laugardagur, febrúar 25, 2006

Félög

og klúbbar eru af ýmsu tagi. Halur telst vart hæfur til þrifnaðarmikilla klúbbstarfa enda hefir hann ekki sóst eftir að ganga í klúbba þá er tröllríða öllu á hinu bólgna landi, Íslandi. Marga þekkir hann hins vegar sem eru á öndverðum meiði og allt gott um það að segja. Sennilega þrífst Halur best í einmenningsklúbbi (klúbbur í eintölu eða fleirtölu!) en gæti þó hugsað sér að vera í klúbbi einum sem starfræktur er á Englandi. Sá hinn sami klúbbur var stofnaður árið 1822 og tengist veiðiá nokkurri er heitir "The River Test" (The Test), en nafn klúbbsins er "The Houghton Club". Meðlimir hafa aldrei verið margir eða 22 við stofnun og munu í dag vera örlítið fleiri eða 33 eða svo. Ljóst má vera að hver sem er kemst eigi í klúbb þennan, en Halur telur sig ýmsum kostum vera búinn, sem gætu gert vonir hans um inngöngu mögulega. Hann væri vís til þess að eyða dágóðum tíma í svona lagað og þá yrði hann a. m. k.ekki aðgerðalaus á meðan sem ku vera það versta sem hann veit. Einnig er það þannig þegar Halur gengur með stöng í hönd meðfram árbakka eða vatni, þá er hann í sínum eigin klúbbi, eigin hugarheimi og engir meðlimir nærri til að draga athyglina frá því sem mestu skiptir.

sunnudagur, febrúar 19, 2006

Tvítyngi

er nú í tísku. Það er eins með tískuna og tvítyngi; bæði lúta lögmálum sem jafnt eru skráð og óskráð, bæði þekkja vart hvenær er komið nóg af hinu eða þessu. Of mikil tíska leiðir til úrkynjunar, tískuleysis, tísku er aðeins fáir fara eftir, hátísku. Og of mörg tungumál leiða til málleysis, skilningsleysis. Tala tungum tveim. Halur á erfittt með að skilja, já skilja texta sem skrifaðir eru á öðrum tungumálum (ritmálum) en hinu íslenska, þ. e. skilja textann frá a-ö, skilja hvert orð, samhengi orða og innbyrðis hljóm, uppruna orða og tislvísun í gamla texta. Hann skilur hvert orð, en ekki í sögulegu samhengi þannig að textinn verður ætíð flatur, nærri flatneskjulegur. Því les Halur frekar íslenskar þýðingar á erlendum bókum en frumtexta; undantekning er fræðilegur texti, hann er ekkert vandamál enda búið að fletja hann út á staðlað form sem einu sinni hét enska. Norrænn texti skárri, ennþá á stundum. Halur telur það afturför ef Njála verður óskiljanleg með öllu nema á ensku; hvernig þjóð verðum við þá? Tungumálið er til þess að nota það, sama á við um ritmálið; það er hryggurinn sem heldur okkur uppréttum.

Í lok tvítyngistímabilsins fer það svo að faéinir munu aðeins skilja hvað orðið tvítyngi þýðir, hvað þá uppruna þess.

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Framboð

til sveitastjórnar stendur Hali nærri. Til þess eru ærnar ástæður. Halur er frjálsyndur maður en þó vill hann hafa reglu á hlutunum, jafnvel lögmál í gildi. Hann er félagslyndur en þrífst illa í hóp. Hann vill að fólk eigi að vita hvenær það megi trufla hann. Hann vill framfarir á öllum sviðum nema þeim sem gætu dregið úr gildi og mikilvægi hans sjálfs eða verka hans. Hann er meðlimur í Sögunarfélagi Eyjafjarðar (hefir fengið inngöngutilboð), verið nærri því að ganga í frímúrararegluna þegar hann var yngri, átti bankabók í Sparisjóði Önundarfjarðar (handskrifaðar inn- og úttektir) og hefur staðið nálægt og horft á sveitastjórnarmenn halda ræður. Hann er því mörgum kostum búinn sem gerir hann fýsilegan kost í framboði. Hann er fæddur leiðtogi en fáir fylgja honum. Hann óskar eftir sæti 1-13 á listanum en fremur sæti eitt ef hann mætti velja. Hann á auðvelt með að verða undir í keppni.

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Ferðabransinn

hefur breyst mikið á skömmum tíma; það gildir ekki hvað síst um það sem Halur nefnir "ofurferðir" eða ferðir sem ætlaðar eru fáum en auðugum af fé og á sama tíma þurfa ferð sem enginn annar hefir farið en að sama skapi bjargar viðkomandi undan streitu og álagi. Halur gladdist því fyrir hönd þeirra sem hafa kost á að fara í ferð til Himalæja og breyta um lífsstíl, en þar mun vera "glæsilegasta heilsulind í heimi" (efsta stigið hefur enga þýðingu eða innihald lengur) og "boðið er upp á 79 (ekki 79 á Stöðinni) mismunandi þerapíur og dagskrár til að öðlast nýjan lífsstíl". Vandamálin eru greind og meðhöndluð á staðnum. Prísinn fylgir ekki með auglýsingu þessari en væntanlega niðurgreiðir TR ekki slíkar ferðir enn sem komið er. Það er spurning hvaða þerapía virkar best á stað sem þessum, en þarna eru m. a. eiturefni hreinsuð úr líkamanum. Eigi vissi Halur að það væri flókið mál nema hjá þeim með þvag- eða hægðastopp og vart gæfi það annan árangur að hafa hægðir og kasta vatni fyrir austan. Hugsanlega gætu menn bara farið í gönguferð og gert hið sama.

laugardagur, febrúar 11, 2006

Í Vinaminni

er málum háttað á ýmsa vegu. Ekki hvað síst gildir það um staðsetningar á slökkvurum og því sem áður var kallað innstunga en það er víst bannað að nota slíkt í dag, minnir að þetta sé notað yfir e-ð annað líka; tenglar skal það heita, ef Halur man rétt, en lítt er á það að treysta. Slökkvarar og innstungur voru á tíma þeim er Vinaminni var byggt (í tveimur áföngum) ekki alveg að "gera sig" svo notað sé dæmigert nýlensku tal. Leita þarf að þessum hlutum á óvenjulegustu stöðum en sennilega er það vegna virðingar við þann (eða þá) er fann upp rafmagnið og ljósaperuna. Frúin í Vinaminni er smekkkona (3 k!). Það sannaðist á baðinu sem loks var endurnýjað, engin nýlunda þó. Hins vegar hafa rafmagnsvírar staðið útúr veggnum á baðinu í tæpa 4 áratugi og beðið eftir hlutverki. Vírarnir í loftinu verið tengdir rússaperu. Hlutverk ónotuðu víranna á vesturvegg breyttist heldur betur í vikunni er tveir lampar voru þeim tengdir þannig að ekki aðeins vírarnir hafa öðlast mátt, heldur einnig annar slökkvarinn sem beðið hefir eftir virkni allan þennan tíma. Nú er ekki lengur ljóslaust þegar ýtt er á hann. Notagildi kemur ekki ætíð fram eins skjótt og ætla skyldi, en margt sem gert var í árdaga Vinaminns hefir sannað sig smám saman.

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Sérkennilegt

er að velta fyrir sér byggingalist á Íslandi, þ. m. t. í Skagafirði. Þegar gamla sjúkrahúsið var byggt, þá var það venja að hafa hátt til lofts, nota litla hljóðeinangrun þannig að orð læknanna hljómuðu eins og talað væri í helli og ekkert færi til spillis. Engir aðrir töluðu og sjúklingarnir allra síst. Skemmtilegast er þetta á gamla salerninu á jarðhæðinni; þar er snýr dósin þannig að erfitt væri fyrir fótalengri mann en Hal að komast fyrir, en lengd herbergis er nægileg. Hæðin er hins vegar slík að hafa mætti efri og neðri hæð, allt eftir því hvað gera skyldi. Hávaxnir reka sig ekki upp undir. Þegar talað er úr endagörn innan rýmis salernis, þá fer hljóðið í hring. Loftun er þar ágæt. Annað skemmtilegt sem enn er til staðar í Skagafirði og þá á Sauðárkróki, er venja sú að vita hver er næsti maður sem þú mætir á förnum vegi, hvort heldur í bíl, á göngu eða kaffihúsi (bakaríinu). Það kveður svo rammt að þessu, að gengið var nærri Hali þar sem hann sat og borðaði bakkelsi fyrir pening sem frúin lét hann fá áður en hann fór að heiman, þannig að tvær eldri konur horfðu vandlega í augu Hals í von um að þekkja þennan ókennilega mann, sem reyndar var klæddur í sinn venjulega þjóðbúning. Þær vissu síður tvær, að sennilega er Halur þeim skyldur í 4 lið hið minnsta.