fimmtudagur, júní 30, 2005

"Grisi siknis"

getur þýtt margt en þetta er einhvers konar sjúkdómsástand meðal hinna fátæku miskítóindíána í eða á Níkaragúa; heitið komið frá breskum áhrifum þar um slóðir, en hinir bresku nefndu þetta "crazy sickness" og innfæddir kalla ástandið "pauka alkan". "Piblotoq" meðal pólbúa og "chakore" meðal þjóðarbrota á Panama eru ennfremur menningartengdir sjúkdómar, óútskýrt ástand með mismiklum geð- og sálrænum einkennum. Það er ógrynni til af alls kyns fyrirbærum sem nútíminn hefur enn eigi komið með skýringu á eða skilgreiningu yfir; skilgreiningaveikin hefur stundum verið talin einn helsti fylgifiskur íslenskunnar sem tungumáls. Það er hins vegar misjafnt hversu illa menn eru haldnir af henni. "Grisi siknis" er skemmtilegt heiti og minnir á það hvert íslenskan sem talmál stefnir hjá mörgum landanum, atkvæðum sleppt, orðin stytt og alls kyns hljóðbreytingar sem sumar eru reyndar oft á tíðum skemmtilegar í sjálfu sér; málið þarf að þróast en ég veit ekki hvernig.

miðvikudagur, júní 29, 2005

Batnandi

mönnum er best að lifa. Halur er fyrstur manna til að játa syndir og frávik hættuleg lífi og limum annarra sem og tungu þeirra. Hann hefir loks fundið svolítinn "bata" (afturbata) eftir að tunguspjöldin voru tekin í notkun innan veggja Vinaminnis; enn er ekki búið að koma þeim fyrir utan dyra, í garðinum eða á helstu leiðum innan bæjar, en það ætti að vera auðvelt þar eð Halur gengur eða hjólar ætíð sömu leið. Allar breytingar geta reynst hættulegar. Umhugsunarefni hvort hann ætti ekki að sækja um einkaleyfi fyrir spjöldunum og græða sem stórgrosser íslenskur og gjarnan landar flestir gera í dag. Það ku vera full þörf fyrir spjöldin víðar en í Vinaminni. Hann veit hins vegar ekki hvort hann eigi nokkra spjaldainneign eður ei og því kvað Halur:

Gulu, rauðu, grænu spjöldin,
gefur Halur frá sér völdin.
Ef kjaftinn geiflar,
þeim konan sveiflar,
kredit-debit?- tunguspjöldin.

laugardagur, júní 25, 2005

Tungan

getur verið Hali til trafala. Best fer á því að hann þegi, en á stundum vill hann reyna að leggja orð í belg (og biðu) er hann hittir annað fólk. Hann hefir stungið upp á því að komið verði spjöldum fyrir í Vinaminni (sennilega svipuð og notuð eru í bridds til sagna?) við allar borðbrúnir og sæti. Viðmælendur hafi þá tiltæk spjöldin og hiki ekki við að beita þeim. Þótt Halur sé litblindur (og sennilega siðblindur einnig) þá þekkir hann oftast nær litina, sem notaðir verða á spjöldin; grænn, gulur, rauður en ekki blár. Hann þarf sérlega að gæta sín ef hann sér gula litinn, þá er öruggast að draga í land, helst þegja; rauður er ávísun í þagnarstúkuna í óákveðinn tíma og grænn verður sjaldséður nema hann taki sig verulega á í tungutakinu. Halur bindur vonir við að þessi meðferð skili honum nokkrum árangri og ekki síst þeim er honum verða að vera nærri, en hingað til hefir hann verið mjög "resistant" á allar meðferðir (slettan notuð viljandi eða meðvitað).

föstudagur, júní 24, 2005

Spurning dagsins eða hvað!?

Hver er munurinn (ekki munnurinn) á því að borða einn eða með öðrum í hádeginu? Halur hefir árum ef ekki bráðum áratugum saman neytt fæðu aleinn í hádeginu með örfáum undantekningum; borðað sitt heimasmurða brauð, tekið hýðið utan af banana í eftirrétt og drukkið vatn og eða kaffi með því. Á stundum verið með epli, varla kíví og sjaldan peru ef bananaleysi ríkir, þannig að sjá má af þessari upptalningu að honum er treyst fyrir fjölbreyttri fæðu úr ríki ávaxta. Hann hefir stöku sinnum verið að spá í það að fá sér sæti meðal fólks og ókunnugra er sitja og ræða um fréttir dagsins í hádeginu, pólitíkina, uppákomur (!), sjónvarpsþætti og annað þess háttar. Þetta segir hann af því að hann veit slíkt af fenginni og heyrðri reynslu, takmarkaðri þó. Hann kemst ætíð að sömu niðurstöðu; engu er maðurinn bættur með því að bæta við sig slíkum upplýsingum. Fregnir af fólki utan pressu og frægðar eru hins vegar ætíð góðar eins og Halur frétti í dag af byggðakvóta sjómanns, er honum er kunnugur á Raufarhöfn; líðan mannsins öll ágæt og kvóti uppá ein níu tonn til viðbótar, óveiddur að mestu. Tekur 400-600 kg af fiski í góðum róðri einsamall.

Halur kvað:

Gleðjast saman góðir drengir,
gjarna´er þá svengir,
en í hádegismat
Halur einn sat;

hans heimasmurt ei þá lengir

fimmtudagur, júní 23, 2005

Brekkurnar

og túnin eru misgræn. Það sagði Hali bóndi úr eða frá Norðfirði í dag, að sláttur hæfist vart fyrr en eftir 2-3 vikur þar á túnum, en lítill landbúnaður er stundaður á því landshorni. Loks er sól í heiði norðanlands. Það er gott eftir að Halur var nýverið staddur á kuldamóti í frjálsum íþróttum barna- og unglinga á íþróttavellinum sem er innan og ýmist utan verslunarhrings bæjarins, þar sem öll lífsins gæði eiga að vera. Sjálfsagt hafa einhver börnin þurft á blöðrubólgumeðferð að halda eftir mót þetta (þó það sé nokkur óvísindaleg lenska!). Lengi lifi "frjálsar íþróttir" og frjálsræði allt í öllu.

sunnudagur, júní 19, 2005

Tveir kappar

úr heimi myndasögunnar hafa Hali verið hugleiknir gegum tíðina; Zorro, Sorró, Zorró og Batman, Battmann, Leðurblökumaðurinn í góðri þýðingu íslenskri. Zorró þarf eiginlega að vera með zetu, setu, annað ótækt. Flest úr dramasmiðjunni vestan hafs fer fyrir ofan garð eða neðan, og talsverðar áhyggjur voru hjá Hali er hann fór með Ísaki í kvikmyndahús að berja Leðurblökumanninn augum og eyrum, enda hljóðið nærri orðið aðalatriðið í mörgum kvikmyndum nútímans. Þetta gekk þó bara bærilega að koma kalli á tjaldið, en nokkrar áhyggjur hafði Halur af því hvort e-r möguleiki væri á myndefni eftir hlé; það gekk sæmilega ef mið er tekið af mörgum myndum síðustu ára. Skemmtilegur var hann Ísak í húsinu (sem og aðrir er með fylgdu í för þessari) og ekki verri er Halur var að velta því fyrir sér hvers vegna hann væri hálf-spar á nammið sem hann hafði náð að punga út, þ. e. ekki mikið fyrir að deila því með þeim er sat honum næst. Hann svaraði um hæl á þann veg, er þetta kom til tals, að Halur hefði bara sjálfur getað keypt sér nammi ef hann vildi eða langaði í. Eftir að kvikmyndin tók enda, var farið út í kalt norðanbálið á Ráðhústorginu, sem aldrei þessu vant var kvikt af lífi, enda frábær rokkgrúppa að spila, allt hrisstist á svæðinu, meira að segja undirlagið, gangstéttin hvar við stóðum og "hlustuðum" hrollkaldir á rokkið ódauðlega, læf tónlist er alltaf sönn.

Dauði

síðunnar er nærri, en Halur mun reyna að blása lífi í skrifin að nýju eftir fremsta mætti, sem eins og allir vita, er af mjög svo skornum skammti. Allt er gjöf sem höndin gjörir (nýr málsháttur Hals) og skiptir þar engu hvort rakað er með hrífu, sleginn garðurinn, kastað flugu eða gengið með árbakka með stöng í hönd; horft á gæfar mjög straumendur við bakkann milli þess sem sóleyjar eru geislandi af þrótti og birtu í þessu nokkuð samlita landslagi sem er þeim nærri. Laxárdalurinn er ekki svipmikill í sjálfu sér, en fagur þó og sérlega í landi Ljótsstaða (kannski vegna einangrunar staðarins og nærri umferðarleysis), en bakkarnir þar geyma einhverja glæsilegustu urriða veraldarinnar sem og bakkarnir austan megin ofan Ferjuflóa, við Húsapolla og Hjallsendabakka; að vestanverðu eru glæsilegir staðir sem ekki var unnt að fleyta línu um í ferð þessari, Ljótsstaðabakkar hinir eiginlegu sem mest eru veiddir í dag, Syðri-Eyri, Nauthellir og Ytri-Eyri, en þar fékk Halur einhverja fallegustu fiska úr fljótinu á sínum tíma á "minni gerðirnar" af flugum. Fiskurinn reyndar fremur magur sumur, ef mið er tekið af meðaltalinu, allt er breytingum undirorpið. Lítils virði væri að ganga meðfram ánni, ef öll staðarheiti eða örnefni væru gleymd og tröllum gefin, öll meira og minna tengd landbúnaði gegnum aldirnar, ferðum, vöðum, gönguleiðum og öðru slíku. Sumt breytist lítið þarna í dalnum eins og skiltið í matsal Rauðhóla, en þar stendur (sennilega skrifað af Mæju): "Vinsamlegast stillið reykingum í hóf á matmálstímum!"

sunnudagur, júní 12, 2005

Dagar

þar sem saman fer bónun flugulína og garðvinna eru góðir eða réttara sagt ágætir dagar. Að strjúka línu númer fimm með blautu stykki og síðan bóna með þar til gerðu efni, er helsta vísbending þess að tímabil veiða er að hefjast fyrir alvöru. Ekki verra að gróðurinn er að ná sér svolítið á strik í Vinaminnisgarði eftir kalt vor og kuldahret, en sláttur sýnist vera 2-4 vikum á eftir áætlun til sveita mér nærri; 2-3 vikum á eftir í Vinaminni. Bjartsýni hins vegar það mikil að matjurtir voru settar niður og jarðarberjaplöntum fjölgað með klippitækni og páli. Farið að Réttarhóli, þar er talsverð gróska hjá garðyrkjubóndanum, allt mjög heimilislegt og rólegt í þessi fáu skipti sem Halur hefir þar komið innan garðs. Hann tók þó eftir "best geymda leyndarmáli" svæðisins eða Vaðlaheiðarinnar (ef leyfist að nefna svæðið allt slíku nafni, sennilega rétt að mestu), en það er vindurinn; það er "aldrei" logn í Vaðlaheiðinni er mér sagt af húsfreyju minni er hafði það eftir öðru fólki. Þetta minnir Hal á annað "leyndarmál Akureyrar", en það er blessuð hafgolan; hún er sjaldan nefnd til sögunnar þegar öll lífsins gæði bæjarins eru til kölluð. Halur er takmarkaður maður að vitsmunum, en hann uppgötvaði það þó fljótt, að ætíð var mótvindur síðdegis eða eftir hádegi er hann hjólaði í norðurveg, ætíð mótvindur að sama skapi er hjólað var að morgni í suðurveg.

laugardagur, júní 11, 2005

Nýleg

ákvörðun Akureyrarbæjar kom Hali nokkuð á óvart á tímum ríkisyfirgangs, náttúru- og umhverfisslysa. Hin ánægjulegu tíðindi hafa borist frá Akureyrarbæ, að hætt hafi verið við að leggja akveg um mitt íbúða- og íþróttavæði, auk þess sem skóli er á svæðinu fyrir börn og unglinga. Þessari ákvörðun ber að fagna vel og drengilega, þetta er ósvikin gleði. Meira mætti vera af slíkri skynsemi í ákvörðunartöku.

föstudagur, júní 10, 2005

Formsatriðin

skipta víst ekki alltaf sama máli; það fer aðeins eftir því hver á í hlut, hvorum megin við (stíflu-) borðið sá stendur er formsatriðin mismuna. Heggur sá er hlífa skyldi. Á Íslandi hafa allir málsaðilar sigur í deilumálum, ef mið skal taka af lestri dagblaða. Sá er hlaut dóminn er venjulegast sá er telur sig hafa "sigrað", en túlkunin byggir á einhverjum misskilningi. Nóg af þessu í bili.

fimmtudagur, júní 09, 2005

Í Drögum að sjálfsmorði

Megasar var einn söngva meistarans eftirminnilegur í meira lagi (reyndar allir), en það var söngurinn: "Formsatriði var ekki fullnægt...............Formsatriði var ekki fullnægt!" Þessi söngur og heiti hans sérstaklega, kemur strax upp í hugann þegar úrskurður efsta dóms var birtur í dag varðandi ógjörning þann er fram fer austan fjalls í norðuramti eystra. Stjórnvöld og ráðandi öfl hins íslenska lýðveldis hafa á nokkrum árum farið fram með slíku offorsi í máli þessu að einstaklingar lýðveldisins hafa mátt sín of lítils. Flest fer einhvern veginn eins og skáldið sagði eða eitthvað álíka og eins fer sálfsagt fyrir máli þessu hérlendis.

mánudagur, júní 06, 2005

Umhverfið

norðan heiða eða náttúran, er ekki beint vorleg. Halur fór í Mývatnssveit nýlega, en þar var fátt er minnti á vorið, snjór í fjöllum, varla grænt lyng að sjá, vorlyktin ókomin, þó stöku fuglar á vatni, á veiðistöðum Laxárinnar og í vogum (ekki Vogum) sem sagði manni að eggja- og útungunartíminn væri í hámarki. Jafn blindur maður og Halur hefði nú "heyrt" árstíðina án aðstoðar sjónarinnar; heyrnin er víst einn aðalvinur fuglaskoðarans, en krefst mikillar þjálfunar. Sá þó allnokkrar fuglategundir, jafnvel flórgoða þrjá að tölu. Óðinshaninn er áreiðanlega einn kærasti fugl landsins og hann heilsaði vel með sínum sérkennilegu háttum. Sennilega hrafnsandarhaus á hreiðri, ekki viss, væntanlega meiri von en vissa hins vitlausa.

Sem sagt gott.

Hetjur hafsins

voru í landi um helgina eins og e-r munu heyrt hafa að nóttu jafnt sem degi. Halur minnist ákveðinna tímamóta en nú eru liðin tæp 30 ár frá því að hann steig í land af opinni plastfleytu er gerð var út á grásleppu í Faxaflóanum. Sjávarháski var þar nærri nokkrum sinnum, en mest var treyst á gæfuna. Sigling inn Reykjavíkurhöfn var kærkomin á stundum. Allir sem Halur þekkir (þekkti) halda fyrir eyrun er hann lýsir störfum þeim er hann innti af hendi á sínum yngri árum til sjávar, en síður til sveita. Þeim verður því ekki gerð nánari skil hér. Hver man þó ekki eftir því er hann sat í sigurliði Vinnslustöðvarinnar í róðrakeppni sjómannadagsins snemma á miðhelmingi seinni hluta síðustu aldar?! Á þeim tímum voru myndfestutæki síður við höndina en nú er, ekki ætíð innan handar. Hetjur hafsins komast fleiri lifandi í land nú á tímum en áður og þar liggur stærsti sigurinn. Verður svo vonandi áfram.

föstudagur, júní 03, 2005

Að sjá

náttúruna og sérlega lífverur hennar eins og fugla er ennþá mögulegt á Íslandi án verulega mikillar röskunar eða mengunar nema svæðisbundið, enn sem komið er. Halur hefur komið sér upp búnaði til náttúruskoðunar af betri gerðinni. Hann getur fylgst með fuglum í návígi gegnum sjónpípu nokkra sem skilar nákvæmum myndgæðum; sjónin dugar ekki lengur ein sér til að fylgjast með fuglum í návígi, lifandi fuglum sem sérstök upplifun er að sjá á "heimavelli". Þessi búnaður á áreiðanlega eftir að gefa margar ánægjulegar stundir nærri fuglabyggðum sem og öðru er erfitt er að nálgast með eigin auga, jafnvel með góðum gleraugum. Halur hyggur ekki á persónunjósnir með búnaði þessum. Ýmsa aðra hluta náttúrunnar er unnt að njóta með lokuð augun, liggja í grasi, þefa af taði, mýri, hlusta á fuglasöng og árnið, fossaspil. Framundan eru vonandi margir góðir fugladagar.

Hugmyndir

hagfræðinga og peningafræðinga um öryrkja eru skrítnar í meira lagi, a. m. k. sumar meðal sumra. Oftast kemur manni til hugar þetta: "Það er auðveldara um að tala, en í að komast" og síðan það sem hver vill. Enn verra er þegar öryrkjar eru álitnir svikarar og aumingjar; fólkið sem er lárétt á götunni, ekki á gólfinu eins og tískan er í dag að segja um alla "góðu" starfsmennina, fólkið á gólfinu (yfirmennirnir eru í háloftunum að panta mat og vín á aukamatseðli Group-liða). Öryrkjar eru undir gólfinu í efnahagslegu tilliti sem og mörgu öðru er tengist félagslegu hliðinni. Þeir reyna þó að standa styrkir án mikillar undirstöðu úr fjármagni eða steinsteypu. Það er fráleitt að dæma eina "stétt" með stóradómi þótt vitað sé að alltaf leynist einhverjir sem fara ekki alveg eftir bókinni eða lögunum. Sjálfur hitti ég marga öryrkja og það reglulega; einhverjir reyna að komast í "uppréttari" stöðu fjárhagslega með "aukavinnu" utan alfaraleiðar, en þeir eru fáir og svo má vera mín vegna. Efnhagsálundrið á Íslandi er vart í hættu - nema hvað?! Víða er væntanlega skortur, en bætur öryrkja væri verðugt að lagfæra og það sómasamlega.