sunnudagur, febrúar 19, 2006

Tvítyngi

er nú í tísku. Það er eins með tískuna og tvítyngi; bæði lúta lögmálum sem jafnt eru skráð og óskráð, bæði þekkja vart hvenær er komið nóg af hinu eða þessu. Of mikil tíska leiðir til úrkynjunar, tískuleysis, tísku er aðeins fáir fara eftir, hátísku. Og of mörg tungumál leiða til málleysis, skilningsleysis. Tala tungum tveim. Halur á erfittt með að skilja, já skilja texta sem skrifaðir eru á öðrum tungumálum (ritmálum) en hinu íslenska, þ. e. skilja textann frá a-ö, skilja hvert orð, samhengi orða og innbyrðis hljóm, uppruna orða og tislvísun í gamla texta. Hann skilur hvert orð, en ekki í sögulegu samhengi þannig að textinn verður ætíð flatur, nærri flatneskjulegur. Því les Halur frekar íslenskar þýðingar á erlendum bókum en frumtexta; undantekning er fræðilegur texti, hann er ekkert vandamál enda búið að fletja hann út á staðlað form sem einu sinni hét enska. Norrænn texti skárri, ennþá á stundum. Halur telur það afturför ef Njála verður óskiljanleg með öllu nema á ensku; hvernig þjóð verðum við þá? Tungumálið er til þess að nota það, sama á við um ritmálið; það er hryggurinn sem heldur okkur uppréttum.

Í lok tvítyngistímabilsins fer það svo að faéinir munu aðeins skilja hvað orðið tvítyngi þýðir, hvað þá uppruna þess.

1 Comments:

At 9:09 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Halur er augljóslega bjartsýnismaður

 

Skrifa ummæli

<< Home