laugardagur, september 24, 2005

Matur, mjólk og mannanna mein

eru efni og afurðir sem aldrei komast úr tísku. Nýverið hlustaði Halur á erindi Jane Plant sem ku vera allþekkt vísindakona í sínu fagi, en kannski þekktari meðal almennings sökum skrifa sinna og hugmynda um ýmis krabbamein í vestri og óhagstæðan samanburð við austrið (Asíu, Kína). Sérlega hefur hún verið mótfallin allri neyslu mjólkurafurða, en eigi veit Halur hversu margar vörutegundir fást núorðið í verslunum landsins; þeim virðist fjölga um eina á viku. Rök hennar eru að ýmsu leiti athyglisverð og góð þegar best lætur og tíminn leiðir allan sannleika í ljós; Kínverjar eru að verða eins og vestrænir menn í neyslu og háttum smám saman og afleiðingin er sú að hinir gömlu sjúkdómar, berklar, sýkingar og þess háttar eru minnkandi en allt hitt kemur í staðinn. Mjólkuráróðurinn á sér marga bandamenn, þrátt fyrir að ágæt rök finnist um gagnsleysi eða ónauðsyn mjólkurafurðaneyslu. Fyrir marga landa vora er þetta fyrst og fremst mikið tilfinningamál eins og t. d. með skyrið. Hinum íslensku mjólkurafurðum má varla hallmæla opinberlega. Halur fer á stundum á æfingar og þar er skyrbar og alls kyns mjólkurdrykkir, eggjahvíta í mismunandi formi sem bætir og styrkir kroppinn að sagt er auk allra baukanna með með hinu og þessu fyrir 5000 kall eða meira. Halur er eigi stuðningsmaður í nokkru prófkjöri neysluafurða, en vill koma því á framfæri að fólk endurskoði mjólkurafurðaneyslu sína. Annars var skemmtilegt á stuttri æfingu nýverið þar sem Halur sá vöðvabúnt, en áður sáust skyr- og mjólkurdrykkir í anddyri og á skyrbarnum eins og í erfidrykkju væri eftir andlát Kóngsins. Vöðvabúntið var skemmtilegt, handleggir beint út af öxlum í hvíldarstöðu, kastaði fótum aðeins út vegna læranna og annað misgott. Þetta minnir Hal á andstæður nútímans og mjólkurafurðaneyslunnar; einnig að þetta er að verða "kellíngablogg" og því best að snúa sér að öðru.

1 Comments:

At 2:39 e.h., Blogger ærir said...

frændi þinn sunna heiða, er eins og þú veist með diploma af ýmsum sortum í vestrænni medisín. hann hefur hinsvegar kastað því fyrir róða og hefur tekið upp forna hætti íslenskra græðara og austurlanda nálarstungur við fáum meinum. enda hefur árangri hans í lækningum farið fram sem því nemur, þó verst þegar hann gleymir nálum og sjúklingum enda viðutan þessa daganna venju fremur. vona að þetta komi pistli Hals eitthvað við....
góðar kveðjur í óveðrið norðan heiða

 

Skrifa ummæli

<< Home