miðvikudagur, mars 28, 2007

Hjarðeðli

mannsins er merkilegt fyrirbæri en einnig má misskilja það sem allt yfir höfuð. Það kemur víða fram; karlar hópast saman við veiðar, fara á velli og konur í klúbba, karlar einnig og konur svolítið að safnast saman nærri veiðistöðum, lítið enn sem komið er, mest einhverjir krampar, ekki skeiðarkrampar. Karlar kannski með pungkrampa. Síðan þurfa allir að upplifa eitthvað sem "enginn má missa af", "einstakt tækifæri", "kemur ekki aftur", en slíkir viðburðir eða tækifæri, tilboð eru daglegt brauð eins og það eiga 33 ára afmæli á eftir 32 ára afmælinu. Konur á Akureyri sýndu hjarðeðli í gærkvöldi, þær greip hjarðeðli, en þá var álíka atburður með framhaldi næstu daga; öfund í Hali, nei. Hjarðeðli Íslendinga í fjárfestingum, bílakaupum, raðgreiðslum og lánum er sérstakt, en eitthvað gerir það að verkum að alltof margir fara og taka "lán" uppá 5 millur, borga 100 kall út og greiða alls 8 millur á 6-8 árum og eru segja þeir að græða, hjörðin gerir þetta, hjarðeðlið.

föstudagur, mars 23, 2007

Sjö undur

veraldar komu Hali til hugar er hann heyrði sögu sjómanns nýverið; sjómaðurinn sem er kominn á níræðisaldur og vel ern, en stirður af gigt, kastaði því fram í kjölfar þess að hann vissi að flest mætti lækna með hnífi (!), að hnífar hefðu verið hin mesta gersemi áður fyrr á sjó og eru eða væru væntanlega enn. Hann minntist þess að stundum hefðu menn verið að njósna um hnífa náungans, bera saman bit, stærð og hagleik. Eitt sinn varð honum litið undir koddann hjá skipsfélaga sínum og sá þar hvorki fleiri né færri en sjö hnífa eins og undrin sjö, en Sjö Samúræjar komu strax upp í huga Hals. Góðir hnífar eru vissulega afar ánægjulegir hlutir að bera og hvað þá nota. Hali áskotnaðist einn úrvalshnífur í vikunni, ótengdur sögunni, færður af freyju sinni; hnífur með japönsku lagi, Santoku 7" hnífur sem hefur lag við hæfi, fellur vel í hendi, vinnulega séð unaður að nota við fyrstu kynni og útlit óaðfinnanlegt, stálið þýskt, framleitt af einum rótgrónum GmbH & Co allt frá 1778!

mánudagur, mars 19, 2007

Skín

eins og sagt var hjá Matta Jokk: "Skín við sólu Skagafjörður skrauti búinn, fagurgjörður." Þannig er nú fyrsta línan í þjóðsöng Skagfirðinga eftir skáldjöfurinn, sem ólesinn er að miklu leyti hjá Hali; því væri gott úr að bæta. Óðurinn er 13 vers. Þrettán. Línur þessar veita enga vissu um framtíðina. Hún er sem ætíð í algjörri óvissu. Skaplegt varla taldist ferðaveður norðanlands í gær, en er Halur reis máttfarinn úr rekkju skein sól að nokkru. Haldið vestur. Margir á ferð, enda mánudagur og e-r eftirlegukindur frá gærdeginum. Ökutæki misjöfn eins og mörg. Sumir með einkanúmer eða hvað sem það er kallað en aðrir venjulegir. Sumir á Skóda, aðrir á Pæjeró, enn aðrir á Fólksvagen. Er Halur var kominn nokkuð norðan Varmahlíðar mætti honum Skóda bifreið líklegast, hvít á lit (einn af fáum litum er Halur þekkir, en hann þekkir aðeins einn hvítan lit). Þá kvað Halur:

Varla hélt að eldri yrði
ellegar keyra Halur þyrði,
þegar sá
þeysa hjá
"sjálfan Elvis í Skagafirði".

Elvis er sem sagt á Skóda í Skagafirði, á númeraplötunni stóð reyndar (ef rétt var tekið eftir): ELVISP! Elvis norðursins, Elvis Skagafjarðar, aumingja Elvisarnir í Ameríku.