laugardagur, maí 27, 2006

Ókeypis dægrastytting

eða áhugamál eru af ýmsu tagi, en fæst eru kannski ókeypis þrátt fyrir allt. Það er vissulega ætíð unnt að eyða einhverjum skildingum í áhugamálin, en t.d. það að skoða fugla er í eðli sínu ókeypis, einnig að ganga úti við; sleppum því að ræða um skóna eða sjónauka og annað álíka sem má þá nota í annað en áhugamálið. Aftur er farinn að heyrast fuglasöngur nærri Vinaminni og Halur hefur litið eftir fuglum við sjávarsíðuna og í fjöruborðinu, við leirur og ósa. Þar er gott líf í vaðfuglum sem nokkrir heimsækja Ísland árlega; í sérstöku uppáhaldi er jaðrakaninn, en hann er einn fegurstur fugla er heimsækja landið, fegurri en stóriðjufuglarnir. Það þarf að hafa talsvert fyrir því að vera fugl á Íslandi þetta vorið. Jaðrakaninn sýndi Hali þann heiður að sýna sig í fjöruborðinu eða réttari sagt við leirur og fyrir það vill Halur þakka. Jafnvel spóinn var í heimsókn á Vinaminnishólnum í dag.

þriðjudagur, maí 23, 2006

Legnám

ætti vart heima á síðu sem þessari, fullri af e-s konar karlfýlu og álíka. Hins vegar er það nú svo að Halur veltir því fyrir sér (!) hvernig standi á því að á Íslandi fari 4ða hvert leg í formalín og aðallega sökum góðkynja "sjúkdóms" ef tölur eru réttar, en svona er þetta víða, sums staðar skárra og annars staðar verra. Svo var einhver að tala um framfarir í læknisfræði!? Þetta er nú kannski aðallega til að misskilja eða hvað? Þetta er kellíngablogg Hals þessa mánaðar.

mánudagur, maí 22, 2006

Heiðarnar eru samar

við sig (ekki Samar!); alltaf er spurt: "Hvernig var heiðin?" Kona í kjallara spyr: "Var heiðin ekki slæm?" Kona sem nálgast lífeyri, sem sennilega er lítill sem enginn eftir að hafa þrifið gólf og stofur á spítlanum áratugum saman. Þrifið vel. Enn eymir af því að heiðarnar voru hinn versti farartálmi á öldum áður. Enn eina ferðina fór Halur vestur í Skagafjörð árla morguns og vildi hafa drjúgan tíma til fararinnar. Veður í raun allt hið ágætasta er komið var rétt neðan við hæsta punkt, rétt vestur fyrir möstrin á Öxnadalsheiði. Eins og oftast er, versta færið í Öxna- og Hörgárdal, sem og nærri Akureyri. Sól í heiði, nærri vor, en tímabundið, er farið var meðfram Blönduhlíðinni. Engir helsingjar eða blesgæsir, en grágæsir á túnum nærri Miklabæ og vestar, mest kropp að hafa sjálfsagt. Farfuglar líklega áttaviltir. Engin spretta enn í úthaga sagði maður kunnugur Hali og öllu, já öllu í Skagafirði.

sunnudagur, maí 21, 2006

Nú er staddur í bænum

maður nokkur, sem hefir einn þann allra sérkennilegasta og skemmtilegasta hlátur er Halur þekkir. Halur stóðst ekki freistinguna (enda finnst flestum betra að standast þær ekki en hitt!) þegar hann hitti viðkomandi á tog- og þrekæfingu sem og í sturtu gærdagsins; hann kreisti einn brandara úr sér og þá fékk hann að launum þennan góða hlátur. Þannig er með flesta góða eða ágæta hluti; þeir eru fáum kunnugir og liggja ekki á glámbekk nútímans. Enn betra var það í morgunsundi hvíldardagsins, en Halur rakst þá á sama mann á bökkunum og sagði strax: "Þú bara eltir mig!" Ekki merkilegt það (svona eru brandarar Hals lélegir), en viti menn, hláturinn kom og ekki átti þetta eftir að versna. Nefnilega það, að sundfreyjan í Vinaminni, sem er Hali allnokkrum sundtökum fremri (þótt lögunin gerir Hali einnig erfitt fyrir í samanburði við hana sem er í laginu eins og Guð skapaði sundfólk og fiska sjávarins), kenndi Hali eitt af leyndarmálum sundsins. Ekki fannst henni það merkilegt, en fyrir honum er þetta sennilega upphaf frekari "afreka" milli bakka. Sundveður dagsins var í raun sýnishorn af öllu því sem prýtt getur sumarið; norðankaldi, logn, éljagangur, snjómugga, bylur, sólarbirta, dregið fyrir sólu, skýjafar breytilegt. Síðan heitt kaffi í Vinaminni.

fimmtudagur, maí 18, 2006

Halur er maður

vanans; ekkert kemur á óvart í lífi hans, en margt í annarra; þar eru skemmtilegheitin. Halur er sáttur við þetta, en stöku sinnum kemur lífið Hali í opna skjöldu. Halur reynir að ganga eða hjóla milli staða enda alla tíð þurft að huga að heilsu og þyngd. Undafarið hefur hann hjólað milli staða en nokkuð hauskalt á stundum. Halur fór af stað í morgun sem venja hefir verið á nokkuð gömlum DBS reiðskjóta án dempara eða annarra þæginda nútímamannsins. Það er svo sem ekki í frásögur færandi, en þegar Halur er kominn þangað sem hann réttir jafnan úr sér rétt áður en hann tekur síðustu beygjuna á hælið, verður honum skyndilega nokkuð bylt við. Hann leit upp og reiknaði með að finna skyggni hjálmsins, en hendinni mætti dula eða höfuðfat í tauformi og ekkert annað. Hali tókst að ná beygjunni en þessi viðburður, já viðburður, var honum nærri um megn og því skrásettur hér, enda ekkert sem gerist hjá honum sem nokkur gæti haft ánægju af að heyra. Halur hafði því farið út án hjálmsins, aðeins með duluna á hausnum. Það sem meira er, þá hefur freyjan í Vinaminni sjaldan orðið meira undrandi en sökum þessa. Halur hélt skamma stund að hjálmurinn hefði fokið af hausnum, en svo var nú ekki skv. heimildum heima fyrir. Sjálfsagt er freyjan búin að panta segulómun af haus þess er hjólaði, en sá hinn sami er í stökustu vandræðum með það (sökum vanafestu) hvort hann eigi að leiða reiðskjótann við hlið sér heim á leið ellegar brjóta lög eins og aðrir, þ. e. hjóla og finna fyrir syndinni, syndinni sem hann lærði um í KFUM á sínum tíma. Dulan líkist þó hjálmi og gæti hindrað skráningu í bækur varða laganna, sérstaklega ef þeir væru að snæða á vaktinni, borða kex í bílnum eða leggja sig.

föstudagur, maí 12, 2006

Það er mögulegt

að gleðjast yfir ýmsu eins og t. d. því að borða afganga. Það er einnig auðvelt að gleðjast yfir því að eldri sonurinn í Vinaminni fékk rétt áðan viðurkenninguna "mestar framfarir" í handboltanum í sínum flokki hjá KA, sérstaklega eftir að hann var að spá í að leggja boltann á hilluna í haust. Halur hefur fundið í nokkra mánuði að æfingarnar eru farnar að skila árangri; hann þarf að taka "vel á drengnum" ef hann vill ekki sjálfur verða undir. Þannig má sjá að oft er stutt á milli árangurs og hins að leggja upp laupana; þrautseigjan, þolinmæðin og æfingin eru systkini er leiða oft til ágæts árangurs í hverju sem er, svo nokkuð verði alhæft. Þetta minnir Hal á það að iðulega fæst fiskur í "síðasta kasti". Til hamingju með árangurinn segir sá er hér heldur á netpenna.

miðvikudagur, maí 10, 2006

Sumt

hefir Halur átt erfitt með að sætta sig við í málfari fólks; sumt er rétt og annað rangt eins og alltaf. Síðan kemur smekkurinn eða tíðarandinn. Nú á allt að stytta sem mest og helst að skammstafa. Hali er einn kennari minnisstæður gegnum tíðina en sá hinn sami var með klárar reglur og leiðbeiningar hvað snerti íslenskt málfar og sérlega slettur; eina "slettan" sem hann gat samþykkt var heitið bíó!. Orð eins og partí og strætó voru ekki æskileg og fallbeygingar voru einnig afar mikilvægar. Svo er komið að æði mörg orð eru nærri einungis notuð í nefnifalli. Gott dæmi er orðið lítri. Þegar farið er í Brynju og beðið um einn lítra af ís, þá er hvumsað og spurt: "Einn líter, einn líter, líter". Halur þráast við og mun áfram biðja um einn lítra af hvítum ís. Sumar breytingar eru skemmtilegar og sennilega af hinu góða eins og þær að fólk nefnir sig alls kyns nöfnum opinberlega, notar gælunöfn og álíka í stað þess heitis er þröngvað var uppá viðkomandi áður en hann gat haft skoðun á eða annað. Auðvitað er þetta þekkt gegnum tíðina og sérlega í sjávarplássum en hér átt við nýyrði og álíka, ekki bara Jón Gunnu. Þessum útúrdúr er lokið eins og samræmdu prófunum. Engar framfarir í skólakerfinu.

mánudagur, maí 08, 2006

Grasið

er ekki grænna hinum megin og allt er vænt sem vel er grænt (eins og Vinaminni og vonandi Vinaminnisgarðurinn eftir nokkrar handunnar breytingar), það hefir sannast undafarna daga. Svo verður á meðan mannfólkið gerir ekki enn meiri usla í lífkeðjunni, háloftum og fjörðum; það er þó eiginlegur "bíóterror" í gangi alla daga þótt ekki sé um bótox að ræða. Einn "góður dagur á Íslandi" er eins og tíu í útlöndum. Sama hvert litið er, það er ekta vortilfinning í lofti þessa stundina. Vorið sleppur iðulega komu sinni norðan heiða, en þetta lofar góðu þótt kuldinn gægist við næsta horn.

fimmtudagur, maí 04, 2006

Þegar meira er verra, þá er

ekkert verra. Ekkert verra veit Halur (eða fátt) en menntahroka eða merkilegheit tengd menntun eða gráðum. Í handraðanum er auðvelt að finna ótal dæmi þessa. Í heilsugeiranum er þetta daglegt brauð. Furðu margir telja þó enn að menntun, hver sem hún er, sé alltaf forsenda eða mikilvægust í leit manneskjunnar að árangri eða álíka, menntun er þekking; svo er nú aldeilis ekki. Hér á Halur sérlega við það sem kallað er "langskólanám" eða það að "hafa próf". Það er svipað með skólagönguna og pappírs- og greinamagnið sem öllum er ætlað að komast yfir daglega. Margir skemmtilegustu og greindustu menn sem Halur hefir nærri komist eru einmitt ekki "langskólagengnir" og hafa ekki examen upp á vasann og fylla ekki þann flokk sem gengur með examen undir hendinni milli staða. Þeir ganga með vitið milli eyrna og milli staða. Þeir hafa hæfileikann til að greina hvað er skynsamlegt að kunna og gera og hvernig megi til dæmis verða til gagns; það er mörgum "langskólagegnum" hulið með öllu. Þegar meira er verra, þá er ekkert verra.

þriðjudagur, maí 02, 2006

Innsláttarveiki

er nokkuð algeng í dag og hefir sjálfsagt verið árum saman ef ekki tugum og hundruðum. Innsláttarveiki eru innsláttarvillur sem fram koma í texta ("teksta") á tölvuöld (tölvukvöld) þegar t. d. hreyfigeta (hreyfingigeta) er meiri en í meðallagi ásamt nokkurri blindu. Það að lesa gögn sem einungis eru til á rafrænu formi, óleiðrétt að mestu, er nokkuð sem kannski fáa hefur grunað hvernig færi og þó. Dómur afkomenda verður eða er klár nú þegar. Innsláttarveikin kemur stundum fram í tali fólks og jafnvel svo að gamlir og góðir bændur, er eigi hafa alist upp við óhefðbundna ávexti eða grænmeti, kalla þá ýmsum skemmtilegum nöfnum; hinn góði bóndi úr hlíðinni lauk samtalinu þannig að hægðirnar væru bara ágætar eftir að hann fór að borða "banana og kívanis"! Sjálfsagt er það ástæðan fyrir streymi fólks í félagasamtök eins og "Kívanis" (þau eru hægðabætandi) en það er þó nokkur spurn með frímúrarana; hvað skyldi þeir nú borða?