sunnudagur, nóvember 18, 2007

Snobb

segja einhverjir um blogg gærdagsins, en til að bæta gráu ekki ofan á svart, þá vill Halur minnast tveggja skemmtilegra og hallærislegra með afbrigðum karaktera úr einni af James Bond myndunum; nefnilega Mr. Kidd og Mr. Wint, sem léku í "Diamonds are forever". Stuttar og hnitmiðaðar setningar og glæpsamleg athæfi framkvæmd af kunnáttu, en allt einfalt, nærri navískt. Sjálfsagt ekki eftirminnilegir öllum eins og Stálkjafturinn (ljósaperuatriðið er sígilt með honum), en í þeim bregður fyrir nokkuð sem aðrir vart leika eftir, nærri B-mynda klassík! Oft er hún best, nærri C-inu kannski.

laugardagur, nóvember 17, 2007

Óveðrið

kemur manni stundum til að hlusta á útvarpið; svo var í kvöld er Halur fyrir tilviljun settist við hljóðvarpið og var þá sérstaklega áreynslulaus tenórrödd nærri; þar var á ferðinni rússneski tenórinn Sergei Yakovlovich (1902-1977) sem sem sagt söng án rembings nokkrar hljómfagrar og tærar aríur, minnti nokkuð áreynsluleysi sumra skandinavískra tenóra sem horfnir eru yfir móðuna miklu. Það var sérstök upplifun að halda út í óveðrið á Tuddanum spilandi Sergei í útvarpinu, sem mun hafa verið alþýðunnar vinur þar eystra, hann mátti heyra milli vindkviða og miðstöðvarblásturs. Þegar þetta er skrifað, les Klaus Kinski og syngur (singt und spricht) efni eftir Brecht; einstaklega sniðugt að geta hlustað á gamalt efni á netinu, efni sem Halur missti af, ekki hvað síst efni sem er á dagvinnutíma eða síðla kvölds. Skiptir litlu þótt þýskukunnáttan sé lítil eða engin orðin, hljómur og túlkun stendur fyrir sínu. Enda nýbúinn að vera í Berlín og mest austan megin; Berlín bíður nýrrar heimsóknar og vonandi fyrr en seinna. 

föstudagur, nóvember 16, 2007

Einkennilegt

finnst Hali að "Stökur, 21. desember árið 1844" eru sjálfsagt með því besta (kannski er minnið að glepja Hal), sem Jónas orti, dæmi:

Enginn grætur Íslending
einan sér og dáinn;
þegar allt er komið í kring,
kyssir torfa náinn.

Þrjár aðrar stökur fylgja þessari í bókinni, er Halur hefir stöku þessa sótt. Sótt og úrsótt, það að láta sér batna af sóttinni, úrsótt er nýyrði í tilefni dagsins, enda samdi Jónas mörg nýyrði á hinni skömmu ævi. Úrsótt eins og afturbati.

Enginn grætur

Íslending, einan sér og dáinn, sagði listaskáldið góða; það er náttúrulega að bera í bakkafullann lækinn að nefna Jónas í dag, en Halur telur fulla þörf á slíku. Á tímum klisjunnar, flest er fyrirsjáanlegt, flest verðlaun eins konar sjálfsupphafningar og fyrirséður vinagreiði, hins að allir séu að slá í gegn og gera það "besta sem fram hefir komið" í hinu og þessu, sumt auðvitað réttara en annað, þá er mikilvægt að halda honum til haga og nota jafnt og þétt. Lesa og gleðjast, enda óviðjafnanlegur og þá í eignlegri merkingu með innihaldi en ekki aðeins umbúðum. Halur varð var við Jónas í gönguför um heimkynni æsku hans á haustdögum; það var óviðjafnanleg upplifun, alveg eins og lesa Jónas. Sennilega líður manni svo vel að lesa Jónas, þar sem auðvelt er að sjá í hendi sér að "enginn lifandi maður" gerir betur. Þess má þó óska sér, okkur öllum til handa. Á meðan er líf í landinu. Halur tók fram Kvæði Jónasar Hallgrímssonar í eiginhandarriti, ljósprentun í góðri stærð, útg. 1965. Þar kemst maður nokkuð nærri honum. Og það er þægileg samvera.

mánudagur, nóvember 12, 2007

Bjargvættur

þess er þetta ritar er 43ja ára í dag. Það er nú ekki hár aldur enda verður frúin í Vinaminni aðeins glæsilegri og mýkri með ári hverju. Hin fátæklegu orð sem hér á blað eru færð eiga að vega aðeins upp í einhvers konar afmælisóskir. Vonandi njótum við vinsemdar, væntumþykju, visku og ráðlegginga hennar lengi enn, hún lengi lifi, húrra, húrra, húrra.......................

sunnudagur, nóvember 11, 2007

Vinsælar hetjur

tónlistarinnar og sérstaklega í rokk- og poppböndum eru oftast nær söngvarar (saungvarar) ellegar gítaristar. Svipað og er með fiðluna, sellóið og píanóið hinum megin. Halur vill gera sérstaka athugasemd við þennan þankagang; hetja Mugisonsbandsins að honum sjálfum undanskildum sem lagahöfundi og afar viðfelldum manni, var án nokkurs vafa trommarinn. Hann fór hamförum og hvenær sem er mátti búast við kraftaverki í hæstu eða lægstu hæðum tónlistarinnar. Trommu-uxi. Halur fékk hugdettu síðdegis og þá ekki af verra tagi; nefnilega þá að fara ganga með bindi (áhrif frá tónlistarmönnum). Honum var nú bent á það af húsfreyju eða réttara sagt í spurnarformi, hvort hann ætlaði að nota bindi við flíspeysuna, hinn nýja þjóðbúning. Úr yrði sennilega þjóðbúðingur. Málið er í athugun. Bindin í skápnum.

Heppnin

er stundum með Hali, og svo var í vikunni. Halur hafði séð auglýsingu um fyrirhugaða tónleika með Mugison á Akureyri fyrir nokkru en síðan verið í annarlega hugarástandi, ekki vímu þó, hinn sama dag og leikur átti að hefjast. Er hann kom heim úr vinnu sá hann svart umslag eins og geisladiskar gjarnan í eru geymdir, á kommóðu einni í gangi Vinaminnis. Var það gjöf húsfreyjunnar til bóndans og þá nýjasti diskur Mugisons, alveg að óvörum en í leiðinni innan um vellíðan og ánægju yfir gjöfinni, splundraðist hugurinn sökum tónleikanna sem hefjast áttu innan tveggja stunda. Halur er maður undirbúnings og einnig hins að láta ógert. Eftir undarlegt ferðalag með og á móti tónleikunum, var ákveðið að skunda af stað í bæinn og bíða í kuldanum drykklanga stund til að fá miða við innganginn, það var eina leiðin. Frúin með þrátt fyrir útrásarvinnu. Halur bjargaði því að unnt var að selja miða með posagræjum en það er önnur saga. Eins og oftast, þá vill Halur vera afsíðis, en þessa tónleika var hann á stað grúpp-pía, alveg fremst en lá þó eigi flatur á gólfinu eins og dæmigerð grúpp-pía ætti að gera. Um tónleikana má segja að betra var að missa ekki af þeim; aldeilis ágætir eða stórgóðir, sérstaklega ef mið er tekið af því að lögin var Halur að heyra hið fyrsta sinni. Íslenskir tónlistarmenn eru sannarlega í fremsta flokki, en tónlist Mugisons er blanda af ýmsu, ýmsu sem Halur hefur ánægju af. Sum lögin þurfa á sterkum græjum að halda, þannig að púðrið komist út úr hylkinu. Aðallega eins og oftast var þetta frúnni að þakka og er henni enn og aftur þakkað. Hún á afmæli á morgun.