sunnudagur, september 30, 2007

Urrrrr-ið-inn heim!

Handritin heim, hver man eigi eftir deginum, en þá voru á stundum fréttir fréttanna vegna. Einstaka sinnum hefur Halur beðið eftir einhverju sérstöku. Svo var með urriða nokkurn er dreginn var á land í sumar; hann var hjá uppstopparanum eins og sagt er á slæmri íslensku (hamskeri var víst einhvers staðar í æsku það heiti sem var opinbert ef Halur man rétt). Hann ólst upp við íslenkuáráttu og er ekki alveg laus við hana enn þann dag í dag. Urrrr-ið-inn er sem sagt kominn heim í Vinaminni og hefur farið á efri og neðri hæðina sem og útí garðinn þar sem haustlitir mæta fólki. Hann hefur ekki minnkað, þykkur og mikill. Halur vissi að erfitt yrði að ná gulu slikjunni en þetta er sem sagt ágætt; eins og sagt var í Íslandsklukkunni (sem sagt gott þar). Nú er hann kominn á ágætan stað ofan við gamla skrifborðið með rennihurðinni, þar sem allar veiði- og hnýtingagræjurnar eru í kjallaranum. Gott verður að líta á hann í vetur milli fjaðra á fingrum og þegar hjóli er brugðið úr skúffu. Halur segir sem sagt velkominn heim urrrriðinn minn.

sunnudagur, september 23, 2007

Jafn

heimskulegt og það nú er að segja sem svo að maður hefði nú ekki viljað missa af hinu eða þessu, eftir að hafa sjálfur verið þátttakandi eða álíka í hinu sama, þá er rétt að minnast á tónleika Megasar og Senuþjófanna í smábænum Akureyri um helgina. Megas er að mati ritarans einn af fáum "legendum Íslands", sem náð hafa slíku í lifandi lífi en ekki fyrir innantóm eftirmæli eða umsagnir hinna sem vita (eða vissu). Sjaldgæfur möguleiki sem m.a.s. Halur lét eigi framhjá sér fara. Megas er einn hinna sem Halur hefir áratugum saman haft ánægju af að hlusta á enda tónlist bæði ætluð til slökunar og æsingar, koma manni í rétta formið; Megas auðvitað allt í senn, enda í uppáhaldi með texta sína og laglínur er smjúga á milli og gleymast eigi. Mest kom þó á óvart atgervi kappans orðinn þetta "gamall" en andinn sýnist eiga nóg eftir eins og vonandi skrokkurinn; annað var og er ekki að sjá. Skapandi listaverk áratugum saman og það á landi eins og þessu þar sem mest og flest er klisja og allt nýtt best talið; innatóm verðmæti upphafin. Það er best að þakka fyrir sig og sérstaklega hinum ágæta vini er beindi Hali á tónleika Megasar í tíma. Það vissi á gott að sjá hálsklæði kappans á kamrinum rétt áður en tónleikarnir hófust, hangandi á snaga. Sjaldgæf sjón og upplifun, enda engin líkklæði þar.

mánudagur, september 17, 2007

Sjaldan

er rétt að blanda sér í dómskerfið eða lögreglumál, en tækifærin eru óendanleg á Íslandi eins og annars staðar væntanlega. Að öllu siðferðishjali slepptu þá verður að minnast einu sinni enn (held að Halur hafi áður skrifað um sama mál en man ekkert) á "Hið stóra gjaldeyrisviðskiptatölvumálaðkveldidags" þar sem nokkrir saklausir norðanpiltar duttu oní gjaldeyrisbauk á heimasíðu Glitnis (sem halda mætti að væri í frjálsi falli) og færðu músina í nokkur skipti milli sölu og kaups. Síðan gerist það að hinn sami banki fær embættismannakerfið til að knésetja (og helst dæma seka) hina sömu fyrir "glæp" sem bankinn framkallaði. Og ætlar að halda þessu til streitu. Hvernig virkar kerfið og siðferðið; um það má deila eins og alltaf. Það styttist í skíðafæri.

sunnudagur, september 16, 2007

Einstaka

sinnum kemst Halur að því að hann getur lært og breyst. Slíkt mætti áreiðanlega oftar gerast. Eftir að hafa verið nokkuð harðsnúinn andstæðingur sjóbaða og eða baðstranda í útlöndum lærði hann loks í síðustu utanför að þar mætti dvelja og hafa það ágætt; sem sagt á ströndinni og við sjóinn (la mer). Skipti kannski máli að strandfélagar voru ágætir, synir tveir auk frúarinnar sem baðaði sig örlítið og var það eigi til skaða. Sjórinn temmilega kaldur og tær, fiskar að skoða og annað á landi. Síðan skipti kannski hið gullna lögmál milli seltunnar og líkamsþyngdar miklu enda Halur farinn að reskjast; hann átti þó nokkra góða spretti.