Margt
kom upp í huga Hals í dag er hann hugsaði til Georg Best (Georgs Bests) er andaðist um hádegisbilið og kom engum á óvart sjálfsagt. Sumt gleymist aldrei og allra síst það sem gott er þótt stundum megi halda að einungis hið slæma sitji eftir eða fyrnist eigi. Það er nefnilega ógleymanlegt að hafa horft á nokkrar ljósmyndir og stutt hreyfimyndaskot frá árdögum sjónvarpsins á Íslandi þar sem Georg Best lék listir sínar. Þá eru Hali sérlega minnisstæð mörg sólóin á hliðarlínunni, töffaralegt útlit sem virtist vera meðfætt, þótt einhverjir stælar hafi fylgt með. Á þessum tíma var ofgnótt og flæði sjónvarps og íþróttafrétta ekki orðið eins lágkúrulegt eða yfirgengilegt og nú er þar sem allt hverfur inní einhvers konar hringiðu gleymskunnar vegna magnsins, þráhyggjunnar. Fjármagnið var ekki alveg búið að eyðileggja íþróttirnar og á þessum tíma gátu úrslitin orðið óvænt oftar en ekki, sem vart gerist lengur. Halur minnist þess að hafa átt myndir af Best og sérlega minnisstæður er leikurinn við Benfica árið 1968, en það var til bók sem lýsti þeim leik með texta og svart-hvítum myndum. Best lék eitt aðal hlutverkið í þessum leik sællar minningar. Halur hefur lengi reiknað með að dagar hetjunnar írsku (Norður-írsku reyndar ef allt skal vera rétt) væru taldir í lifanda lífi, en telur hins vegar að hann sé í raun goðsögn frá landinu græna, allt er vænt sem vel er grænt (eins og Vinaminni!). Það er hins vegar svo að sjaldan er ein bokkan stök þar sem Írar eru saman komnir eða fara hjá og ekki gengur að transplantera þá alla með lukku. Skál fyrir Best!
2 Comments:
Ég skála með þér frændi. Best var náttúrulega frábær knattspyrnumaður en ég veit ekki með þessa rosalegu barta sem hann skartaði ,,back in the day´´.
Annars er það að frétta að ég er líklega búinn að finna a.m.k. hluta af jólagjöf fyrir þig og stefni á að geta sent þetta til þín án þess að þú þurfir að borga flutningskostnað. Það er þó enn ekki útséð með það.
Sem læknir þá gætir þú kannski hjálpað mér með eitt? Þannig er mál með vexti að ég spila körfu og fótbolta a.m.k. einu sinni í viku og lyfti einnig einu sinni til tvisvar í viku. Þarafleiðandi reyni ég að borða hollan og próteinríkan mat. Ég sýð því oft egg og held að á síðustu 4 dögum hafi ég innbyrt 8 egg(!) Þú ert náttúrulega ekki næringarfræðingur en ég var svona að velta því fyir mér hvort þetta væri of mikið af eggjarauðu?? Ef þetta er of steikt spurning fyrir þig geturðu leitt hana hjá þér.
Hvernig er Volvo-inn annars að rúlla/standa sig? Minnir að volvo sé latnesk sögn og þýði ,,að rúlla´´. Svíarnir greinilega með latínuna á hreinu.
Annars ekki mikið í fréttum. Amma og afi virðast vera búin að pakka niður fyir jólaferðina og orðin áhygjufull yfir því að við í Grundarhúsum séum ekki enn búin að pakka.
Kveðja
Arnaldur
Egg eru bæði holl og óholl (þ. e. rauðan), allt er afstætt og engin svör fást við slíkri spurningu öðru vísi en að mæla blóðfiturnar; kenningarnar þar sveiflast milli öfga og gamalla gilda. Sagt hefir verið að unnt væri að lifa á eggjum einum saman slíkt er næringargildi þeirra! Halur þekkir gamla karla sem éta talsvert af eggjum árstíðabundið og það er segin saga að þeir hækka verulega fiturnar margir hverjir á eggjatímanum.
Það er gott að vera laus við jeppann segir konan held ég, engin rassaköst í hálkunni lengur og það án nagla.
Skrifa ummæli
<< Home