ensku? eða sænskur vísnasöngur?) eða sér norrænar kvikmyndir (hver getur t. d. hugsað sér að sænskir leynilögreglumenn tali annað en sænsku!?). Jafnframt skal fram tekið að Halur er hrifinn af enskri tungu þar sem hún á við, þannig að enginn verði móðgaður.

Undirrót þessara skrifa voru þau að Halur heyrði lag með Kim Larsen í morgunsárið, sitjandi móti sólu á tröppum Vinaminnis með Mána og Birtu þefandi af sólarbirtu og angan morgunsins. Verst að Halur kemst ekki á tónleika með þeim skemmtilega manni (veit að hann er ekki allra, en sönggleðin óviðjafnanleg) í lok næsta mánaðar.

Nú fer að koma tími til að leggja hnífinn og áslátt til hliðar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home