fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Þau undur

og stórmerki gerðust fyrir nokkru, að Halur fór til veiða í Fnjóská, en þar hefir hann aldrei feykt flugu í fljót; fljót er sumir hafa nefnt "Dauðafljótið". Ekki er það ætlan hans að stæra sig af veiðisögum, það er honum fjarri, enda var hann síðasti maður inn í hollið, er skipað var stórum veiðimönnum og afreksdrengjum á bökkum árinnar. Hann heyrði því fleygt að hann hafi fengið boð um veiðiferð þessa eftir að búið var að hafa samband við alla veiðimenn norðanlands og marga þar af á Fjórðungshælinu. Síðar komst hann betur að því hvers vegna sumir komust ekki.

Aðalupplifun Hals í ferð þessari var sú að kynnast algjörlega nýrri hlið á karlmönnum er hrjóta; áður hélt hann að það væru aðallega konur sem hrytu, en svo er margt hjá Hali og einfeldni hans ríður ekki við einteyming eða hvað? Hrotur hefir Halur skilgreint að nýju eftir ákveðnum kvarða eða stigakerfi sem er þannig (miðað við átta klukkustunda svefn að nóttu eða degi):
Stig 1: 1 klst. svefnleysi fyrir hrotum
Stig 2: 2 klst. " " "
Stig 7: 7 klst. " " "
Stig 8: 8 klst. " " "

Halur komst nefnilega að því að í för þessari var maður nokkur af Hælinu er hraut svo að fjölkunnugt var meðal veiðimanna. Talið er víst að einn hafi hætt við för sökum hættunnar á að lenda með honum í herbergi en það mun hann margsinnis hafi áður gert og brotið veiðistangir við að ýta við honum, öllu lauslegu kastað áður að honum án árangurs. Hann hrýtur í öllum stellingum, jafnt á grúfu sem baki, vinstri sem hægri hlið. Fyrri nóttina vorum við tveir með honum í herbergi, Halur og gamall innflytjandi að vestan með ítalskan bakgrunn. Um miðja nótt reistum við báðir höfuð frá svæfli og horfðum hver á annan og sögðum samhljóða: "Er hann dauður!". Ástæðan vár sú að hann hætti hrotum í 2-3 mínútur og ekki stóð til að endurlífga hann ef svo hefði verið. Fyrri nóttin var uppá 7-8 stig á hinum nýja kvarða, en hin seinni 5-6 stig eftir atvikum þar eð innflytjandinn svaf í stofunni hálfa nóttina. Annan daginn stóð til að leggja sig eftir matinn, en viti menn. Kappinn vildi leggja sig og eftir 3 mínútur var hann byrjaður að nýju að hrjóta. Í framhjáhlaupi skal nefna að maður þessi er ýmsum öðrum kostum búinn og er ágætur vinur Hals, frábær veiðifélagi, kurteis og tillitssamur í öllu er á bakkann er komið.

Kannski verður fleira sagt frá ferð þessari síðar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home