sunnudagur, nóvember 06, 2005

Af tröppum

Háar tröppur eru sérkennilegar. Víða eru háar tröppur. Ef vel er að gáð eru háar tröppur nokkuð sem einkennir mörg eldri hús til sveita, er byggð hafa verið á Íslandi gegnum tíðina. Ekki skrítið að Íslendingar byggðu háreist hús eftir að hafa verið ofaní moldinni öldum saman; mismoldarmiklar aldir, misjafnlega mikil aska milli gosa sem fauk inn í hýbílin. Gjarnan hús með hálfgerðum kjallara og síðan þessar háu tröppur á aðalhæðina, næsta hæð jafnvel einnig byggð að hálfu eða öllu leiti; ris eða álíka. Tröppur sem smám saman brotna niður eins og líkamar þeirra er byggðu húsið; ný steinsteypa ekki á allra færi að útvega fremur en nýtt byggingarefni sálar eða líkama, allir tala um sál og líkama og því er þetta haft svona. Háar tröppur eru sennilegast arfur frá fyrri tíð, arfur sem segir að tröppurnar eigi að vera háar þannig að ekki flæði inn í næsta flóði, flæði um öll híbýlin, moldarfljót í gömlum torfbæ. Í Vinaminni eru háar tröppur í austurátt, inngangur í húsið. Háar tröppur voru og eru einnig góðar til að horfa yfir landareignina er út var komið eða farið. Eins er með sálina, þar eru margar háar tröppur sem eru einhvers konar varnarhættir, en engar sálartröppur þekkir Halur þar sem unnt er líta yfir sálarlífið.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home