mánudagur, ágúst 29, 2005

Venjur

geta ýmist verið ágætar eða slæmar, verri. Halur hefir farið til veiða í Mývatnssveit og Laxárdal í samnefndri á er þar rennur árlega í 11 ár og samanlagt í rúm tuttugu ár. Ferðirnar þangað skipta tugum á þessu tímabili en í seinni tíð reynir Halur að dvelja í sveitinni fjóra daga í senn og þá 2 fastar slíkar ferðir á sumri; stakir dagar stundum á milli ef vel tekst til. Ferðir þessar verða með ári hverju æ mikilvægari og ánægjulegri og ætíð eitthvað nýtt er gerist í ánni, veiðihúsinu, matargerðinni, félagsskap og ekki síst veðrinu. Þessa daga hefði þurft að skrá hitastigið alla dagana með tveimur aukastöfum ef vel ætti að vera, en hitinn var 1-4°C og allar gerðir veðurs sem hugsast getur nema frost við veiðar með frosinni línu. Íslendingar kalla veður það er þessa daga var í sveitinni "skítaveður". Fátt elskar Halur meira en að vera utandyra í vondu veðri og þá rétt klæddur. Aftur að skítaveðri; þar er enn og aftur margt sem leynist í því orði og sumt tengt því er úr görninni kemur. Stjáni fékk sér t. d. þrumara með síld, eggjum og smjöri í morgunmat ásamt asídófílus áður en hann hélt í Brotaflóann. Halur var við veiðar hinum megin í Helluvaðslandi og kölluðumst við á stöku sinnum og tjáði hann Hali að hann hefði losað sig áður en hann hélt til veiða í kjölfar morgunverðar og góður vindur léki um vöðlurnar, reyndar talsverð hlýindi. Í þessari ferð sannaðist enn einu sinni að í veiðum gilda einungis almennar reglur en ekki lögmál eins og í stærðfræði. Veiðin sjaldan eða aldrei glæsilegri og ánægjulegri með öllu sem tilheyrði.

2 Comments:

At 4:03 e.h., Blogger ærir said...

Þó útséð virðist um að ég eigi nokkurn tímann eftir að setja í fisk á ný, þá eru góðar veiðisögur gleðiefni.

 
At 7:42 e.h., Blogger Halur Húfubólguson said...

Á eftir góðum sögum, minningum ágætum og félagsskap sem er aðalatriðið þegar veitt er með öðrum, þá er slæmt til þess að vita að frændi vor í Suðuramti virðist haldinn vonleysi; þessu yrði auðvelt að útrýma ef hann færi ekki nema svona einu sinni til veiða, hvað þá ef hann setti í fisk. Halur á vara-vöðlur og tvennt af öllu ef ekki þrennt (nema nærbrækur, ekki gott að skipta of oft í veiði); vöðlurnar úr teygjanlegu efni sem áreiðanlega væri unnt að sníða að Æris-lögun, þrengja eða víkka, en hið síðarnefnda má teljast ólíklegt ef mið er tekið af hreingerningaráráttu Æris og leikfimi allri. Það styttist í það að Halur velji fisk til taðreykingar í Mývatnssveit, en slíkur kostur er ekta matur.

 

Skrifa ummæli

<< Home