Ýmis ráð
eru til við ráðaleysi. Halur er verkhræddur maður og haldinn verkstoli á háu stigi. Stöku sinnum tekst honum að koma áætluðu verki í framkvæmd og ljúka því, en það er sjaldgæft. Fyrir all nokkru (í fyrra eða hitteðfyrra) sá hann sérlega vel heppnaðar skíðafestingar í norsku blaði og hefur síðan gengið með þær í maganum eins og kona með barn sitt, en meðgöngutíminn verið lengri; enn ein líkingin sem karlar burðast með frá hinu kyninu. Halur greip í örvæntingu til þess ráðs ( með óráði) að senda upplýsingar um festingarnar, með mynd og tilheyrandi til vinar í götu, þar sem hann vissi að sá hinn sami ætti flest allt sem til þyrfti til að klára verkið. Enn fremur hefði sá vinur tækifæri til að fjárfesta í einhverju tæki samtímis og gæti þá slegið aðeins á tækjakaupaþörfina sem konur eru iðulegast að grínast með í fari karla, en vita ekki betur en svo, að tækin eru ætíð keypt með því markmiði að koma þeim til hjálpar; veit einhver karl um dæmi annars? Þegar Halur var farinn að óttast haustmyrkrið og þegar farinn fyrir finna fyrir þvagtregðu og enniskulda vegna tíðarinnar, viti menn, þá var hringt og á hinum endanum var þessi einstaki vinur sem færði Hali þær fréttir að skíðafestingarnar væru tilbúnar og aðeins eftir að koma þeim fyrir á vegg í skúrnum stóra. Fóru þeir saman út á laugardagskveldi enda er Halur ekki skemmtanasjúkur maður eins og konur gjarnan eru og aðrar verur sem hópsálir teljast eins og t. d. mörgæsir. Halur fékk að halda á hallamálinu og færði vini þessum allt eins og handlangari væri og komst Halur þar næst því að gerast iðnaðarmaður með bert á milli treyju og buxnastrengs. Hann fékk að ryksuga og gerði það eins og konur gerðu áður. Svona getur takmarkaður maður eins og Halur komið verki í höfn og gefur öllum ráð þetta til eftirbreytni þeim er kvíða og verkstoli eru haldnir. Festingarnar eru meistarsmíð.
2 Comments:
Já, festingarnar eru meistarasmíð, það get ég vitnað um. Flott að eiga svona góða granna ;O)
hvurnig væri að birta mynd af fyrirbærinu á heimasíðu þinnar einu sönnu. hún er betri myndasmiður en margur. annars væsir ekki um skíði í mínum skúr enda hafa þau hangið lengi. hér kemur ekki einu sinni nógu vont veður til að hægt sé að nýta sér það.
með saknaðar kveðjum til norðurlands
Skrifa ummæli
<< Home