miðvikudagur, júní 14, 2006

Hvassviðri úr görn

er ekki alltaf vinsælt. Í gær var talsverður vindur úr görn leystur í Vinaminni og það jafnvel á ólíklegustu stöðum af "vindefnaminni" persónum. Kannski hefur það bara verið æfing fyrir daginn sem er að byrja, en von er á tveimur veiðimönnum norður, sem báðir geta losað talsvert ef því er að skipta. Hvassviðrið úti í morgunsárið var töluvert, en vindurinn er jú versti óvinur reiðskjótans eins og áður hefir áreiðanlega fram komið á þessari vindlausu síðu. Það eru orðin nokkuð mörg árin síðan Halur stundaði vindlosandi æfingar í Haga, en það þótti nú talsverður heiður í þá daga. Halur kvað:

Víst við máttum þenja þind
þegar leysa skyldum vind,
en öfugt við
hinn evangelíska sið,
það enginn taldi synd.

mánudagur, júní 12, 2006

Hvassviðri

mun hafa verið í Mývatnssveitinni í gærdag, það sagði Hali kona í dag sem var með tjaldvagn; aðstoð þurfti hún og maður hennar við lokun vagnsins! Fiskur mun í ánni þótt vart geti hann orðið meiri eða betri en í fyrra, sem var afbragðsár. Skiptir síður máli en fyrrum, aðalmálið að komast austur, fyrst í "dalinn" sem batnar eftir því sem ofar dregur. Biðin loks á enda eins og stundum er með iðnaðarmennina. Halur heyrði af einum sem búinn var að bíða nokkuð lengi eftir slíkum; sá bíðandi spurði Hal hvort hann vissi muninn á iðnaðarmanni og dauðanum, en það vissi Halur eigi fremur en annað. Maðurinn svaraði um hæl með þessu: "Dauðinn kemur (alltaf að lokum) en iðnaðarmaðurinn eigi!" Aukalega má nefna að "Rauða perlan" var seld um helgina af umboðsmanni sínum til UMF Arsenal. Allir sáttir.

mánudagur, júní 05, 2006

Snyrtimennska

er Akureyringum í blóð borin. Er Halur kom að gámasvæði bæjarins, sem kannski er í fáeinna mínútna fjarlægð frá flestum stöðum innanbæjar, þá var lokað eins og sjá mátti á hliðinu. Við hliðið var hins vegar (eins og oftast) haugur af alls kyns drasli sem einhverjir höfðu skilið eftir þarna, sem sagt komið að lokuðu hliði..............eigi skaltu gjöra öðrum það osv. Hvað finnst fólki um það ef nágrannar losuðu kerrur og pappa á næstu lóð? Þessi losun segir afar margt um þjóð þá er landið byggir og þeim sem finnst það í lagi að losa rusl framan við haugasvæðið þegar það er lokað, þeim hinum sömu ætti að standa á sama um það þótt landið verði vinnuvélum að bráð. Annars er þetta allt í lagi, Halur ók bara til baka beina leið með ruslið og sætir færis er hliðið opnar næst. Þetta minnir hann einnig á manninn, sem hringdi í hann af flugvellinum í Reykjavík nýverið, en hann var að tilkynna Hali um ferð sína norður til að taka við vaktinni á hælinu. Sá böggull fylgdi þó skammrifi, að sá hinn sami ágæti maður átti, þegar á flugvöllinn var komið, pantað flug milli Akureyrar og Reykjavíkur en ekki öfugt. Það skiptir því máli að fara rétta leið! Aldrei þessu vant var það ættingi þessa ágæta manns sem pantaði flugið, en eigi hann sjálfur.