Félög
og klúbbar eru af ýmsu tagi. Halur telst vart hæfur til þrifnaðarmikilla klúbbstarfa enda hefir hann ekki sóst eftir að ganga í klúbba þá er tröllríða öllu á hinu bólgna landi, Íslandi. Marga þekkir hann hins vegar sem eru á öndverðum meiði og allt gott um það að segja. Sennilega þrífst Halur best í einmenningsklúbbi (klúbbur í eintölu eða fleirtölu!) en gæti þó hugsað sér að vera í klúbbi einum sem starfræktur er á Englandi. Sá hinn sami klúbbur var stofnaður árið 1822 og tengist veiðiá nokkurri er heitir "The River Test" (The Test), en nafn klúbbsins er "The Houghton Club". Meðlimir hafa aldrei verið margir eða 22 við stofnun og munu í dag vera örlítið fleiri eða 33 eða svo. Ljóst má vera að hver sem er kemst eigi í klúbb þennan, en Halur telur sig ýmsum kostum vera búinn, sem gætu gert vonir hans um inngöngu mögulega. Hann væri vís til þess að eyða dágóðum tíma í svona lagað og þá yrði hann a. m. k.ekki aðgerðalaus á meðan sem ku vera það versta sem hann veit. Einnig er það þannig þegar Halur gengur með stöng í hönd meðfram árbakka eða vatni, þá er hann í sínum eigin klúbbi, eigin hugarheimi og engir meðlimir nærri til að draga athyglina frá því sem mestu skiptir.
1 Comments:
Það er líklega ekki að ástæðulausu sem þér og maka mínum líkar nærvera hvers annars. Hann á afar bágt með að þola klúbba. Hann tilheyrir reyndar tveim; hlaupaklúbbi sem hann reyndar æfir aldrei með því honum leiðist að hlaupa með öðrum nema að það sé vinur eða fjölskyldumeðlimur. Hinn klúbburinn er af íllri nauðsyn; flugklúbbur. Til þess að geta lært að fljúga og til þess að geta flogið þegar prófunum er lokið þá þarf að tilheyra klúbbi, nema hann kaupi sína eigin vél og það stendur ekki til. k
Skrifa ummæli
<< Home