þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Sparnaður

er dyggð telur Halur, en fáir eru á sama máli. Gaman er að vita til þess að í útlöndum (Skotlandi) muni vera til a.m.k. einn veitingastaður, þar sem leyfilegt er að koma með sitt eigið áfengi á staðinn og drekka með matnum. Það yrði sennilega víða biðröð hérlendis ef þessi regla kæmist á, því verðlagning áfengra drykkja eða guðaveiga er með ólíkindum innanlands, en stundum eru þær sá þáttur sem setur punktinn yfir i-ið. Vatn er þó vökva best.

Af öðrum sparnaði má nefna að Halur hitti bónda fyrir nokkru sem er sérvitur mjög en glaðlyndur og sanngjarn. Hann mun eiga bíl og tjáði Hali að hann mundi aldrei aka með ljósin á, allt gert til þess að spara og var búinn að reikna hversu mikill sparnaður það yrði f. þjóðina ef allir hættu að nota bílljós. Hann notar varla ljós í myrkri nema neyddur til en enginn mun gera það svo auðveldlega. Halur rakst á ljóslausan bíl í ljósaskiptunum nýverið og taldi þar bílinn mannlausan, en viti menn, þar var vinurinn góði, sat undir stýri, annar aftur í, bíllinn í gangi en ljóslaus við þjóðveg nærri afleggjara. Hann virtist ekki á þeim buxunum að kveikja á ljósunum en nokkuð langa leið átti hann ófarna heim í myrkrinu sem var að skella á.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home