mánudagur, apríl 30, 2007

Bjartsýni

er öllum nauðsynleg og ekki hvað síst með aldrinum; og þó þar sem æskan er ekki alltaf eins og breiðgata. Halur öðlaðist bjartsýni er hann las um pillu sem verið er að þróa fyrir konur og gera skal tvennt, sem sagt auka kynhvöt kvenna og draga úr matarlyst. Öðruvísi mér áður brá. Það er aðeins einn hængur á þessu eða tveir; pillan kemur ekki á markað fyrr en eftir áratug (eða of seint) og karlar þyrftu pillu sem drægi úr kynhvöt og minnkað gæti átlöngun eða hvað?

fimmtudagur, apríl 26, 2007

Eftir að hafa

setið yfir framboðslista Flokks H. Húfubólgusonar fyrir kosningar á næstunni, verður Halur því miður, að tilkynna hin leiðu tíðindi, að flokkur hans er hættur við að taka þátt í kosningunum. Fyrir það fyrsta getur Halur ekki farið fram nema í 13da sæti en það er ekki öruggt sæti (í dag); í annan stað og svo framvegis má nefna hættu á klofningi, 7 flokka stjórn, minnist kosninganna 1959 eða 1974, aftur klofningur, flutning atkvæða milli flokka þannig að einn flokkur fær fleiri atkvæði en annar, vondir stólar, lág laun nema hvað, loforðagleymsku, fælni við framkomu, lágur prófíll, ófagur, bakhjarlaleysi. Farinn.

sunnudagur, apríl 22, 2007

Gömul kynni

gleymast ei; það sannaðist í skemmtilegum tónlistarþætti í útvarpinu í gær um grúppurnar en ekki grúpp-píurnar sem voru í tengslum við Rokkbyltinguna í Reykjavík á sínum tíma. Halur átti einu sinni 2ja eða 4ra laga vínýlplötu með hljómsveitinni Þey; fallbeygist svona með og án greinis:
þeyr
þey
þey
þeys

þeyrinn
þeyinn
þeynum
þeysins

Tedrukkinn, Maggasýn, Rúdólf og fleiri gullkorn; ekki verra þegar vinur í götu átti þetta við hendina og færði Hali að láni. Það er enginn leið út úr þessu rassgati sungu þeir og sagan endurtekur sig; rassgatið kemur einnig við sögu hjá Hugleiki Dagssyni sem er einungis stórsnjall teiknari og skrifari og bestu verkin þegar orðin "sígild". Gott að halda þannig sögum eða myndum að börnum (baulaðu nú Búkolla mín).

Sumargjafir

eru sennilega gáfulegri en flestar aðrar gjafir (flestar óþarfar, en sælla er að gefa en þiggja). Sumarið og birtan er á sinn einstaka hátt öðruvísi og best að sofa árstíðina eigi af eða frá sér. Sumarið er gjöf náttúrunnar. Unnt er að færa sjálfum sér gjafir, t.d. að fara í sund og stundum er það ansi gott þeim er sjaldan þangað fer. Af vatni og jafnvel hreinu eða tæru er ofgnótt enn á landi hér, en þannig er óvíða farið. Halur hefir verið að gjóa augunum af og til austur til Mongólíu en þar er málum öðruvísi háttað. Hann gladdist er fréttist af verðlaunum (gjöf) til handa Tsetsegee Munkhbayar. Halur stefnir á ferð austur til Mongólíu innan fáeinna missera eða ára í versta falli. Þar ku vinsemd fólks vera mikil sagði fransmaður Hali á Kólaskaga í fyrrahaust. Ef Íslendingar væru aðeins fleiri, hvað þá með öll vatnsbólin, árnar, vötnin, jarðhitann, sundlaugar og annað sem krefst vatns?

laugardagur, apríl 07, 2007

Blindsker

þjóðernishyggju, þjóðernis; farið á leiksýningu þar sem íslenskir Derrickar voru ekki að leika eins og ætíð á árum áður. Sýning er samanstóð eftir því sem Halur veit best af útlendum aktörum, öllum ágætum, gamall skólabróðir ritarans samdi textann, margir leyndir brandarar. Það byrjaði þó þannig eða leit út fyrir að vera sóló-sýning fyrir Hal og drengi tvo eru fylgdu honum á svalirnar; annar aldregi komið þarna áður, en síðan komu 4-5 aðrir eða svo og sátu sýninguna út. Halur hefur á stundum verið kominn að því að ganga út í miðri sýningu. Salur þéttsetinn. Halur veltir því stundum fyrir sér hvers vegna það telst vera allt í besta lagi fyrir Íslendinga að "þiggja góðsemi" erlendis í námi og fleiru, horfa á kvikmyndir útlendar, sem tröllríða öllu hér á landi, fá allt lánað eða keypt sem þeim hentar en henda hinu á haugana; hitt þetta sem eru útlendingar búsettir á Íslandi. "En passant" má nefna (eða ekki) að Halur kom við á Hóteli KEA í kvöld og sótti þar tvo poka af kaffi sem komust ekki með flutningabílum norður f. páska en sölumaðurinn dó ekki ráðalaus; sendi pokana með frænku norður og hringdi í Hal. Má Halur drekka kaffi sem ættað er frá útlöndum og nota ítalskar aðferðir við að brugga kaffið í bolla? Íslenska kaffið (hvar er það ræktað?) hlítur að vera "best í heimi" eins og reyndar ofangreind sýning hét.

La Marche de l'empereur

stóð til að taka upp á mynddisk í gærkveldi og þá sá Halur ljós; Guð minn góður, Jesús Kristur er orðinn "auglýsing" á Ríkistívíinu. Jesús, um Jesúm eða Jesú, frá Jesú og til Jesú! Ekki flókið. Held að föstudagurinn langi hafi verið í gær (allir dagar eins) og öðruvísi mér áður brá eða fylgist Halur illa með veröldinni? Halur styður þó frelsið, allt er leyfilegt en burt með auglýsingarnar og þá alltaf á ríkisrekinni stöð. Það er unnt að mæla með lestri Gunnars Stefánssonar á Passíusálmum HP, hlusta stundum á hann á vefnum eins og núna. Hali líkar lesturinn, textinn í raun sígildur og góður.

Halur telur sig hafa séð líkingu Krists á krossinum í göngugötunni á Akureyri f. mörgum árum; Anna R. að sópa stéttina og skúra, var með prik og hékk á því, sveiflaði og var í grænu bikiníi í norðanáttinni. Sennilega eina lífsmarkið í göngugötunni frá því að Halur flutti norður, en margir munu hafa "krossfest" atriði þetta, kallað lágkúru. Franska fyrirsögnin minnir Hal á ólund sumra í garð Frakka og er til að árétta þol í garð annarra (líking við mörgæsirnar!); sennilega sökum sérvisku Frakka og hversu hreiknir þeir eru af öllu sem franskt er!

sunnudagur, apríl 01, 2007

Í dag vissi Halur

hvorki né; hvort hann væri að kveikja eða slökkva á perunni. Hann hefir misserum saman verið að reyna að koma ljósi til að loga í anddyrinu, annað perustæðið verið bilað. Síðan kom draugur í baðljósin við spegilinn; aðeins annað lýsti og þá aðeins annað með sömu perunni. Frúin bar í hann þrjár en ekki þrettán ljósaperur nýverið en það varð eigi ljós. Tveir karlar börðu að dyrum Vinaminnis síðdegis; annar rafmaður, hinn perumaður enda spilaði hann með Perunni á sínum tíma. Frægur en fáir þekkja í dag. Fór svo að í ljós kom (ekki ljós samt hjá Hali) að allar perur sem keyptar höfðu verið reyndust ónýtar, nema þessi eina sem alltaf lýsti á baðinu, hægra eða vinstra megin, sunnan eða norðan; marg-gáð að slíku áður og teknar úr nýjum umbúðum, samt svona. Ekki batnaði það þegar ljósið var reynt í anddyrinu; þar var nægilegt að rafmaðurinn skrúfaði peruna einu sinni í stæðið og þá varð ljós.

Heimskur er heima hver, Halur er heima hver.