þriðjudagur, september 13, 2005

Hin mislitu kort

birtast víða. Halur ræddi við mann fyrir nokkru sem haldinn er langvinnum sjúkleika að talið er og flestir frægir læknar búnir að gefst upp á honum sagð´ann. Fram kom af hans hálfu, að hann gæti sagst vera með "gula kortið" hvað heilsufar varðaði og dauðlega sjúkdóma. Ekki vildi hann gefa sér "rauða kortið" og var það vel, en "græna kortið" mun þá vera ávísun á heilbrigði, sem reyndar er ekki til ef vel er að gáð í nútíma skræðum og fræðum. "Sá er einungis frískur, sem eigi hefir verið rannsakaður á háskólasjúkrahúsi" verður að teljast afar þreyttur frasi, en verst er hversu margir trúa þessu og ekki batnar það ef orðið hátæknisjúkrahús er sett í stað háskólasjúkrahúss. Einhver sagði Hali um daginn að enginn Alþingismaður vissi hvað hátæknisjúkrahús væri, en allir töluðu þó um slíkt, en það mun engin nýlunda vera hérlendis eða á þeim stað (Halur þekkir ekki nafn á nokkrum Alþingismanni). Halur gefur engin kort, en fær þau hins vegar ef óþægur er, þó ekki heilbrigðiskort og það er nú gott sökum litblindu hans. Manninum var það nokkur nauð að ganga með "gula kortið", en sættist á það, þar sem hið rauða var ekki álengdar eða var það kannski hið græna!?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home