mánudagur, desember 31, 2007

Ekki

alveg dauður, mætti segja síðasta dag ársins þar sem klisjurnar eru enn og aftur að ganga af manni dauðum. Maður ársins verður sá nefndur sem bætir og "glæðir" líf annarra. Og þá sitt eigið í flestum tilfellum. Þegar hlaupið er yfir árið á hlaupabretti líkamsræktarstöðvarinnar á Eyrinni, verður mismikil bjartsýni á vegi manns; þrátt fyrir margar mínútur af myndefni frá Pakistan eftir dauða stjórnmálakonu þar í landi, bregður manni í brún þar sem vart hefur mátt sjá nema kannski 2 eða 3 konur meðal hinna mörgu þúsunda sem birst hafa. Það minnir aftur á lítilsvirðingu kvenna og margra annarra meðal vor. Síðan furða margir sig á því að heimurinn skuli lítt batna. Halur horfir hins vegar bjartsýnisaugum til næsta árs,  árs nýrra könnunarferða og verka margra af nýjum toga, sem  leitt geta hann til enn betri tíma. Frelsi og virðing fyrir öllu sem bætir lífið verður haft að leiðarljósi á næsta ári og Halur þarf eins og oftast að minna sig á báða þættina. Ef ekkert er gert, þá gerist ekkert. Áfram með smjerið. 

sunnudagur, desember 23, 2007

Hvað eru

jólin annað en hefðir, venjur og vinskapur? Gott, ágætt. Samt ágætt að minna á malt og appelsín, laufabrauð og mat eftir venju eða smekk, sem sagt endurtekning er mörgu ræður. Síðan er það tónlistin og þar jú best að sleppa klisjukenndum þýðingum á amerískum jólalögum eða tilraunum sem raunakenndar eru allar; okkur nægja íslensku sveinarnir. Hali finnst þó rétt að  gera undantekningu með "What a wonderful world" með  Armstrong, það má kalla það jólalag, einnig Shane MacGowan blessaður sem samdi "Fairytale of New York" (með Jem Finer 1987) og er alltaf jafn gott; Sissel á sinn sess hjá sumum (öllum í Vinaminni) og Halur kætist alltaf er hann heyrir Jussi Björling syngja "O helga natt" þar sem áreynsluleysið ríkir og tæknin er algjör, enginn rembingur þar. Þessi skrif aðeins áminning um að njóta þess er máli skiptir fyrir hvern og einn, og þá mega aðrir fylgja með.

mánudagur, desember 10, 2007

Led

Zeppelin dagurinn er í dag; kannski ekkert sem máli skiptir fyrir marga eða flesta, en samt sem áður merkilegur dagur þar sem hrein snilld er þar á ferð innan geirans. Nokkur Zeppelinlög spiluð undanfarið og beðið um að lækka í græjunum, sem náttúrulega er ekki hægt eða erfitt. Zeppelin þarf að spila hátt. Það er skemmtilegra að horfa á gömlu albúmin hjá þeim en auglýsingarnar í blöðunum um það sem þarf að kaupa fyrir jólin, hvað þá auglýst námskeið í heilbrigðisstjórnun eða myndir sem þar fylgja, þegar vægi eða gildi einstakra starfsmanna fer aðeins minnkandi en ekki öfugt. "Allir" kvarta undan því að ráða engu um starf sitt! Kraftleysi kerfisins er í hróplegri mótsögn við kraft rokksins. 

sunnudagur, desember 02, 2007

Ertu drukkinn?

Hefurðu verið að drekka? Ertu að koma eða fara? Eftir þrýsting hefir Halur ákveðið að skrifa fáeinar línur til að létta á spennu margra, skrifa texta sem er "ekkert". Ég þakka biskupnum fyrir hvatningu og Birni Bjarnasyni. Þá næst er það gleðin, enda þeim báðum nærri. Hún er mikilvægust alls auk heilsunnar, góðrar heilsu, ágætrar ef því er að skipta. Landsbyggðarpakk eins og Halur hefir bak við tjöldin reynt að gleðjast og gleðja aðra; hann er að undirbúa myndefni sem leikið verður af honum - gleðiefni. Beta-útgáfa er í skápnum, kannski kemst hún út úr skápnum með hjálp biskupsins. Halur skorar á alla um leið og hann reynir að þrauka áfram í leit að gleðinni, að gleðjast. Gleðjast í starfi, ánægðir og glaðir starfsmenn eru mikilvægari en monní; gleði í leik og starfi. Tónlistarmenn sýnast eiga auðvelt með að gleðjast, t.d. Mugison á tónleikum nýverið. Gleði og smá tregi á milli í hverjum hljómslætti. Gleðitár.