Alltaf er gott
að komast í gegnum enn eitt árið, að mestu án skakkafalla, en sjálfur er Halur sjálfsagt eigi dómbær á slíkt. Hins vegar kemur það á óvart að þeir hinu sömu og hófu árið með honum skuli standa við hlið hans í árslok. Það nálgast kraftaverk ef litið er á alla vankanta Hals, af nógu er að taka; það er þolinmæðisverk að umgangast menn eins og Hal Húfubólguson. Þetta fólk, þeir hinu sömu og staðið hafa með Hali út árið, verða að teljast menn ársins. Þetta fólk, sem eigi getur talað við stofnfrumur, en það verður að teljast óvæntasta afrek vísinda sem um getur á árinu og sennilegast öldinni, sem er nýhafin. Þá frétt heyrði Halur fyrir tilviljun, virtist heill heilsu á þeim tíma þannig að þetta mun vera sannleikur. Þessa stundina er Halur að fást við glóðirnar, hafin er forleikur með sósugerð að frönskum hætti og síðar kemur hráefni sem teljast verður einstakt að mörgu leiti í dag, íslenskt lambafillé, lamb sem gengið hefur úti í náttúrunni, sem enn er tiltölulega hrein. Einfaldleikinn er oft bestur í matargerð, en talsverður undirbúningur er á stundum þótt lítið sjáist til þess á diski þeim er matinn ber. Eins er með mörg verk frúarinnar í Vinaminni, mörg eru verk hennar, en oft lítt sýnileg á yfirborðinu. Halur veit að ætíð er möguleiki að bæta sig, það mun hann hafa í huga á nýju ári.