Halur er maður
vanans; ekkert kemur á óvart í lífi hans, en margt í annarra; þar eru skemmtilegheitin. Halur er sáttur við þetta, en stöku sinnum kemur lífið Hali í opna skjöldu. Halur reynir að ganga eða hjóla milli staða enda alla tíð þurft að huga að heilsu og þyngd. Undafarið hefur hann hjólað milli staða en nokkuð hauskalt á stundum. Halur fór af stað í morgun sem venja hefir verið á nokkuð gömlum DBS reiðskjóta án dempara eða annarra þæginda nútímamannsins. Það er svo sem ekki í frásögur færandi, en þegar Halur er kominn þangað sem hann réttir jafnan úr sér rétt áður en hann tekur síðustu beygjuna á hælið, verður honum skyndilega nokkuð bylt við. Hann leit upp og reiknaði með að finna skyggni hjálmsins, en hendinni mætti dula eða höfuðfat í tauformi og ekkert annað. Hali tókst að ná beygjunni en þessi viðburður, já viðburður, var honum nærri um megn og því skrásettur hér, enda ekkert sem gerist hjá honum sem nokkur gæti haft ánægju af að heyra. Halur hafði því farið út án hjálmsins, aðeins með duluna á hausnum. Það sem meira er, þá hefur freyjan í Vinaminni sjaldan orðið meira undrandi en sökum þessa. Halur hélt skamma stund að hjálmurinn hefði fokið af hausnum, en svo var nú ekki skv. heimildum heima fyrir. Sjálfsagt er freyjan búin að panta segulómun af haus þess er hjólaði, en sá hinn sami er í stökustu vandræðum með það (sökum vanafestu) hvort hann eigi að leiða reiðskjótann við hlið sér heim á leið ellegar brjóta lög eins og aðrir, þ. e. hjóla og finna fyrir syndinni, syndinni sem hann lærði um í KFUM á sínum tíma. Dulan líkist þó hjálmi og gæti hindrað skráningu í bækur varða laganna, sérstaklega ef þeir væru að snæða á vaktinni, borða kex í bílnum eða leggja sig.
1 Comments:
Það er gott að þú komst óhultur á leiðarenda þrátt fyrir áfallið :)
Skrifa ummæli
<< Home