miðvikudagur, mars 15, 2006

Umhverfisstefna

er skrítið fyrirbæri. Halur reynir að vera vist- og umhverfisvænn eins og honum er framast unnt, en sumt skilur hann ekki, kannski margt þó heldur. Það fást ekki enn umhverfisvænar bifreiðar sem eru 4x4 nema í verðflokki utan alfaraleiðar, svipað gildir um hinar. Halur byrjaði að hjóla í dag á þessum vetri enda tíðarfar einstakt og birta þegar að morgni. Tók DBS reiðskjóta út í gær, pumpaði í dekkin, athugaði bremsurnar og allt sýndist í lagi síðan í fyrrahaust. Stór hluti hverrar borgar er heltekinn umferðarmannvirkjum, brýr, krossar, 2-4 faldar akreinar í allar áttir, ljós og merki en samt eru 30 km skiltin spöruð í íbúðahverfum. Það er undarlegt að þessir er aka vilja ætíð stystu leið, vilja fá tengingar milli hverfa eins og á Akureyri, jafnvel á skólalóðum grunnskóla, skuli yfir höfuð hafa einhvern hljómgrunn. Hvers konar byggðarlag er það þar sem tengibrautir hafa forgang fyrir þá sem telja sig þurfa að komast innanbæjar í smábæ eins og Akureyri innan 3-5 mín. í stað 5-8 mín. eða álíka? Halur veit það alls ekki. Hvernig má það vera að slík stefna hafi yfir höfuð einhvern málssvara í dag, en ef Halur horfir í kringum sig, þá er það augljóst þar sem meirihluti fer milli staða í bifreiðum þar sem annað hvort má hjóla eða nota tvo jafnfljóta. Ekki batnar það með stóriðjunni; hvers konar orðskrípi er það eiginlega?

3 Comments:

At 9:24 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Já ég veit ekki hvort Halur gerir sér grein fyrir því að þeir sem t.d. búa sunnar á brekkunni en hann, og þurfa að sækja þjónustu t.d. norður í bæ og öfugt, geta stundum þurft að fara margar ferðir sem taka 5 - 8 mínútum lengri tíma en ella. Ef þessi tengibraut væri til staðar þá gæti Það á góðum degi þýtt 40 - 60 mínútur. Barnafjölskyldur sem þurfa m.a. annars að keyra börn í hinn alræmda Boga þekkja þetta vel. Ónefndur vinur Hals, og minn, sem hefur stundum ekkert verið rosalega glaður yfir því að þurfa að keyra bæinn þveran og endilangan með börn og aðra sem á milli staða þurfa að fara, skilur þetta, er ég viss um. En að öðru leyti er skynsamlegt að hjóla og ekki spurning um að merkja 30 km göturnar betur. Mana ég Hal að setja niður pistil um skipulagsleysi hjá bænum á t.a.m. staðsetningu á íþróttamannvirkjum, heilsugæslu og öðru slíku sem gera það að verkum að umferð og hraði er mun meir en þyrfti að vera. Að lokum mæli ég með því að Halur láti verkin tala, fari í framboð og verði bæjarstjóri og hafi það eitt á stefnuskránni að draga bæjarbúa á milli hverfa á hjólinu :-)

 
At 1:59 e.h., Blogger Halur Húfubólguson said...

Halur þyrfti þá að horfast í augu við dagsljósið, fjölmiðla og annað þess háttar sem yrði honum um megn; hann er deigur til allra verka á opinberum vettvangi enda botni nærri og ekki á það bætandi. Drög að stefnu "Framfarahjólaflokksins frá Færeyjum" væri gott heiti á stefnuskrá slíks flokks. Halur fjallar ekki um einstök verk eða athafnir, nema í undantekningartilfellum; hann styður neðanjarðargöng á svæðinu, annað ekki.

 
At 10:21 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

"hann styður neðanjarðargöng á svæðinu, annað ekki"

Þetta þýðir kaffibolla af bestu gerð til að fá vandaða niðursöðu í málið.

 

Skrifa ummæli

<< Home