laugardagur, október 08, 2005

Engin breyting

hefir orðið á háttum Hals undanfarið, enda verið á sama stað lengi og ekki fyrir neinar breytingar eða nýjungar, nema neyddur til. Hann sýnist stundum takast á við ný verkefni eða jafnvel fylgjast með dægurmálum, en það er nú ekki svo; aðeins er um líkingar að ræða eða tálsýnir í texta eða tali. Hann varð fyrir skömmu að ræða við miðaldra mann austan af fjörðum og fór vel á með honum og þessum manni, enda sveitamaður. Vildi þó ekki betur til en svo að skyndilega heyrði Halur hljóð er minnti hann á hundsgelt eða gjálfur í kvikindi af smærri gerðinni; fannst það nærri sér en áttaði sig eigi hvaðan kom. Heyrn Hals er eins og sjón hvergi nærri fullkomnun. Maðurinn sá hve órólegur Halur varð við hljóð þetta, þannig að hann sagðist vera með hund í vasanum en það var ekki eiginlegur hundur, heldur gemsi með hundskvikindishljóði sem fyrir heyrnarlausan Hal virtist raunverulegt. Þetta var hins vegar tálhljóð.

Halur kvað til sönnunar á dægurmálaleysinu svona:

Dægurmálin dæmalaus,
dæmast skulu mesta raus.
Því endalaust mas
og einhlítt þras,
aðeins gefur verk í daus.

Hundsgelt í holti er betra en gelt dægurmálanna, oft er í holti heyrandi nær.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home