Eitt hið skemmtilegasta
sem Halur gerir er það að hlusta á frásagnir eða viðtöl við fólk, karla og konur. Vandinn er hins vegar sá að viðtöl eru æði misjöfn að gæðum, bæði af hálfu spyrjanda og viðmælanda eða –anda. Bestu viðtölin eru oftast nær afar hæggeng, þagnir, helst langar, óvanir viðmælendur, viðmælendur er aldregi hafa sést opinberlega á mynd eða komið sér sjálfir á framfæri á einhvern hátt. Verstu viðtölin eru hin er líkjast hraðfleygum kjálkum stjórnmálamannsins eða hins vana viðmælanda er telur sig þurfa að koma svo miklu efni á framfæri að úr verður kista full af orðum en engum eða litlum skilningi eða málsverði komið á framfæri fyrir hlustanda; enn verra ef hreyfimynd fylgir með viðmælandanum og spyrjanda sem sumir þurfa og verða að leika aðalhlutverkið. Það hefir Halur lesið að svo mun vera með flesta þætti í sjónvarpi ef vel er að gáð; þeir eru þættir stjórnandans (sem hefur lítinn anda!?) og elta rófuna á sjálfum sér, sjálfum sér til framdráttar. Halur skilur þó að margir geti þótt þessir ágætir eða góðir vinir. Það er í lagi. Þetta er líklegast ein ástæðan fyrir því að Halur hætti að fullu að fylgjast með stjórnmálum og alls ekki neinum viðtalsþáttum eða öðru álíka er stjórnmál ber á góma enda gómbragðið lítið. Samtöl er Halur heyrir manna á milli af þeim toga minna hann einnig á það að engu hefir hann misst af í þeim efnum. Gömul viðtöl sem t. d. tekin voru upp við bændur og búalið, fólk til sveita fyrir nokkrum áratugum, vinnandi fólk og óvinnandi; þau eru hátíð fyrir hugann. Halur er þó eins og sumir, hann vill of oft grípa orðið þau fáu skipti er hann heyrir einhvern segja eitthvað áhugavert sér nærri (það er sjaldan), en þá er listin að þegja og muna, hlusta og þegja.
4 Comments:
Blessaður frændi, Arnaldur hér. Nú hefur frostið verið að bíta mann töluvert í Reykjavíkinni en enn er þó snjólaust. Gaman getur verið að heyra skemmtileg viðtöl. Á mínu heimili er venja að spila á kassettu eitt gamalt og gott viðtal einu sinni á ári en það var tekið við listamanninn Kjarval fyrir mörgum árum og spilað af Ríkisútvarpinu. Ég veit ekki hvort þú hefur heyrt það viðtal en ég mæli eindregið með því.
Það er ekki bara gaman af því að hlusta á fólk heldur er einnig góð skemmtun að ræða við áhugaverða karaktera. Ég var á leið niður í Háskóla í síðustu viku og sá þá mann standa við Vesturlandsveginn. Var þar kominn Ketill Larsen. Hann var að ,,húkka´´ far. Ég stoppaði bifreiðina og skutlaði honum niður í miðbæ. Á meðan á akstrinum stóð áttum við mjög svo skemmtilegar og áhugaverðar samræður. Ekki meira í bili. Kveðjur til sundfólks og annarra Akureyringa búsetta í þínum húsum.
Arnaldur Hjartarson
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Bimminn hefur skilað sínu þennan daginn sem endranær og lyft samtalinu og í æðra veldi. Halur hefir heyrt þetta viðtal í brotum og gott ef ekki alveg nýlega á Gufunni.
Athugasemdadálkurinn er e-ð að stríða Hali þessa stundina.
Skrifa ummæli
<< Home