föstudagur, nóvember 11, 2005

Einfeldnin

hefir iðulega komið Hali í koll eða jafnvel komið aftan að honum. Halur minnist þess tíma er hann heyrði fyrst að ekki mætti brjóta saman blað sem einhver texti hefði verið skrifaður á, t. d. venjulegt A4 blað, slíkt ætti aldrei að gera þar eð með því væri verið að draga úr virðingu fyrir upphaflegu efni og útliti blaðsins. Blaðið ætti að halda sér. Hið sama gilti um gamla hluti og gildir enn. Þetta kom Hali fyrir hugskotssjónir er hann var á leið í nytjagám með nokkra hluti sem vel höfðu gagnast honum gegnum árin og jafnvel utanlands. Er að gámnum kom, þá sá Halur að gámur var lokaður með hengilás og ætlaði frá að hverfa. Kom þá þar að starfsmaður er vildi skoða það sem á kerrunni var (kerra fengin að láni hjá Jóni á Móti og honum færðir nokkrir taðreyktir fiskar fyrir "öll lánin"). Halur bauð allt er þar var á kerru í gáminn. Maðurinn leit á hlutina og á örskoti dæmdi þá alla úr leik. Þetta fannst Hali skrítið enda einfaldur maður. Hluti þessa hafði hann eigi lengur not fyrir og erfitt að geyma svo vit væri í út frá rúmmálsfræðilegum vangaveltum. Hann taldi þá gagnast öðrum ágætlega. Þetta verður sennilega til þess að Halur muni safna að sér enn fleiri hlutum og munum fremur en að koma að læstum nytjagámi og hitta þar fyrir dómara gámanna. Það er sjálfsagt önnur saga hvers vegna gámurinn var lokaður, sennilega veðri um að kenna.

2 Comments:

At 1:39 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ætlar þú að kaupa stærra hús fyrir allt dótið? K

 
At 6:15 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Hér eftir verður minna meira eða stærra ef notað er slangur að vestan fremur en meira minna eða hvernig sem þetta var nú.
Halur

 

Skrifa ummæli

<< Home