laugardagur, desember 31, 2005

Alltaf er gott

að komast í gegnum enn eitt árið, að mestu án skakkafalla, en sjálfur er Halur sjálfsagt eigi dómbær á slíkt. Hins vegar kemur það á óvart að þeir hinu sömu og hófu árið með honum skuli standa við hlið hans í árslok. Það nálgast kraftaverk ef litið er á alla vankanta Hals, af nógu er að taka; það er þolinmæðisverk að umgangast menn eins og Hal Húfubólguson. Þetta fólk, þeir hinu sömu og staðið hafa með Hali út árið, verða að teljast menn ársins. Þetta fólk, sem eigi getur talað við stofnfrumur, en það verður að teljast óvæntasta afrek vísinda sem um getur á árinu og sennilegast öldinni, sem er nýhafin. Þá frétt heyrði Halur fyrir tilviljun, virtist heill heilsu á þeim tíma þannig að þetta mun vera sannleikur. Þessa stundina er Halur að fást við glóðirnar, hafin er forleikur með sósugerð að frönskum hætti og síðar kemur hráefni sem teljast verður einstakt að mörgu leiti í dag, íslenskt lambafillé, lamb sem gengið hefur úti í náttúrunni, sem enn er tiltölulega hrein. Einfaldleikinn er oft bestur í matargerð, en talsverður undirbúningur er á stundum þótt lítið sjáist til þess á diski þeim er matinn ber. Eins er með mörg verk frúarinnar í Vinaminni, mörg eru verk hennar, en oft lítt sýnileg á yfirborðinu. Halur veit að ætíð er möguleiki að bæta sig, það mun hann hafa í huga á nýju ári.

miðvikudagur, desember 28, 2005

Uppgötvun

ársins í ekki-klassík verður að teljast Antony, Antony and the Johnsons. Í milliflokki sannaði Sissel að rödd hennar er engri eða fáum lík á konserti, sama með Antony. Annars kemur það ekki á óvart að leiklistin sé dauð á Íslandi, sama hvað reynt er að berjast við, en Halur hefir þó litla (og minnkandi, enda uppgjöf nærri) reynslu í leikhúsi eða leiksjónvarpi; veit þó að Englendingar geta komið Beckett á þannig form svo unun er að fylgjst með (langt síðan)! Kannski er eins komið fyrir diskaflóðinu og bókaflóðinu á Íslandi. Fyrir utan ljósmyndir sem Halur tók á árinu, sem standa ekki upp úr, má nefna að sumt kom verulega á óvart í sínema, t.d. Sin City, enda slíkur stíll ætíð hrifið Hal, Sideways var einnig góð á sinn hátt og allt í lagi að skreppa þarna suður eftir og fá sér sopa, t.d. í kjölfar veiðiferðar!! Nú er nóg komið.

þriðjudagur, desember 27, 2005

Alltaf koma

sumir hlutir aftur og aftur upp á yfirborðið. Hver man ekki eftir Umba, umboðsmanni biskups er sendur var undir Jökul til að kanna stöðu mála í söfnuði á Snæfellsnesi. Halur hefir lengi stundað rannsóknir á útlenskum veiðisvæðum, ekki ósvipað og Umbi átti að gera fyrir vestan, meira svona til gamans en nokkurs annars. Það er Hali því sérstakt tilhlökkunarefni að nú hyllir loks undir för til Kóla-skagans stóra og mikla þar sem ennþá munu flestir hlutir óhreyfðir frá fyrri tíð nema þeir er kjarnakljúfar hafa hreyft við. "Sá sem ekki veiðir (lifir) í skáldskap lifir ekki af hér á jörðinni." Einungis helsótt eða annað álíka kemur í veg fyrir slíka för héðan af. Þeir sem muna eftir Umba, vita þá það að Halur verður vonandi í Umba við fluguæfingar með haustinu. Þar mun víst sá stóri leynast og jafnvel sýna sig öðru hvoru. Skjálftinn er hafinn á bakkanum.

mánudagur, desember 26, 2005

Brúnar hænur

geta gert gæfumuninn. Það virðist talsverður munur vera á eggjum hæna er ganga lausar og verpa í "hreiður" og hinum vélhænunum, en það sýnist raunin eftir notkun undanfarið á slíkum eggjum til matargerðar og ekki er útlit þeirra einungis glæsilegra, heldur er skurnin allt annars konar. Halur mælir með vistvænum eggjum, en sennilega eru þau dýrari og ekki auðfengin að jafnaði. Annars er flóðið afstaðið og Halur sem les að jafnaði engar íslenskar skáldsögur eða bækur sem "eru inni í umræðunni", nema stöku vísnakver og gamlar bækur, er þessa stundina að hefja lestur á Flugdrekahlauparanum eftir Khaled Hosseini, en bók sú lofar góðu og kom sannarlega á óvart að fá slíka bók í hendur á tímum flóðsins. Síðan er nýr hamar kominn í Vinaminni, það var gjöf frá ágætum vini sem veit manna best hvað H. vanhagar um hverju sinni. Það er meira að segja búið að negla nagla með honum.

föstudagur, desember 23, 2005

Nú fer aftur að birta

til ef mið er tekið af vetrarsólstöðum, en Hali hefur í seinni tíð þótt nokkuð mikið koma til þessara tímamóta sem og annarra svipaðra. Mörsugur byrjar á svipuðum tíma ef minnið blekkir ekki, en ljóst að það gerir það æ oftar, það hefur Halur rekið sig á undanfarið. Nefna má að hanskar Hals úr flísefni, reyndar komnir nokkuð til ára sinna og slitnir, nærri götóttir og e-r sjálfsagt væru búir að henda, eru týndir. Verra er að búðin sem þeir gætu hugsanlega verið í er ekki sú sem skemmtilegast er að fara í á þessum árstíma þegar alltof margir eru með allt á síðustu stundu. Þannig er reyndar hérlendis árið um kring í mörgu finnst Hali. Önnur búð kemur til greina. En fyrst og fremst er rétt að horfa fram á við og sjá birtuna koma smám saman. Og ganga úti.

miðvikudagur, desember 21, 2005

Það er svo margt

gott við það að ganga úti, vera úti, ekki hvað síst að vetri til þótt hann sé misjafn allur hvað veður áhrærir. Vont veður er gott til útiveru jafnt hinu góða - ef gangandi, það hressir. Skýjafar og litbrigði himins einnig veisla á þessum dimma árstíma. Best er að ganga að morgni, öll verk vinnast best að morgni. Þannig að öllum er ráðlagt að vera úti og ganga reglulega, helst alla daga. Vélfáka skal skilja eftir heima við ef mögulegt er.

mánudagur, desember 19, 2005

Rituale

hefur fengið hlutverk og stað innan veggja Vinaminnis, en nokkuð frá brauðristinni. Rituale býður öllum upp á kaffi sem það vilja og allir eru velkomnir hvenær sem er svo fremi sem Halur er vakandi eða fyrir klukkan eitthvað sem Halur vill ekki horfast í augu við. Gott að geta snarað í bolla eðaldrykk með svolítilli fyrirhöfn.

mánudagur, desember 12, 2005

"Das original"

var staðreynd í gær. Fyrst afmæli móðurhlutans, sem aðeins var 79 ára með tilheyrandi gamaldags veislu með öllu. Allir töluðu í kross og hátt eins og venja var og er í fjölskyldunni, sérstaklega f. afmælisbarnið sem átt hefur við heyrnardeyfu að stríða í áratugi og heyrir best ef aðeins einn talar í einu. Samt allt ágætt og kökur og annað við hæfi, minnti á gamla gósendaga þegar var kvöldkaffi alla daga meðí kl. 21-22:00, jafnvel gestir komu sem vissu að alltaf var veisla hjá þessari konu sem svo mikið ágætt hefur gert fyrir aðra. Hjálpsemin í blóð borin enda ekki langt að sækja hana. Síðan Freikirchen 20 uhr; Antony and the Johnsons á sviðinu sem var nærri ósýnilegt. Þetta voru ekki "sound blast" tónleikar eins og hjá Zeppelin, heldur hin gerðin af fullkominni samræmingu, trúnaður algjör við formið og innlifun fullkomin hjá þessum furðulega stóra og mikla manni með falsetturöddina, sannarlega verður þetta ekki betra. Og til að kóróna þetta allt saman fékk Halur að heyra í Sonus fabernum í Grafarvoginum, þeir geta áreiðanlega blastað vel, en klukkan orðin of margt til að vekja hverfið. Tærleikinn þó greinilegur. Það bíður betri tíma. Ekkert hljóð er boðlegt nema úr stórum boxum og gamaldags græjum held ég, það virðist vera staðreynd. Nú kallar Antony úr tónstofu Vinaminnis. Sem sagt ágætt.

fimmtudagur, desember 08, 2005

"Kamarfelagi"

er eitt hinna stórgóðu orða sem fram koma í enn betri bók sem mun hafa komið út í dag á Íslandi. Hér er átt við hina íslensk-færeysku orðabók sem gamall maður í höfuðstað norðurlands hefur unnið að árum saman. Maður sem mun hafa tengsl við Vinaminni frá fornu fari þó ekki séu þau til staðar í dag. Halur skrapp í bókabúð í kvöld og festist í bók þessari, bók sem sýnir ágætan hug til "einu vina Íslendinga", en hinir sömu eru þó fjarverandi á tónleikum synfóníunnar í kvöld. Bók þessi er sannarlega góður "herbergisfélagi" (kamarfelagi).

Á hinum sama degi er loks höggvið skarð í réttarfasismann á Íslandi, þar sem ekki aðeins siðblinda hefir verið ríkjandi í garð einstaklinga jafnt sem öryrkja (og er enn), heldur á stundum algjört réttaróöryggi. Á svona degi er smá keimur af lýðræði til staðar í landinu sem menn streymdu áður til sökum lög- og skógarhögga ytra.

Að breyta brauði

verður að teljast einfalt mál eftir að Halur komst að slíku. Málum er nefnilega svo háttað að hann hefir nærri alla sína seinni hundstíð hefur tekið með sér brauð í eða til "vinnu" og þá til næringar en ekki hressingar nema að litlu leyti. Undanfarið hefir hann verið með kreppubrauð úr einu bakaría staðarins en það minnir á brauð sem unnið hefur verið úr hveiti, þ.e. endurvinnanlegt (ekki vinalegt) hveiti eins og endurvinnanlegur pappír. Brauði þessu má breyta á marga vegu en best er þó að opna samlokuna og strá graskersfræjum á milli, loka aftur og borða. Þanng mætti strá alls kyns hlutum þarna á milli sem ekki flokkast undir venjulegt álegg en Halur hefir haft sama áleggið í ríflega 15 ár. Frelsarinn breytti ýmsu eins og Halur reynir að apa eftir.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Skagafjörður

skreytir sig með mörgu. Eyjarnar sem allir þekkja og í huga hafa, snyrtimennska, hross, landrými og lengd fjarðarins með meiru. Eitt kom Hali á óvart í síðustu ferð á Krókinn, ferð sem er eftirminnileg fyrir margar sakir, ekki hvað síst sökum þess að margir einstaklingar urðu á vegi hans sem ekki finnast svo margir enn hér á landi - einstakir, en þá segja sumir að það gildi um alla! Svo má vera. Halur mætti bifreið með númeraskilti sem á stóð "INSANE" ef sjónin hefur numið þetta rétt. Númeraskilti eða -plötur eru á vissan hátta góð breyting frá fyrra ástandi þar sem R 49 eða A 23 gengu kaupum og sölum og einhver verðmæti eða mikilmennska fylgdi af hálfu þess er átti (skrítið með dauða hluti og vinsældir þeirra á Íslandi). Verra finnst einhverjum að eigi er lengur unnt að vita hver ekur eða rekur næsta bíl þar sem númerin eru ekki landshlutatengd; á Akureyri eru flestir bílstjórar og framsætisþegar í fullri vinnu við að horfa á gangandi eða akandi fólk. Þannig má segja að allir séu meira og minna "INSANE" bak við stýrið, með réttu eða röngu númeri.

laugardagur, desember 03, 2005

Hrikaleg

mistök voru það á sínum tíma að fara ekki á tónleikana með The Clash þegar þeir rákust hingað á skerið. Það var fyrirgefanlegt sökum aldurs að missa af Zeppelin en samt stóð Halur utan við Höllina þegar þeir voru að spila og sennilega uppá sitt besta. Nú stendur til að skella sér á Antony og verður það væntanlega svolítið öðruvísi en margt annað. Það er gott að skella Klössurunum á spilarann eftir skíðadag og vinnu í baðherbergi sem þar með er fullklárað, klárað nægir og húsfreyjan í Vinaminni á allan heiðurinn af. Klassararnir hafa þennan orgínal kraft sem til þarf eða þurfti til að skilja á milli frá öllum hinum sem reyndu en tókst ekki; sama með Neil Young sem aldrei fer úr spilaranum, hann laumar sér þangað með reglulegu millibili og þrátt fyrir öll árin, sukkið og sjúkdóma er hann stæltur í tónlistinni. Aðrir koma þarna í humátt á eftir og verða eigi nefndir í dag, en gætu allt eins verið á blaðinu eða hlaðinu, það væri ekki verra.

fimmtudagur, desember 01, 2005

Tíkur

ýmsar eru á sveimi alla daga og sérstaklega á þessum árstíma og öfugsnúningatíkin þar fremst í flokki í ójöfnuði á nefndum jafnaðartímum en aldrei meiri ójöfnuður en nú er. Öfugsnúningurinn kemur hvað best fram í neyslu og matarkyns efni auk veraldlegra hluta sem allir vita. Erfitt er að finna skilin milli vanlíðunar og vellíðunar, hollustu og óhullustu, hollrar fitu og óhollrar. Áður var unnt að eta það sem að kjafti kom þar til eitthvað varð undan að láta og gekk yfirleitt vel með einhverjum undantekningum. Halur hitti vel áttræðan mann fyrir allnokkru, sem að sumu leiti færði Hali undarlegar fréttir, misóvæntar þó eftir atvikum. Nefnilega þær að einhver læknir hafi nú sagt sér að hætta að borða grjónagraut með slátri í morgunmat þar sem það hækkaði kólesterólið. Það er þetta sem endurspeglar tíðarandann.

Halur kvað:
Heilsuvörn og heilsufrík,
"hollmeti" á altarisbrík,
Hal ásækja
eins og brækja,
úr endagarnarrómantík.