sunnudagur, september 04, 2005

Rampurinn

er opinn alla daga, þessir eru að fara á eða í rampinn. Þetta er auðvitað sletta, en að sama skapi fellur hún vel að íslensku máli, fallbeygist vel og hljóðfallið er gott; minnir á orðin stampur, dampur og svampur svo nokkur séu nefnd í fljótu bragði. Nú er talsverð umferð unglinga hjá Vinaminni sem eru á leiðinni í rampinn og hljóðin þaðan berast víða, jafnvel í háborg vísinda nærri rampinum, hljóðið berst vel þangað sem og í berjamó ofan bæjarins. Yngri strákurinn í Vinaminni sagðist vera að fara í rampinn, jafnvel "Skate park" og þá vissi Halur það (með hjálp eins og annað enda tregur um margt) að um væri að ræða hjólabretta- og skautagarð sem nýopnaður er í bænum. Rampurinn er í sjálfu sér gott tökuorð, þótt Halur hafi eigi kannað uppruna þess nægilega til að segja meira um það að sinni. Önnur íslenskari orð eru sum hver ráðgáta og finnast jafnvel litlar sem engar heimildir um þau. Eitt þessara orða er heitið "steinsrass", en það er nafn á (samnefndum) þekktum veiðistað í landi Arnarvatns (Arnarvötnin eru reyndar fjögur) þar sem Eysteinn heitinn Sigurðsson átti heima numero quarto; hann var einn af "sprengjumönnunum" en þá bjuggu enn á Íslandi menn sem lifðu fyrir málstaðinn og höfðu hugsjónir sem eigi voru skammsýnar. Réttsýni hans var mikil. Steinsrassinn hefir gefið Hali marga góða urriða gegnum tíðina og fegurð staðarins mikil; það sá Halur best er hann skrapp að ánni með tæki til að mynda fugla og náttúru, engar stengur voru með í för enda veiðitímabilið búið þar. Steinsrassinn séður úr vestri, með fugla, hólma og fjallahring í baksýn, spegla og strengi þar sem fiskur tekur; það er sannarlega þess virði að berja hann augum.

1 Comments:

At 6:05 e.h., Blogger Elísabet said...

til eru kjaftakerlingar af báðum kynjum og ótrúlega lífseig þessi bábilja að konur tali meira en karlar. það má vera að karlar tali um annað en konur sín á milli (hvað veit ég) en þeir tala ekki minna.

 

Skrifa ummæli

<< Home