miðvikudagur, október 24, 2007

Ich bin ein Berliner!

Vonandi komumst við nú þangað (eins og aðrir gera), en þrátt fyrir að setning Jóns Kennedís hafði verið ofnotuð eða orðin klisjukennd, þá var hún nú sögð til að minna menn á frelsið ef ég man rétt. Ætíð má endurtaka slíkar setningar ef innihaldið eykur á frelsi manna eða hitt að allir menn skuli frjálsir vera. Ich bin.......verður spennandi en svo skrítið sem það nú er, þá hefir Halur aldrei til Berlínar komið. Mikilvægt að minna á frelsið þegar svo margir vilja taka það í eigin hendur, eftir eigin samvisku og undirvitund.

sunnudagur, október 21, 2007

Gaman

er gesti að fá; svo var í gær. Ekkert merkilegt í matinn, annað er hefðbundin kreppa. Parmaskínka með olíu og balsamediki, parmesan, sítrónu og mozzarella kúlum frá Ítalíu; síðan humar (merkilegt að öllum finnst hann góður, einnig börnum!), klipptur með skærum frá Pottum og prikum (þýskt stál), klofinn með hnífi þaðan (aftur þýskt stál), hvítlaukur, olía og smá krydd, grillaður á hinni ágætu eilífu stálgrind (fæst einnig í P&P), smá pasta, drukkinn fínn Frakki með (fæst ekki í P&P), ágætur já, - og loks mesta kreppan; grillaður ferskur ananas (skorinn með skera úr P&P) með ís og sósu! Aðeins eitt eftir; espressó (kaffi "riserva oro" og kaffivélar fást í P&P, allir þyrftu nú að bragða á því einu sinni). Svona má gera einfalda veislu í rökkrinu.
Þessi pistill var ekki styrktur af Pottum og prikum (þ.e. versluninni P&P). Svona í ofanálag sá Halur snotra snót í dag sem falin hefir verið í nokkra mánuði.

mánudagur, október 15, 2007

Rennsli líkamsvökva

hefir til umræðu verið undafarið vegna þvagláta á almenningi, á almannafæri. Sjálfur fær Halur iðulega þvag annarra manna (sem og sjálfs síns!), karla og kvenna, á sig í tíma og ótíma, en aldrei orðið meint af. Það er hins vegar meingert á almannafæri, almenningi. Ísland er bráðum orðið lögregluríki; allt skal tryggja með lögum, eftirliti, eintómir eftirlitsmenn alls staðar. Þvagrennslisstokkar hafa eigi verið gerðir nægilega víða hérlendis; skömm er á því enda þvaglát iðulegast nokkuð sem verra er að skjóta á frest eftir því sem árin færast yfir. Halur heyrði nýtt orð um helgina af vörum eldri kaupkonunnar í Pottum og prikum; safarauf notaði hún yfir rauf þá sem gerð er á skurðarbretti til að fanga vökva. Halur kemur þá með nýyrðið "þvagrauf" í merkingunni að kasta vatni í þar til gerða rauf á almannafæri, almenningi eða annars staðar þar sem kasta þarf af sér, ekki þvagskál, heldur þvagrauf. Sjálfsagt má finna einhver þvagrör frá hitaveitunni sem orðið hafa afgangs í útrásinni.

sunnudagur, október 14, 2007

The only good indian is a dead indian!

Þetta ku vera haft eftir Philip Sheridan hershöfðingja á sínum tíma vestan hafs. Tilvitnunin segir meira en mörg orð þegar hugsað er til landa vorra er vilja breyta þjóðtungunni í ensku; ensku svona hér og þar, helst alls staðar þar sem gull er að hafa, svipað og með Indjánana. Sjálfsagt þykir gamaldag að vera á móti slíkum hugsunarhætti, en Halur telur hann varasaman mjög. Hann styður hins vegar betri kunnáttu landans í tungufærni erlendra manna. Halur vill benda á nokkur engilsaxnesk dæmi:

Vísa úr Eglu:
Ölvar mik, þvít Ölvi
öl gervir nú fölvan,
atgeira lætk ýrar
ýring of grön skýra;
öllungis kannt illa,
oddskýs, fyr þér nýsa,
rigna getr at regni,
regnbjóðr, Hávars þegna.

Hvernig skyldi nú textinn vera á löglegri ný-ísl-ensku:

Ale is borne to me, for ale
Aulvir now maketh pale.
From ox-horn I let pour
Twixt my lips the shower.
But blind they fate to see
Blows thou bring'st on thee:
Full soon from Odin's thane
Feel'st thou deadly rain.

Annað lítið dæmi sem allir þekkja (151. kafli Njálu):
Kári spurði Björn: "Hvað skulum við nú til ráða taka? Skal eg nú reyna vitsmuni þína."
Björn svaraði: "Hvort þykir þér undir því mest að við séum sem vitrastir?"
-og síðar:
"Svo mun þér reynast," sagði Björn, "að eg mun ekki vera
hjátækur í vitsmunum eigi síður en í harðræðunum."

Hvað með þetta (gömul ensk þýðing):
Then Kari asked Bjorn -
"What counsel shall we take now? Now I will try what thy wit is worth."
"Dost thou think now," answered Bjorn, "that much lies on our being as wise as ever we can?"
"And so you may put it to the proof," said Bjorn, "that I am no more of an everyday body in wit than I am in bravery."

Þessi hefir ætíð verið í uppáhaldi:
Hrappur mælti: "Hér hefir þú mikið nauðsynjaverk unnið því að þessi hönd hefir mörgum manni mein gert og bana."
Loks á nýja málinu:
"In this," says Hrapp, "thou hast done a most needful work, for this hand hath wrought harm and death to many a man."
Sleppi öllu frægari tilvitnunum frá hinum minni eða stærri hetjum.

Þegar eru tilvitnanir þessar orðnar úr hófi langar. Hins vegar er sérstakt að bera saman nýrri og eldri þýðingar saman við móðurmálið; það kemur fljótt í ljós fyrir hverju maður telur sig hafa tilfinningu fyrir.

laugardagur, október 13, 2007

Sumir hlutir

breytast aldrei; einn slíkur er sá að kaupa sér plötu eða disk, enn er það nú unnt þótt flest bendi til þess að "platan/diskurinn hverfi" eins og sagt hefur verið um stund. Sennilega eru mörg góð rök fyrir slíku. Þetta er einnig eitt af fáu sem ekki er óheyrilega dýrt og jafnvel enn meiri ánægja ef hljómsveitarmenn eða einstaklingar gefa plötur út án margra milliliða eða afæta. Afar fátt endist betur og veitir meiri ánægju en góð tónlist; kosturinn sá að auðvelt er að njóta hennar; auðveldara en að lesa langan texta sem kemur þarna nokkuð á eftir plötunni. Kalla þetta plötu. Aðeins einn ókostur með öllu þessu nýja efni er sá að hafa þarf stækkunargler eða gleraugu til að lesa upplýsingar er með fylgja, en aukaatriði auðvitað. Samt sem áður er álagning enn of mikil á tónlistina á Íslandi. Stundum fer markaðurinn offari eins og í safnplötugeiranum; hvernig er mögulegt að gefa út safnplötu með Neil Young, Tom Waits eða Dylan?

föstudagur, október 12, 2007

Bloggfærslur

eru kannski ein leið sjálfshjálpar, en í dag er sjálfshjálp orðin hálfgerð klisja, klisja á tímum útlitsdýrkunar og neyslu. Ekki verður útlitið étið. Urriðinn er góður, ágætur ofan við gamla skrifborðið, það lítur út fyrir að hann hafi alla tíð þar verið eins og Ingólfur Arnarson á Arnarhóli allt frá barnæsku. Urriðinn leiðir hugann að vatnsniðnum (vatnsniðinum má víst einnig rita í þgf.), árniðnum sem er svo víða á Íslandi þar sem enn renna ár og vötn hreyfast. Slíkur niður gefur ró eða rósemi hugans, nokkuð sem er ókeypis. Það að ganga meðfram fljóti eða vatni sem gefur nið, það er nokkuð sem mæla má með. Halur hefir verið að velta því fyrir sér að taka upp vatnshljóð eða árnið við ákveðna staði þar sem hann best til þekkir; staðir þar sem nægilegt er að hlusta en ekki horfa nema þegar svo háttar til. Nú er hins vegar tími til kominn að hátta.