þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Nýtt spjald

eða merki, teikn - var tekið í notkun í dag í Vinaminni; áður kannaðist Halur við litina þrjá sem allir þekkja og hann einnig. Nú er ennfremur unnt að beita "tæm-át" merkinu, sem unglingar kalla í dag, tíminn búinn, leikhlé, pása eða hvað eina sem við viljum kalla það. Tafarlaust verður Halur að stöðva tunguna er frúin sýnir honum þetta tákn eða merki og ekki má hann byrja aftur fyrr en hún segir eða gefur merki um slíkt. Halur er þakklátur þessu nýja tákni og telur að það verði honum til framdráttar með árunum því hver man ekki eftir hinum ofnotaða frasa: "Góðir hlutir gerast hægt". Halur hefir það á tilfinningunni að þeir noti þennan frasa mest er minnst þurfa að bíða. Margt er ofnotað á landi voru, margt er orðið þreytt.

Eitt nýtt, en þó gamalt í minningunni, sá Halur í dag, en það voru unglingar í vinnuskólanum að borða nesti og drekka vökva; það sem var gamalt og gott var hins vegar aðferð sú er þeir beittu til að hvílast. Notuðust þeir við hjólbörur uppá endann og sátu í börunum, þannig að úr varð hægindastóll, ekki ólíkur hinum ofnotaða (upprunalega ágætur sjálfsagt) Le Korbúsíér, en helstu arftakar hans hérlendis eru stólarnir dönsku sem nánast eru komnir inná salerni Íslendinga. Annars er Halur (jafnvel) aldrei þessu vant í ákveðnu átaki fyrir andann, annarra vegna!

3 Comments:

At 11:32 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Með átaki skal anda lyfta,
og aldrei láta niður síga.
Ef að ekki er öðru að skipta,
oft er gott þá úti "haltra".

 
At 3:57 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

sælir frændur,
Arnaldur á Vogi Grafar hér. Það getur oft verið erfitt að búa með og umgangast annað fólk. Hátternisreglur tröllríða öllu og menn mega ekki segja neitt (sem getur reyndar verið fyrir bestu þegar menn ganga of langt, og það loðir við karlpeninginn í þessum ,,ættbálki´´). Hins vegar er tjáningarfrelsið stjórnarskrárbundinn réttur allra, þar á meðal Hals. Reynslan hefur sýnt mér að best er að ganga meðalveginn í þessum málum sem öðrum en stundum finnst manni að reynt sé að steypa persónuleikann í form sem hann passar ekki í. Ég tel því að ekki skuli (alltaf) lasta þann sem syndir á móti straumnum.
Eftir að hafa lesið yfir bréf mitt sé ég að þetta er dálítil steypa hjá mér en ég mun samt notfæra mér tjáningarfrelsið og birta það.

Kveðja

Arnaldur Hjartarson

 
At 9:19 e.h., Blogger Halur Húfubólguson said...

Hátternisreglur hafa ætíð verið Hali nokkuð erfiðar í umgengni allri eins og fram kemur hjá frænda. Andinn hefur aðeins náðst upp á við með því að fara á haugana með jarðefni, pappa af trommusetti auk eldavélar í nytjagám (var lengi inní honum); ferðatöskur sem frúin sagði að væru löngu ónýtar (?) fylgdu með en vinur í götunni sagði að þær væru áreiðanlega ónýtar ef frúin segði svo.

 

Skrifa ummæli

<< Home