Heppnin
er stundum með Hali, og svo var í vikunni. Halur hafði séð auglýsingu um fyrirhugaða tónleika með Mugison á Akureyri fyrir nokkru en síðan verið í annarlega hugarástandi, ekki vímu þó, hinn sama dag og leikur átti að hefjast. Er hann kom heim úr vinnu sá hann svart umslag eins og geisladiskar gjarnan í eru geymdir, á kommóðu einni í gangi Vinaminnis. Var það gjöf húsfreyjunnar til bóndans og þá nýjasti diskur Mugisons, alveg að óvörum en í leiðinni innan um vellíðan og ánægju yfir gjöfinni, splundraðist hugurinn sökum tónleikanna sem hefjast áttu innan tveggja stunda. Halur er maður undirbúnings og einnig hins að láta ógert. Eftir undarlegt ferðalag með og á móti tónleikunum, var ákveðið að skunda af stað í bæinn og bíða í kuldanum drykklanga stund til að fá miða við innganginn, það var eina leiðin. Frúin með þrátt fyrir útrásarvinnu. Halur bjargaði því að unnt var að selja miða með posagræjum en það er önnur saga. Eins og oftast, þá vill Halur vera afsíðis, en þessa tónleika var hann á stað grúpp-pía, alveg fremst en lá þó eigi flatur á gólfinu eins og dæmigerð grúpp-pía ætti að gera. Um tónleikana má segja að betra var að missa ekki af þeim; aldeilis ágætir eða stórgóðir, sérstaklega ef mið er tekið af því að lögin var Halur að heyra hið fyrsta sinni. Íslenskir tónlistarmenn eru sannarlega í fremsta flokki, en tónlist Mugisons er blanda af ýmsu, ýmsu sem Halur hefur ánægju af. Sum lögin þurfa á sterkum græjum að halda, þannig að púðrið komist út úr hylkinu. Aðallega eins og oftast var þetta frúnni að þakka og er henni enn og aftur þakkað. Hún á afmæli á morgun.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home