sunnudagur, ágúst 21, 2005

Einstök orð

geta vafist fyrir Hali en önnur geysast fram í réttu samhengi og nýyrði gerð í framhaldinu eins og þegar hugsað er til orðanna að þjóta, þytur og þota svo einfalt dæmi sé tekið. Lengi hefir Halur velt orðunum fnjóskur, Fnjóská og Fnjóskadalur fyrir sér og ekki batnaði það er hann var að veiðum í ánni sem kennd er við þennan langa og fjölbreytilega dal, þar sem vöxtur gróðurs og trjáa er sérlega mikill svæðisbundið. Svipuð, en einfaldari eru t.d. orðin hnjóskur, hnjótur, að hnjóta, hnjóskulegur. Nokkur orð byrja á fn- og fnj- í íslensku máli, en þau eru fá. Hin íslenska orðsifjabók Ásgeirs Blöndals kemur oft að góðu gagni er uppruni orða er athugaður. Vissulega koma þar fram ágætar skýringar og tengsl milli t. d. orðanna fnjóskur ("þurr og feyskinn trjábútur, fúið viðarsprek") og fnjóskþurr ("skraufþurr") sem og tengsl þeirra við hljómlík norræn nöfn eða heiti. Eftir að Halur er nokkuð sáttur við sennilegustu skýringar á orðinu Fnjóská, vill hann við bæta að þar er á ferðinni fljót er einna hentugast verður að teljast til að læra fluguköst og annað er að þeirri athöfn eða íþrótt viðkemur; langar og styttri lygnur, strengir misstríðir, flúðir, fossar, hyljir, steinar, enginn botngróður til trafala, nærri engar botnfestur, fáir bakkar til að festa bakköstin fyrir óvana, unnt að veiða vestan og austan ár eftir vindi, góðir steinar að setjast á og borða nestið sem þúfur og trjálundir, fjölbreytt landslag, gljúfur, háir og lágir bakkar. Mikill viðauki verður er fiskur tekur fluguna.

Halur hyggur að fáir hafi velt þessum orðstofni fyrir sér og þar fer hann fyrst og fremst eftir ókunnugleika þeirra er voru við veiðar í Fnjóská fyrir skömmu, allt prýðilegir veiðimenn og vanir ánni, en ekki grunur um þýðingu orðsins, sem var upphafið að þessum pistili með þýskum útskotum. Pistillinn var eingöngu skrifaður til að upplýsa vandamál er Halur getur glímt við árum saman, þótt þau virðist ekki miklu máli skipta suma aðra. Þannig er líf Hals og að lifa með Hali.

2 Comments:

At 9:58 f.h., Blogger ærir said...

þetta er semsagt skraufa þurr á?

 
At 7:18 e.h., Blogger Halur Húfubólguson said...

Halur getur tekið undir þau orð að nokkru fyrir hönd þeirra er í hollinu voru, en sjálfur þarf hann ekki að kvarta fremur en áður; engar kröfur gerir hann lengur um afla, þótt þurfa þyki á stundum að draga fisk að landi, jafnvel drepa ef illa farinn eða hentugur til annarra hluta. Í seinni tíð hefir þetta verið fremur "þurr" á hvað afla á land snertir, en Halur setti í nokkra fallega laxfiska í túrnum en sem betur fer fóru sumir þeirra af öngli aftur. Í veiðinni er það núorðið fyrst og fremst "takan" sem skiptir máli fyrir utan félagsskap góðra manna og náttúru.

 

Skrifa ummæli

<< Home