mánudagur, apríl 25, 2005

Af króklausum

Hali fara fáar sögur markverðar aðrar en þær að hann dreymdi þessa ambögu í nótt, en nóttin sú var björt og fögur á þvaglátaskeiðum Hals:

Í garðinum þarf að halda haus,
Halur gamli og ekkert raus.
En vandast mál
og versnar sál,
ef vantar krók á Halsins-daus.

sunnudagur, apríl 24, 2005

Garðvinna er

eins og góð bók; hægt að iðka hana á eigin hraða, taka til hendinni hér og þar. Eins er með bókina, unnt að fletta hér og þar, lesa sama textann að nýju og endurmeta og hafa gaman af, lesa á hraða eftir getu og tilefni. Garðvinnan er hafin í Vinaminni, nú á eigin hraða og rólegheitum ef mið er tekið af fyrri vinnu sem meir var unnin af krafti en þekkingu, meira strit en vit. Allt sem Halur kann í garðvinnu, hefur hann lært af húsfreyju Vinaminnis, allt er þaðan komið, allt hefur reynst rétt og ekkert brugðist til þessa, jafnvel fyrir algjöran viðvaning sem Halur nú er í þessu sem flestu öðru. Hann tók þó vissa áhættu í dag er hann færði silfurblöðkuna í suðvesturbeðinu um nærri 80 cm til suðausturs í sama reit eða beði, beður er gott orð í mörgu samhengi, (sárbeður), þar sem hann vonar að hún njóti sín enn betur, enda með afbrigðum fallegt tré.

Halur á þó í nokkrum vanda með afurðir sem koma þarf á haugana, þar sem hann er nú króklaus að aftan, ekki kemst allt í safnhauginn (gott að fáir hafa hann séð). Halur biður nú góðar vættir að leysa þennan vanda og sá er fyrstur kemur með krók (ekki á móti keldu) og hvað þá kerru, getur vænst þess að fá "góða skoðun" án endurgjalds. Krók- og kerrulaus er Halur ekki til neinna stórræða líklegur en hann mun hins vegar halda áfram í garðvinnunni, sem er ókeypis meðferð við öllum kvillum mannskepnunnar, jafnt andlegum sem líkamlegum, hvar bilið er þar á milli, veit Halur nú eigi. Best að skrifa ekki meira hér.

föstudagur, apríl 22, 2005

Fæst orð

bera minnsta ábyrgð, stendur e-s staðar skrifað, en þetta hefur Hali stundum komið til hugar þegar hann rekst óvart inn á kvennabloggsíður; þar er víst að sjaldnast hafa þær er þar hafa fingur á borði, talið orðin eða tímann sem tekur að komast yfir ritfjallið. Halur skyldi þó síst gagnrýna aðra, hvað þá konur, sem hann líkist æ meir með aldrinum. Hann getur hins vegar á stundum orðið undrandi þegar hann heyrir konur tala saman tímunum saman án andardráttarhlés. Svo var háttað í Vinaminni í eftirmiðdag er Halur kom þar inn, að þar voru konur í stofu, eigi margar þó og eftir skamma stund urðu þær aðeins tvær auk húsfreyju. Þegar klukkan var orðin nærri sjö (kvöldmatur), taldi Halur að þessu lyki nú brátt, en svo var nú eigi; áfram héldu þessar ágætu konur að tala saman án hlés næsta klukkutímann en þá var Hali orðið svo illt í eyrum að hann lagðist í dyngju skamma stund. Talað höfðu þær í góðar tvær klukkustundir áður en Halur kom til stofu að sníkja gersemar húsfreyju - matarkyns.

Er Halur lá í dyngju, þá dreymdi hann þessa ambögu:

Talað höfðu tvær í lotu
talað karlinn Hal í hrotu.
Tímum saman
tungur lam´ann
þessar tvær með orðagotu.

Halur er með þessu einungis að viðra öfund sína í garð kvenna sem þessum búnaði eru byggðar, þetta mun vera meðfæddur búnaður, en þó er kannski unnt að koma honum fyrir síðar ef á þyrfti að halda. Talað höfðu tungum tveim................

miðvikudagur, apríl 20, 2005

Halur er

ekki alveg allur, en orðinn er hann meyr með afbrigðum eftir að hafa komið inn í Vinaminni í eftirmiðdag, hnoðað deig og skorið ýmis konar efnivið í ítalskan mat; hann varð nærri allur eftir að hafa lesið kommentin á síðunni, sem engin ástæða er fyrir nokkurn mann að taka nokkurt mark á, þó ekki væri nema smávegis. Það væri óregla, svartur reykur úr skorsteini páfagarðs er hins vegar marktækur og gott að vita til þess að hugsjónir frelsis og andríkis verða enn um sinn ríkjandi þar; skrítið að þeir hafi ekki hvítan reyk þegar staðgengill Jesús Krists hefur loks verið valinn.

Halur lenti annars í skemmtilegu prófi í gær er hann hitti fornan og aldraðan vin úr Ólafsfirði, bónda með meiru, sá hefur haldið tryggð við Hal. Gamlir menn halda helst tryggð við Hal, jafnvel gömul hjón, en af þeim lærir hann helst. Hann sýndi Hali áhugavert rafmagnstæki sem var og er rússenskt að uppruna með rússneskum stöfum og útskýringum, tækið er notað til lækninga nánast allra kvilla manneskjunnar. Halur reyndi tækið á sjálfum sér eftir ráðleggingum bónda, sem horfði á og leiðbeinti. Svolítið stuð og náladofi kom á svæðið þar sem tækið var sett og síðan biðum við eftir því að tækið pípti eða gæfi frá sér hljóð; svo varð ekki. Bóndi hélt kannski að tækið væri bilað, sem Halur taldi fráleitt mjög enda rússnesk smíð. Bað Halur bónda að reyna tækið og það hann gerði. Eftir fáeinar sekúndur byrjaði tækið að pípa, nánast sama hvar tækið var sett á bónda, alls staðar hljóðaði það. Bóndi tjáði síðan Hali í lokin að tækið pípti þegar taugabrautir væru opnar milli snertisvæðis tækis og heilastöðva, brautirnar væru þá í ágætu lagi.

Það má ljóst vera að miðað við þessar niðurstöður, má segja að Halur sé nærri allur og jafnvel dauður, en svo var spurt af e-m Hali ókunnugur á kommentinu í dag. Halur spyr þann hin sama: Segðu mér hvað þú borðar og ég skal segja þér hver þú ert! (?)

mánudagur, apríl 18, 2005

Hrós á Íslandi

er sjaldgæft eins og dæmin sanna og margir geta sjálfsagt litið í eigin barm og reynt að minnast þess hvenær þeim var síðast hrósað. Hrós er ágætt en oft er stutt fram af bjargsyllunni þegar hrósið nær eyrum samferðamanna. Um leið og hrósið hefur borist um gangana, þá er stutt í andlát, jafnvel tvöfalt andlát. Halur þarf engar áhyggjur af þessu hafa, enda hefur honum aldrei verið hrósað, enda ekki furða þar eð hann er með afbrigðum latur og letin inngróin í holhöndum hans. Halur hittir aldrei annað fólk þannig að hann veit ekki hvernig tilfinning það er að hrósa öðrum eða hvað þá fá hrós, til þess þarf hann að vera sýnilegur meðal fólks; fólksfælni er enn og aftur einn af hans mörgu og ólæknandi meinbugum. Hann er eins og Miles Davis á hátindi frægðarinnar, alltaf með sólskyggni fyrir augum. Drós dægurmálanna úthlutar hrósi eftir vindum en engri skynsemi.

sunnudagur, apríl 17, 2005

Fátt er

um fína drætti hjá Hali þessar stundir, en þó getur hann glaðst yfir því að frændi nokkur í Suðuramti sendi honum góðar línur á síðunni. Á meðan unga kynslóðin les slíkan texta sem Halur setur niður, þá er enn von fyrir hana og Hal. Frændi þessi hefir einnig sent Hali góðar gjafir á kostnað móttakanda, sem er algjört aukaatriði í þessu samhengi. Frændinn er bæði snarpur í hreyfingum og hugsun, sem mikilvægt er á þessum tímum eins og fyrrum þegar sigling á opnum bátum um vog gat verið varhugaverð. Gott er að verða fyrir truflun slíkra manna. Halur, sem bæði er sjálfhverfur, ráðalaus, duglaus og huglaus, þyrfti oftar að fá athugasemdir frá slíkum mönnum; þær gætu kannski smám saman komið honum á réttari brautir.

Halur veit að frændinn er nægjusamur enda Vestfirðingur í kvenlegg og það sterkan og mikinn. Það er því ekki úr vegi að rifja hér upp fleyg úr Gerplu nærri bjargsyllunni:

"Þormóður spyr hvað dvelji hann.
Þorgeir svarar og segir: Litlu máli skiptir hvað mig dvelur. Þormóður spyr hvort hann hafi eigi tekið nógar hvannir. Þá svarar Þorgeir Hávarsson þeim orðum er leingi síðan vóru í minnum höfð um Vestfjörðu: Eg ætla að eg hafi þá nógar, að þessi er uppi er eg held um."

Slíkur texti verður ekki bættur. Það fer illa fyrir okkur Íslendingum ef sams konar texti liggur "ólesinn" hjá garði.

sunnudagur, apríl 10, 2005

Erfðirnar

og erfðaefnið eru víst það eina sem enginn nær að losa sig við í eiginlegri merkingu, veit að út úr þessu má snúa. "Losun erfðanna" er nokkuð sem aldrei verður höndlað - vonandi. Þessa stundina eru gömlu hjónin, foreldrar mínir, að leggja sig í kjallara Vinaminnis, nýbúin að borða vöfflur með gamla laginu, heimabakaðar. Sá gamli varð áttræður í gær og var að heiman með þeim hætti að flýja norður í land. Hann sér fram á bjartari tíma í iðkun frjálsra íþrótta meðal öldunga, en það að verða áttræður flytur hann sjálfkrafa í eldri flokk þar sem möguleikarnir verða meiri og miklir reyndar að setja met ef ekki heimsmet, milli þess sem skrokkurinn þarf að jafna sig. Sumir sem æfa með honum eru hálfpartinn fluttir í kasthringinn í rúminu miðað við lýsingar. Hann hefur verið nokkuð normal fyrir norðan þessa dagana, gengið um húsið og fest nokkra lista sem voru lausir eða ófestir, fest rafmagnssnúrur, mokað snjó, sópað skúrinn og velt öllu þar vendilega fyrir sér, skoðað hvort mála þurfi í sumar, kannað hitann í ofnum, breytt hitanum nokkrum sinnum, farið í gönguferð án vitundar annarra í húsinu (héldu að hann væri sofandi), kom kófsveittur heim eftir 45 mín. hraðgöngu um hálfa Brekkuna; reynt að gefa köttunum en þeir eru matvandir. Þetta er sem sagt allt hefðbundið og sú sem fylgt hefur honum eftir í nokkra áratugi kemur vel út úr ferðinni þótt aldurinn hafi farið aðeins verr með suma hluta hennar, allt er þó afstætt sem sagt og gert er.

"Losun erfðanna" kemur til með að leiða okkur til vitfirringar, það verður einungis að sætta sig við kosti og galla þessa fyrirkomulags sem lagt var í vélina á sínum tíma. Sá gamli áttræði hefur átt góða daga hér fyrir norðan og það er kominn tími til að óska honum til hamingju með gærdaginn, þ. 9da apríl. Apríllinn er nokkuð sérstakur mánuður; grimmur þegar verst er, en ofsabjartur hinn daginn eins og sjá mátti og upplifa í gær hér norðan heiða, hvað þá í hlíðum Hlíðarfjalls.

Saman eru gömlu hjónin 158 ára og það er nokkuð hár aldur þrátt fyrir allt.

Aftur til hamingju með daginn og það er gaman til þess að vita að aldursmunur yngsta barnsins í Vinaminni (Ísaks Freys) og gamla mannsins eru heil 70 ár.

föstudagur, apríl 08, 2005

Hægðir

hafa ætíð verið Hali mjög hugleiknar og þá bæði í starfi (hann starfar ekkert) og leik, sem hann sjaldan kemst til vegna kvíða sem magnast við alla leiktilburði. Sum orð tengjast hægðum, önnur ekki. Nú er við hæfi að tengja þetta fráfalli hans heilagleika sem margar stólræður hefur haldið. Enn skemmtilegra er, ef menn hafa eða fá stólpípu í stólræðu (tala í belg og biðu); eiginlegar stólpípur eru þó bráðgóðar við mörgum kvillum og kerlingarkveini, sem nóg er af, hvað þá karlakveini. Margir landar vorir eru haldnir hægðatregðu og vart kemur fyrir að Halur hitti ekki Íslending sem haldinn er slíkri tregðu, jafnvel ofsahægðatregðu; já, ofsahægðatregða er nokkuð sem fáir óska sér, en lesið vel þetta bráðskemmtilega orð sem er í hálfgerðri mótsögn við sjálft sig. All margir landar vorir fá síðan gylliniæð (ekki hollenskt gyllini) sem kvelur og særir sökum hægðatregðunnar. Halur veit að slíkir sjúkdómar hafa margan hestamanninn kvalið.

Halur hefur séð hestamann á góðum aldri, slæman af ofsahægðatregðu og gylliniæð. Hann veit að læknar geta lítið gert við þessu annað en valdið enn meiri tímabundnum sársauka við skoðun. Halur kvað:

Hægðatregðan, hinn óljúfi fengur,
harla slæmur virðist drengur.
En gylliniæðarblæðing
og endaþarmsþræðing
endanlega frá honum gengur.

miðvikudagur, apríl 06, 2005

Iðrun eða yfirbót

er Hali efst í huga er hann hefir rennt yfir Maríukvæði Æris og reynt að ná einhverri sönsun (ekki fölsun), en illa hefur það nú gengið. Heiðinginn Halur er sannarlega enginn æringi í guðspjölllum eða Maríukvæðum; KFUM dugði honum þó lengi framan af. Mörg orð minna hann á sér fremri menn og má þar nefna orðin lin-æri, góð-æri, hall-æri, viður-væri, rass-særi og sam-særi en þar skýtur Ærir sér inn eins og honum einum er lagið. Á hinum páfalausa tíma er rétt að reyna að byrja að nýju með hreint borð ellegar ná sambandi við einhvern sem hefur gerst staðgengill Jesús Krists, þar eð páfalaust er þessa stundina. Einhverjir hafa á seinni tímum snúist til kaþólsku að nýju og Halur hefir það á tilfinningunni að sumir þeirra væru hólpnir. Hann veit þó að hreinsunareldurinn hlífir engum og hitinn frá honum er oft óþægilegur til lengdar. Halur lifir í stöðugum ótta. Halur mun halda áfram að taka við ráðum er hjálpa honum að finna veginn, sjá ljósið sem aðrir hafa séð og horfa í án sólgleraugna.
Halur kvað:
Heiðingjanum Hali sýnist ei,
hvorki páfa né Maríu mey,
takist karli að snúa,
eða kaþólskunni trúa;
við kenningunni segir nei!

Halur er þó trúgjarn maður og trúir á öll góð verk og mannanna gjörðir á hinum staðgengilslausu tímum. Engin framkvæmd eða verknaður á hans vegum gæti gengið nema með hjálp almættisins, en Halur veit ekki til þess að nokkur hafi umboð þess hér á jörðu. Hins vegar virðast margir vera til kallaðir.

sunnudagur, apríl 03, 2005

Hreinsunareldurinn

er margslunginn; sjálfur hefir Halur dvalið þar jafnt meðal réttlátra sem ranglátra. Hvenær verður maður ranglátur? -eða réttlátur? Ellin beygir alla og meira að segja páfann, sem minnti alltaf á Michael Jackson undir það síðasta er maður sá myndir af þeim bregða fyrir. Deyjandi gína. Hvor þeirra er réttlátari?
Gömlu hátalarnir mínir, sem ég keypti fyrir sumarlaunin 1979 ef ég man rétt, höfðu skilað hlutverki sínu afar vel á þriðja áratug, með smá viðgerð. Þeir höfðu verið vansælir útí bílskúr innan um aðra hluti sem þeir þekktu ekki, nema ef vera skyldi gamlá súper-magnarann minn sem sat rólegur hjá þeim og beið eftir eldskírn hinni síðari. Hún kom í dag og báðir hafa farið í gegnum hreinsunareldinn og eldskírn og komið nærri óskaddaðir þaðan. Það mátti ekki bíða öllu lengur að tengja þessa gömlu góðu vini mína (annar hátalarinn er reyndar ekki fullkominn, slasaður á bassa), sem svo mörgum desíbilum hafa skilað í gegnum tíðina. Eftir að hafa verið á stökkbrettamóti í Gilinu í gærkvöldi með sonum mínum, já - ég var úti í gær eftir matinn, ótrúlegt, - komst ég að því að gera þyrfti snögga breytingu í skúrnum, þar þyrfti að vera mögulegt að koma gömlum vinum í gang. Ekki hvað síst eftir að ég sá að Neil vinur minn Young (sem er einn örfárra listamanna sem er heill í gegn og stendur uppúr af þeim sem e-r vinsældir hafa öðlast, það er nánast óþekkt) hafði nýverið hlotið alvarlegan en læknanlegan slagæðasjúkdóm í heila; hann þyrfti að komast í skúrinn til mín og ná sér eftir þessi veikindi. Þetta er ruglingslegt, það er gott að skrifa þannig texta á stundum. Jú - nú er búið að tengja græjurnar, AC/DC hafa trukkað í gegn á stuttuxunum, Waits og tónar strandagæjanna í Beach Boys sem alltaf hljóma ótrúlega lifandi og sannir, gera bara það sem þeir eru bestir í, það sést af ánægjunni í tónlist þeirra. Margt af því sem ég hlusta á er annars dæmt þunglyndi en samt öruggt og á eftir að hljóma vel í skúrnum. Hvernig verður Dylan í skúrnum?Næst er bara að koma á fót bílskúrsbandi, veit að ég stend ekki við það nema sem umboðsmaður í besta falli eða hvað? Trommusett er á heila yngsta sonar míns og hvað væri betra en Led Zeppelin í skúrnum og smá ásláttur frá mér; sennilega kæmi Plant (-an) norður ef hann vissi af þessu tækifæri og heyrði þenna hljóm. Veit ekki um Brian Wilson, hann gæti fengið að gista í kjallarunum eins og margir aðrir, nú innan um gömlu bækurnar sem einnig hafa fengið eldskírn.

Þannig er allt meira og minna hjá mér búið að fara í gegnum hreinsunareld og ekki veit ég hvar hann endar eða í honum kulnar. Ellin beygir ekki þann sem skroppið getur útí skúr og fengið eldskírn þar, enda enginn þessa stundina með umboð páfans; best að skjótast milli húsa. Ljóst að tónlistarsmekkur minn er ekki einfaldur, hann líkist hreinsunareldinum, samanber það að Willie Nelson og Waits eru báðir í skúrnum með vinnuvettlinga, tilbúnir að slá tóninn milli verka með mér.