laugardagur, febrúar 11, 2006

Í Vinaminni

er málum háttað á ýmsa vegu. Ekki hvað síst gildir það um staðsetningar á slökkvurum og því sem áður var kallað innstunga en það er víst bannað að nota slíkt í dag, minnir að þetta sé notað yfir e-ð annað líka; tenglar skal það heita, ef Halur man rétt, en lítt er á það að treysta. Slökkvarar og innstungur voru á tíma þeim er Vinaminni var byggt (í tveimur áföngum) ekki alveg að "gera sig" svo notað sé dæmigert nýlensku tal. Leita þarf að þessum hlutum á óvenjulegustu stöðum en sennilega er það vegna virðingar við þann (eða þá) er fann upp rafmagnið og ljósaperuna. Frúin í Vinaminni er smekkkona (3 k!). Það sannaðist á baðinu sem loks var endurnýjað, engin nýlunda þó. Hins vegar hafa rafmagnsvírar staðið útúr veggnum á baðinu í tæpa 4 áratugi og beðið eftir hlutverki. Vírarnir í loftinu verið tengdir rússaperu. Hlutverk ónotuðu víranna á vesturvegg breyttist heldur betur í vikunni er tveir lampar voru þeim tengdir þannig að ekki aðeins vírarnir hafa öðlast mátt, heldur einnig annar slökkvarinn sem beðið hefir eftir virkni allan þennan tíma. Nú er ekki lengur ljóslaust þegar ýtt er á hann. Notagildi kemur ekki ætíð fram eins skjótt og ætla skyldi, en margt sem gert var í árdaga Vinaminns hefir sannað sig smám saman.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home