Hundurinn
Halur er að því er virðist í átaki í dag ef marka má sólargang og stöðu tungla innan baugs og utan. Átaksmaður er Halur eigi, en í morgun bað húsfreyjan eða réttara sagt stakk upp á því að (les: Halur) baka hægðabætandi bollur og fór svo að Halur barðist við deig á meðan freyjan synti í lauginni og lét karla dást að sér á bakkanum, enda frost norðan heiða og bakkahorf ágætt þegar svo er. Halur minnist þeirra tíma er hann sat í heita pottinum og dáðist að sundmaga og sundbol kvenna og sennilega hefir freyjan verið þar fremst í flokki. Sundfit frusu ekki við fætur hennar en Halur hefur verið að gæla við þá hugmynd að "stela" fitunum þannig að hann kæmist hjálparlaust milli bakka og þyrfti ekki að pústa sig alveg eins oft og venjulegast. Annars fer þessu átaki sjálfsagt að ljúka, en Halur fór hina fyrstu skíðagönguför vetrarins í dag, það mætti snjóa 10 cm til viðbótar, þá yrði færið afbragðsgott. Skíðaganga, jafnvel að standa á skíðunum einum saman án hreyfingar innan um snjó og hæfilegan kulda, er eitt hið allra skemmtilegasta sem Halur veit og þekkir. Halur getur skrifað eins og kellíng.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home