mánudagur, janúar 31, 2005

Æri-Tobbi

er afar viðmótsgóður halur sem fátt er um vitað, en kemur upp í hugann eftir að hafa lesið pistil Æris þar sem sýndar eru myndir frá Löngufjörum, en mörk þeirra eru nokkuð á reiki í seinni tíð, stundum taldar ná alla leið að Búðum en aðrir segja að Stakkhamri. Þarna hafa hetjur riðið á þeysireið gegnum aldir og tískan hefur að nýju vakið þær upp frá dauðum fyrir hestafólk, en þetta ku vera vinsæl reiðleið. Mikið ævintýri varð við Stakkhamar um 1975 og var ég þar þátttakandi. Þetta var á þeim tímum þegar skotveiðmenn voru ekki búnir að leigja eða kaupa allar jarðir og þá sjáldan sem maður komst af bæjum til veiða, þá var oftast orðið dimmt eða óskothæft, af ýmsum ástæðum. Margar sneiðar af bakkelsi og öðru færði húsfreyjan á Stakkhamri vesælum borgarbörnum. Einn daginn var ákveðið að halda niður að Krossum ef ég man rétt en þeir eru eyðibýli á fjörunum; fyrir ókunnuga má geta þess strax að þarna gætir sjávarfalla og þarf að sæta lagi víða ef ekki á illa að fara. Farið var á Mercury Comet frá Stakkhamri í blíðu og sól, fjörurnar mældar og þá var þarna talsvert líf á sandinum, fugl og selur. Til þess að hafa vaðið fyrir neðan okkur, þá héldum við tímanlega heim á leið, en það fór ekki betur en svo að bíllinn festist á vaðinu við Stakkhamar (þar eru hamrar) og með hverri mínútu sem leið flæddi að bílnum. Þá voru góð ráð dýr, ég snaraðist að bænum og bóndi heimavið, þekkti strax til vandans enda ekki einsdæmi að hans sögn. Ók í loftköstum á traktor niður eftir að bílnum, ég tók síðan kaðal og óð útí "hafið" og náði að kafa með kaðalinn og ná festu; því næst var bíllin dreginn upp en það var ekki einfalt verk sökum leirs og slæmra skilyrða þarna. Á 15-20 mínútum hafði Atlantshafið flætt um svæðið þannig að hvergi sást móta fyrir landi, hvað þá bifreið. Þetta slapp þó allt fyrir horn og síðar færðum við bónda Aumingja fyrir hjálpina. Ekki var aftur farið að Krossum akandi.

Þetta gefur tilefni til að rifja upp vísu Æra-Tobba sem svarað hafði mönnum er hugðust halda á fjörurnar með vísu þessari:

Smátt vill ganga smíðið á
í smiðjunni þó ég glamri.
Þið skulið stefna Eldborg á
undan Þórishamri.


Á þessum stað var hins vegar ekkert vað að finna og segir sagan allir í hópnum hafi drukknað þarna. Var hann kallaður Æri-Tobbi upp frá þessu og talið að hann hafi hlotið þá refsingu að tapa skáldskapargáfunni, en um það má nú deila.

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Lítilmagnar

eins og Halur og frændi hans mega við litlu. Það er nærri ómögulegt fyrir þá að taka gríni hvað þá "þungum" ásökunum borgara lýðveldisins. Halur er enn í sárum sem sjá má af nýlegum skrifum hans og meðferð sú, er hann hefur beitt sjálfan sig, gefur enga raun og engin eða harla lítil von er um bata. Þetta er það sem kallað er "vonlaust tilfelli." Hann hitti konu fyrir nokkru sem er eða var "terapaut" og ráðlagði hún honum að setja á blað ambögur þótt ferlegar væru og alls ekki til sýnis. "Terapaut" þessi hefur farið á mörg sjálfshjálparnámskeið og nærri lætur að þau nálgist hundraðið á fáum árum. Halur spurði hana hvort hún hefði e-a starfsreynslu milli námskeiða, en hún svaraði um hæl með möppur undir hendinni, blautar af svita: "Svona segir viti borinn halur ekki." Halur hélt að hann byggi í þorpi en svo mun nú aldeilis ekki vera; þorpið er þó innan seilingar.

Halur kvað:

Veldur aðeins Halur harmi,
hætta skal þorpsjarmi.
Ella yrði
úr Eyjafirði,
aumum að vísa borgargarmi.

Að óvörum, nokkrum olli harmi,
aumingi með sínu jarmi.
Aðrir segja,
en eigi meyja,
að ágætur reynist þessi barmi.

Hér var komið að vasaklútum í bleijustærð og mörg hlé urðu eins og á Gufunni forðum, en loks kvað Halur:

Demón og dæmalaust illfygli,
dylst í aðfluttum brekkusnigli.
Kallar hann
kaupstaðinn þann:
KEA - með fullri athygli.

Halur mun halda áfram að ná einhverjum bata og öll hjálp er vel þegin og eins og sumir spakir lesendur sjá, þá er þetta ákall um hjálp.

þriðjudagur, janúar 25, 2005

Sótdrukkin

kona varð á vegi mínum í gær eftirmiðdag er ég var að taka díselolíu á ekki-pallbílinn sem ég fæ á stundum að aka um götur þorpsins. Hún lyktaði vel af vínanda sem er e-r besti andi sem til er ef vel er að gáð nema fyrir allsgáða. Sjálfsagt sérkennilegur staður til að stöðva ferð sína þegar kona er drukkin en hún hefur væntanlega þurft að fylla á tankinn þótt bílinn hafi ég ekki séð í fljótheitum. Hún var fremur breiðnefja af drykkju og með byrjandi brennivínsnef eins og karlar fá frekar og kallast "Rhinophyma" ("whisky nose" eða á íslensku hnúskanef!) og er reyndar ekki alltaf dæmigert brennivínsnef heldur húðsjúkdómur á lokastigi sínu. Nokkra blíðu bauð hún þeim er á bensínstöðinni voru, en samt fannst mér sem henni tækist ekki að kveikja eld (losta) í neinum sem þar voru og var það miður hennar vegna enda nægilegt eldsneyti í tönkunum eftir stoppið þarna. Síðast sá ég hana spegla sig á salerninu og karl á leiðinni þangað. Það var gott að ég dældi sjálfur á tankinn skömmu áður. Sjaldan núorðið að sjá dauðadrukknar konur síðdegis á virkum degi.

Þetta var skrítinn dagur enda e-r sunnanmaður sem átti afmæli eftir því sem best var séð á síðu hans: www.aerir.blogspot.com og smámennið er þetta ritar rakst á sendi tvær ambögur. Þetta var dagurinn sem talinn var versti dagur ársins hvað varðar þunglyndi eða svartsýni eftir því sem ég best gat séð af hlaupabrettinu í gær, a. m. k. hvað Englendinga varðar (las bara neðanmáls texta á sjónvarpinu en heyrði ekkert enda lítt kunnandi í öðrum tungum og nota ekki heyrnartól við ræktun).

föstudagur, janúar 21, 2005

Flóðgáttir

hafa engar opnast hjá útigangsmanni þeim er heldur úti þessari síðu. Hins vegar hefur Halur frændi hans Húfubólguson þröngvað sér inná síðuna með ólæti og ambögur í írsku-líki enda geta einstæðingar lent í "psychosis gravis" ef þeir bregða sér af bæ.

Úr einangrun sinni ekki flýgur
einbúinn litli og varla lýgur,
því ekkert bland
bara merarhland
frá belju fær þegar mýgur.

Frændi Hals hefur haft áhyggjur af honum og því þessi:

Halda margir Hali gegn,
halda mætti sérhver þegn,
en óttist eigi
þótt ekkert segi
því einbúinn verður um síðir megn.

Nokkur áhlaup hafa verið gerð að Hali og ber er hver að baki nema sér bróður eða frænda eigi og kemur þar Hali vel að geta heimsótt frænda sinn endrum og sinnum. Um daginn þegar Halur fékk lánaðan gemsa frænda síns var svarað svona í gemsann:

"Þetta er Doddi hérna, gellan sem var hjá mér í nótt gleymdi símanum sínum hjá mér og lestu bara inn skilaboð."

Þetta var meira en Halur þoldi og er sennilega aðalástæða geðraskana hans undafarið. Þar hefur komið sér vel að frændi Hals hefir örlitla meiri þekkingu en enga í kynlífsmálum en samt ráðleggur hann í fásinnu mörgum meðferð í gríð og erg. "Stinnigskaldi" er algengari en margir gruna. Eftir gemsann kvað í kjölfarið Halur þessa:

Karlmennsku sinni hampa hátt,
Halur veit þó eiga bágt,
karlar er reyna,
en konur meina,
körlum aðgang með risið lágt.

Frænda fannst Halur vera orðinn einum of grófur og það sem sett hefur verið í laumi inná síðuna hefur verið gert í óþökk eigandans. Enda fer það honum best að þegja:

Himni undan háum fellur,
Halur allur og skellur,
ýmsir hrökkva,
aðrir sökkva,
er í honum gellur.

Þessi skrif voru eingöngu í tilefni bóndadagsins sem mér var sagt frá í vinnunni í dag, en allir dagar líða hjá án nokkurra merkilegra atburða, enda bæði litblinda, nær- og fjærsýni til staðar hjá fjaðurpenna þessum. Halur laumaði þessu á blað meðan bóndinn var vant við látinn.



sunnudagur, janúar 16, 2005

Úrbeina

lambið fyrst, kartöflur soðnar fyrir gamalt fólk, gulrætur smáar að gerð í smjöri, sósa brún að lit með lamba- og nautabragði, heimatilbúin rifssulta úr garðinum sem varð hálf-misheppnuð, mislitir diskar héðan og þaðan sem og glös, grillið dregið úr skúrnum á upphitað plan, lambið áður skorið í bita og skellt á Weberinn í nokkrar mínútur, hlaupið inn með lambið, því skellt á límtrésplötuna í Pyrex formi, platan sem keypt var í IKEA fyrir tæpum tveimur áratugum hefur dugað vel, brak í stólum sem keyptir voru í búð sem ég vil ekki muna eftir að sinni, spurning hvenær fyrsti maðurinn dettur niður úr stólunum og hefur lögsókn, unnið mál, Drottning Eyjafjarðar í sínu gamla eldhúsi gjörbreyttu, nýi maðurinn með henni og eldri strákurinn á heimilinu loks kominn í eldhúsið, hjarta heimilisins, allir borða vel og eru sáttir með lambið og tilheyrandi. Sönn íslensk gleði. Einfalt er oft best. Það sást einnig í gær með heimatilbúnu pasta með sjávarréttum í vín- og kryddsósu, með smá brauði og Parmesan.

Norrænar

greinar skíðaíþrótta eru ekki vinsælar á Íslandi svona almennt talað, þótt ganga hafi þar nokkra sérstöðu meðal almennings sem e-a útiveru stundar. Um daginn þegar ég var staddur í Skíðastöðum eða Hlíðarfjalls-"hótelinu", varð mér litið í vesturátt þar sem ég stóð á pallinum ofan við innganginn sem ætíð hefur verið kaldur útlits; þar er gamalt útskorið gler ofan við dyrnar með mynd þar sem sjá má hinar norrænu klassísku greinar æfðar - göngu og skíðastökk. Skíðastökk veit ég að stundað hefur verið með glæsibrag á Ólafsfirði á árum áður og hver veit nema Ærir hafi stokkið sitt lengsta stökk í firðinum gamla einmitt þannig hér um árið og kannski lent utan brautar sökum lengdar stökksins; mér er kunnugt um svifeiginleika hans. Það var nú fyrir tíma Hexa-gallans.

Í morgun fór ég með heimasætunni brottfluttu á gönguskíði, frábært færi, en snjómugga og slæmt skyggni og blinda, brautin þó fín sem sagt og tæknin eins alltaf e-ð sem bæta má smám saman. Nokkur ungmenni voru á æfingu og stúlkur þar á meðal, kannski 10-15 manns eða svo. Skíðaganga er sennilega einhver skemmtilegasta og hollasta útivist eða íþrótt sem unnt er að stunda hérlendis að vetri til og skiptir þar engu hvernig viðrar svo lengi sem e-r spor eða braut má finna, nema gengið sé utan brautar þar sem nægur snjór er; það finnst mér ætíð ánægjulegast enda með stálkanta á skíðunum. Ég held að líkja megi skíðagöngu að nokkru við hjólreiðar þar sem aðstæður eru fyrir hendi, sem er vart hérlendis nema á stöku stað; það flokkast undir hálfgerða glæframennsku að hjóla á hringvegi nr. eitt, tillitssemin lítil sem engin því miður. Eins og lesendur hugsanlega muna, þá hygg ég á frekari landvinninga hjólandi í sumar og hló þá Hlóriði.

Skorað er á alla hugsandi menn að taka fram gönguskíðin. Það er einnig hægt að fá ókeypis súrefnismeðferð þegar sporið er tekið í snjónum, hvað þá ef maður kemst þangað þar sem himnarnir byrja.

laugardagur, janúar 15, 2005

Sá fáheyrði

atburður átti sér stað í Vinaminni í gær, að þar kom í heimsókn tengdamóðir mín ásamt síðari maka (heilögum), eftir að hafa borið með sér heimabakað rúgbrauð í rútunni alla leið að sunnan; smakkaði það í dag eftir skíðaferð og hafði þessi fæða góð áhrif á mig. Hún hefur haft það fyrir sið að bera með sér heimabakað rúgbrauð í ísboxi á síðari tímum, gjarnan smjörafbrigði með. Allt verður ljósara í heimi hér þegar ég hitti hana og má þar nefna vandræðin með brauðristina, sem hafði verið hálf-ónýt mánuðum saman, en loks varð að hætta notkun hennar þar eð rafmagnið sló út ef brauð var ristað í Vinaminni. Ég minntist þá gömlu ristarinnar hennar sem ég hafði gengið frá útí skúr í fyrra þegar ég sló eldhús hennar úr kjallaranum. Gömul Russell & Hobbs rist sem endist ævilangt eins og mörg þessara gömlu rafmagnstækja sem voru framleidd til að duga. Annað benti hún okkur á varðandi frétt um háþrýsting sem væri eða yrði meiri plága en nú er í famtíðinni. Taldi hún ekki ólíklegt að orsaka væri eða leita í geimgeislun. Þetta fannst mér góð tillaga enda læknastéttin algjörlega út að aka í eiginlegum orsökum háþrýstings, nefna ótal faraldsfræðileg atriði en vita ekki hvað veldur eða gerist í mannskepnunni nema í fáeinum prósentum tilfella þegar best lætur. Læknisfræðin hefur mörg tól og tæki til að mæla og skrá, en vitneskjan um það hvað kemur meinsemdum af stað liggur víðast grafin. Nú er í tísku að nefna erfðir og umhverfi, hvað verður næst? Hérlendis er mikilvægast að tolla í tískunni í þessu sem öðru.

fimmtudagur, janúar 13, 2005

Stundum gerast

skemmtilegir hlutir. Einnig er mikilvægt að endurskoða ákvörðun eða hugsanir sínar. Eins og þeir hafa gert í S-Kóreu með hártísku karla og nefnt var í blöðum dagsins. Þeir segja að of sítt hár ræni heilann orku og fólk sem tekur upp erlendar venjur verði heimskingjar og slíkrar þjóðar bíði hrun eitt eða e-ð álíka. Hárvöxtur eða lubbi hefur áreiðanlega verið að hafa áhrif á mig í vikunni þar sem konan hafði ekki náð að klippa mig með sauðaklippunum niður í 1-2 mm hið mesta frá hársverði og ranghugmyndir farnar að skjótast uppúr kollinum. Vikuleg klipping er fín og algjört lágmark ef vel á að vera. Strax og ég hafði verið vel snyrtur í 2 daga fór að bera á bata og ég tók skynsamlegar ákvarðanir og breytti því sem rangt hefði verið að gera. Ekki skemmdi fyrir að ég fékk senda vísu frá samstarfsfólki einnar deildarinnar eftir að hafa sent þeim svolítið þakkarskeyti fyrir dygga aðstoð á rafrænu formi en hluti þess var svona:

Barmar ykkar breiðir og stórir,
birtu og yl hýsa.
Minnist gjarnan meðan tórir,
en má ekki nánar lýsa.


Þær svöruðu um hæl:

"Barminn okkar bjóðum þér
besti vinurinn góði
þá verðurðu eins og vera ber
villtur foli í stóði."


Eftir þetta má nefna að ég hef leigt hólf hér í Kræklingahlíðinni og mun vera vel greiddur í hólfinu.

sunnudagur, janúar 09, 2005

Prentun ljósmynda

er ekki alltaf einföld; hvenær er myndin nægilega góð á pappír? Eða nægir að hafa myndina á pappír óháð skýrleika? Þessi vandamál hafa komið upp hjá mér margsinnis eftir að prentarinn kom í kjallarann þar sem parketið var lagt í sumar til endurnýjunar og lyktbætandi verkefni var það. Sennilega er best að fá sér gamla Kodak imbamatikk vél eða þá sem nú hefur verið költ-vél lengi, þ.e. LOMO-vél austur-þýska að uppruna; myndirnar úr þeim lifa víst sjálfstæðu lífi.

Milli þess sem ég var að dunda í prentuninni (fyrir ófróða má nefna að ég vann á sínum tíma sem sendill í Gutenberg þegar enn var handsett og blýsetning ekki alveg dauð) og ekkert nægilega gott sem stórt var prentað, las ég aftur nokkra vel valda kafla í Fluguveiðibók Péturs í Laxárnesi sem út kom árið 2003, en ekki 1903 eins og sumir gætu haldið þegar textinn er lesinn. Þar eru myndirnar afar skýrar, prentunin góð, margt fróðlegt og "skemmtilegt", en ummælin sem hann lætur flakka um ónefnda menn (allir mega hafa skoðanir!) eru áreiðanlega einsdæmi á síðari tímum og merkilegt að bókin hafi ekki verið ofsótt af einhverjum ónefndum aðilum eða krafist lögbanns á hana. Það hefði sjálfsagt verið búið að gera, ef um konur væri fjallað í bókinni, en þeirra hlutur er rýr mjög eins og gefur að skilja (verð ég kærður fyrir þetta?); þær fóru ekki að ganga með ám og vötnum í vöðlum eða stígvélum með stöng í hendi neitt að ráði fyrr en síðasta áratuginn eða svo. Pétur talar um "þjóninn" og "húsbóndann", dregur menn í dilka, verstir eru Belgar, Frakkar og Svíar ef ég man rétt að "ormaskaulunum" undanskildum. Bók þessi varð ekki mjög vinsæl (held ég). Og sökum þessara norðlensku skrifa nærri Laxá með alla sína hólma og eyjar, vil ég nefna aðra bókarglætu sem varð eftir á milli stæða í bókaflóðinu fyrir e-m árum, 2001 ef ég man rétt. Þar var m.a. skrifað um veiðiferð í Laxá í Laxárdal af talsverðri kunnáttu þess sem var að hefja fluguveiðar, enda "fýsir asna oft í ófæru" eins og ég sjálfur þekki vel frá mörgum veiðiferðum; ótrúlegt að maður hefur "alltaf" komist lifandi heim úr öllum þessum ferðum. Bókina gaf út Gísli Sigurðsson, sem ég held að hafi verið mér samferða í menntaskóla en á annarri fluguveiðibraut (þessar upplýsingar voru staðfestar af "Frater in canto et laboro" sem mun hafa verið að veiðum á sama tíma og Gísli, "frater" fákunnandi að sögn enda í sinni fyrstu eða annarri veiðför). Gísli á þakkir skildar fyrir bók þessa, sem ég reyndar eignaðist eigi, en hefi lesið suma kaflana oftar en einu sinni í bókabúðum og á safninu, en fáar bækur hljóta slíka yfirferð af minni hálfu. Þessi bók er afar ólík bók Péturs, en báðar góðar á sinn hátt. Ég held að ég reyni að kaupa bók Gísla þar sem fáar slíkar hafa út verið gefnar og mæli með henni (nú er botninum náð eins og hjá Sirrý og Ljósa-Ó-peru). Konur fá ágæta yfirferð í bók hans.

Þetta er áreiðanlega skitsófreníueinkenni að skrifa svona, en ég ætla í lokin að nefna það, að ég mun leita að gömlum veiðimyndum af sjálfum mér og öðrum sem teknar voru á filmu fyrir löngu síðan, skanna þær inn og prenta óháð því hvort þær verða skýrar eður ei.

Ljósmyndaþættinum er lokið. Náð og miskunn megi vera með yður.



föstudagur, janúar 07, 2005

Ljósmyndaflóðið

hefur verið mér nokkuð hugleikið lengi og ekki batnaði það þegar keypt var ódýr stafræn myndavél í fyrra; fyrr má nú rota en dauðrota. Ein ljósmynd nægir mörgum af einstökum hlutum eða atburðum. Í ferðum mínum um heiminn og landið, klæddur og auðþekktur sem algjör sveitamaður eða utanbæjarmaður, hef ég lengi tekið e-r ljósmyndir og bestu myndirnar alltaf teknar þegar filmukaup og framköllun var (og er) kostnaðarsöm fyrir mig; árum saman lá Canon ljósmyndavél í hólfi milli framsæta bifreiðar heimilisins, hún tekin upp þegar síst skyldi og oft skilaði þessi árátta góðum myndum og eftirminnilegum en ætíð á slæður. Nú hellast yfir mann myndir af engu, 235 myndir teknar ef ekki "neinu", ekkert valið úr eða sett til hliðar, magnið yfirgengilegt. Sjálfur hef ég freistast til að taka margar myndir af ekki neinu með því fororði að þessar myndir verði e-r þakklátir fyrir síðar! Ég hef einu sinni séð eða komið á merkan stað í útlöndum (alhæfing slæm) þar sem óþarfi var að taka myndir. Hvar var nú það? Jú, í landi Egyptans við pýramíðana; þá þarf ekki að mynda, eitt af fáu sem tók sér bólfestu til eilífðar í sjónhluta heilans.

Það er sjaldan að e-ð fréttnæmt gerist útí heimi eða um það sé skrifað. Gleðin var því ósvikin þegar ég las um frumbyggja (?) eða ættbálka sem hafa þá skoðun (hvernig sem hún verður skilin til hlítar) að vilja ekki láta taka af sér myndir og segjst þá verða fyrir veikindum í kjölfarið. Þetta er ekki Hollívúdd-liðið í heiminum og á Íslandi sem reynir að forðast ljósmyndara þegar því hentar en óskar eftir papparassí-myndum þegar hentar til auglýsinga fyrir sjálft sig. Kannski geta þessar kenningar hjálpað okkur við að skilja síþreytu, slen, nútímasjúkdóma og annað sem enginn veit hvað er. Kannski eru ýmis veikindi sökum alls kyns geislunar eða slæmra orkuafla frá tækjum og tólum; blossar og flöss, sjónvörp, tölvur, símar, örbylgjuofnar, ritvélar, rafmagnsstaurar, segulbönd, ipod, hvað fleira?

Örfáar myndir komast á vegg eða verða minnisstæðar. Ein þeirra verður hér nefnd og er alls ekki í neinni mótsögn við það sem að ofan hefur verið skrifað. Ég nefndi það í einu sinni í fyrra að mér hefði áskotnast miðdagsgjöf með kaffinu sem kom mér í opna skjöldu. Þetta er mynd af mér útí garði með vinnuvettlinga, gamla Bulls-húfu og skóflu og hjólbörur nærri. Með mér á myndinni er Tom Waits með hatt og heldur hann á ljóskeri enda er myndin greinilega tekin að næturlagi. Það vita sjálfsagt fáir hérlendis að hann hafi hjálpað mér í garðinum (ekki við að jarðsetja eða grafa upp lík) en við það tækifæri hefur greinilega náðst ein ljósmynd og eftir því sem ég veit best er þetta eina myndin sem til er.

Það er þó jákvætt að allir - ég meðtalinn - sem hafa myndatökuáráttu á köflum, hafi komist í kynni við stafrænu veröldina þar sem hún getur sparað mikil óþarfa útgjöld og kennt okkur að magn er ekki sama og gæði. Best að fá sér almennilega stafræna myndavél.

þriðjudagur, janúar 04, 2005

Myndhverfing

málsins er skemmtilegt fyrirbæri. Ýmislegt flokkast þar undir og flestir mér fróðari vita allt um slíka hluti. Kem hér með afbrigði. Mér kemur nú í hug í kvöldkulinu að nefna orðið "annesi" eða "ann-nesi"sem fyrirbæri sem nota skal í stað og stundum samhliða "Hann-nesi". "Hann-nesi" og "Hann-nesar" eru einstaklingar sem eru utan vega (eða utan alfaraleiðar hvar sem hún liggur) en stundum innan eftir því við hverja er rætt og afar nauðsynlegir lýðræðinu; standa úti á annesi með hafið framundan og neðan við. Sagan sýnir að slíkir einstaklingar standa oft uppi sem sigurvegarar þegar farið er yfir gögnin áratugum eða öldum síðar. Meirihlutinn hefur alltaf rangt fyrir sér. Slíkir menn eru nauðsynlegir og ekki annað hægt en dást að dirfsku þeirra og sannfæringu hver sem hún er hverju sinni; hugmyndafræðin þó iðulegast nokkuð steingerð. Gjarnan einstaklingar sem þorri manna er andsnúinn hugmyndafræðilega séð í lifanda lífi. Velti fyrir mér hvort ég geti verið "Hann-nes(i)" eða útá "ann-nesi" eða hvað?! Sennilega er þetta langsótt myndhverfing miðað við hefðbundnar (skýr dæmi: steindauður, svínslega feitur). Allir sjá þó tenginguna við "ann-nesi" eða "annesi" eftir því hver rithátturinn skal vera (annesi í réttritunarorðabókinni eins og allir vita).

Eyjar mínar og "ann-nesi"
andann nærir.
Harla margt á "Hann-nesi"
halur lærir.

Eða var það:
Harla fátt á "Hann-nesi"
halur lærir.

Sjóninni hrakar, því þessir stóru stafir. Minni á bloggsíðu sem hann Ærir ("ekki Æri-Tobbi") heldur úti.

Gleðilegt ár og afsakiði á meðan ég æli.