mánudagur, október 03, 2005

Árstíðir, tungl,

sólargangur og annað þess háttar hefir ætíð verið Hali hugleikið; haustjafndægur er liðið en flestir eru þó hrifnari er kemur að vorjafndægri (vorjafndægur, jafndægur á vori, jafndægri á vori og sama gildir um haustjafndægur í orðavali). Tíðin hefir verið ótíð, mest barningur til sveita og margur akurinn farið fyrir lítið þar sem korn hefir átt að þreskja norðan heiða. Það sá Halur vel á ferðum sínum um sveitir nýlega og gæsin sýnist að mestu flúin suður yfir heiðar; enga gæs var að sjá í Skagafirði um helgina og eigi heldur í dag, en nú hefir hlánað og þekkt gæstún auð, en all mikið sást til álftarinnar sem þegar er byrjuð að hópa sig. Flest það sem einu sinni átti að vera betra norðan heiða er breytt; meira að segja rigningin er flúin norður. Halur lætur þó veðrið eigi hafa áhrif á sig og horfir fram til haustsins með sömu ánægju og áður enda haustið einn ánægjulegasti tími ársins.

3 Comments:

At 12:23 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Já þetta með gæsina. Ég talaði í gær við mann sem hér fyrir austan okkur, hafði á einum degi, skotið yfir 90 gæsir. Stoltið var ómælt. Á meðan slíkir menn eru til skulum við þakka guði fyrir það að gæsin skuli halda sig þar sem engin sér hana. Mæli með að fuglar og annar fénaður sé skotinn með EOS Rebel eða D350. En það er auðvitað bara mín skoðun :-)

 
At 9:56 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Halur hvorki getur né vill bæta nokkru við þennan sannleika sem dæmir sig sjálfur; eitt er að drepa 90 fugla, en annað er að segja frá því. Hver getur eiginlega gert slíkt í dag!

 
At 10:11 f.h., Blogger ærir said...

"Nú detta mér allir dauðir fuglar af himni" sagði kellingin og klóraði sér í hausnum. Við friðarsinnar sunnan, eigum vart orð yfir þessum yfirgangi við náttúruna. Var um síðustu helgi að sinna hrossum austan við fjall og þar sem ég bograði undir hrossunum við að draga af þeim skeifur svo ekki króknuðu þeir á hófum í kuldum og frosti, dundu skothríðar í næsta nágrenni. Var sem staddur í Bosníustríði þvílík voru lætin á annars fögrum haustdegi. Ekki var þó hægt að tala um haustkyrrðina í þær tvær stundir sem þessi ósköp gengu yfir. Innst í hjarta vonaðist ég til að svo mörg skot þyrfti til, því um lélega skyttu væri að ræða sem lítið hitti.....
(vona að þetta komi málinu eitthvað við).

 

Skrifa ummæli

<< Home