sunnudagur, maí 21, 2006

Nú er staddur í bænum

maður nokkur, sem hefir einn þann allra sérkennilegasta og skemmtilegasta hlátur er Halur þekkir. Halur stóðst ekki freistinguna (enda finnst flestum betra að standast þær ekki en hitt!) þegar hann hitti viðkomandi á tog- og þrekæfingu sem og í sturtu gærdagsins; hann kreisti einn brandara úr sér og þá fékk hann að launum þennan góða hlátur. Þannig er með flesta góða eða ágæta hluti; þeir eru fáum kunnugir og liggja ekki á glámbekk nútímans. Enn betra var það í morgunsundi hvíldardagsins, en Halur rakst þá á sama mann á bökkunum og sagði strax: "Þú bara eltir mig!" Ekki merkilegt það (svona eru brandarar Hals lélegir), en viti menn, hláturinn kom og ekki átti þetta eftir að versna. Nefnilega það, að sundfreyjan í Vinaminni, sem er Hali allnokkrum sundtökum fremri (þótt lögunin gerir Hali einnig erfitt fyrir í samanburði við hana sem er í laginu eins og Guð skapaði sundfólk og fiska sjávarins), kenndi Hali eitt af leyndarmálum sundsins. Ekki fannst henni það merkilegt, en fyrir honum er þetta sennilega upphaf frekari "afreka" milli bakka. Sundveður dagsins var í raun sýnishorn af öllu því sem prýtt getur sumarið; norðankaldi, logn, éljagangur, snjómugga, bylur, sólarbirta, dregið fyrir sólu, skýjafar breytilegt. Síðan heitt kaffi í Vinaminni.

2 Comments:

At 3:07 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Þetta er lýsing á afspyrnu góðum helgardögum í mínum bókum, kaffið í Vinaminni ekki hvað síst.

 
At 3:08 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Það átti að vera lítið k í lokin á síðustu athugasemd. Kveðja úr vesturheimi.

 

Skrifa ummæli

<< Home