sunnudagur, október 31, 2004

Mælikvarðar

eða þrýstingsnemar eru vandfundnir sem gefa rétta mynd af hinu og þessu í daglegu lífi. Samt sem áður er vart unnt að þverfóta fyrir alls kyns spurningalistum og könnunum um hitt og þetta, bæði í dagblöðum, tímaritum og vísindum, þau eru ekkert skárri. Það sem leyfilegt er í dag, breytist á morgun þegar ný "entertakka-rannsókn" birtist e-s staðar í vísindaritum; mörbráð, innanfita, smjör, flesk, feiti, mör, spik, blóðfita, björgunarhringur - allt eru þetta leiksoppar vísindanna.

Ég hef verið að þróa (í huganum) nýjan þrýstingsnema sem segir til um ágæti hjónabandsins hjá fólki. Hann getur tekið sér bólfestu í giftingarhring hvers og eins, þannig að þegar sambandið er gott, þá bólgnar hann (bannað að fá bjúg, allir eru með bjúg og hægðatregðu), en rýrnar síðan ef illa gengur. Þannig þarf fólk ekkert að vera að spá í það hvort það eigi að skilja eða druslast áfram með sömu gleraugun við eldhúsborðið, aðeins kíkja á hringinn og ef hann er horfinn, þá er bara best að pakka saman og flytja út.

fimmtudagur, október 28, 2004

Hlaupanótan

er einn af þessum útvarpsþáttum á Gufunni sem kemur oft á óvart með skemmtilegri tónlist, góðum fróðleik eða upplýsingum um tónlistina og flytjendur, yfirleitt ekkert sem heyrist daglega í glymjandanum. Það eru tvær konur sem sjá um þennan þátt til skiptis og í vikunni var sérlega góð þjóðlagatónlist með klassísku ívafi, annars er engin tónlist undanskilin.

Ég mæli með því að þið stillið á Gufuna rétt eftir kl. fjögur síðdegis á mánudögum til fimmtudags þegar þið hafið ekkert betra að gera og jafnvel þótt svo væri, þá gæti þátturinn einungis orðið smá hvalreki á hvunndegi.

þriðjudagur, október 26, 2004

Rafkort og póstkort

eru víst ekki hið sama og verða aldrei; það sannaðist enn einu sinni er ég fékk póstkort frá Arnaldi laganema á öðru ári þar sem hann var að segja mér frá ýmsu, m. a. því að hafa verið fyrir norðan og ekið framhjá Vinaminni en allt var slökkt, reyndar kl. 2 að nóttu. Hann ætti að vita betur og gerir sjálfsagt, húsið er stórt og iðulega ljóstýrur e-s staðar þótt ég sé kannski iðulegast dauður á þeim tíma, sérstaklega á föstudögum. Ég hélt reyndar að kortið væri frá föður hans, svo lík er skriftin, smágerðari kannski en svipaður blær á öllu letri í stækkunargleri. Hann sagði einn brandara sem bíður betri tíma sem var bara vel góður.

Það kom reyndar nokkuð á óvart þegar hann innritaði sig í eina af geldingsdeildum HÍ þ.e. lagadeildina (lög- og læknisfræði og sennilega margar fleiri eru geldar). Hann á samt Mecredes og áður átti hann Bimma (sem ég vissi ekki hvað var, heimskur svolítið) þannig að hann kemst a.m.k. í skólann þar sem bílar sýnast vera fleiri en nemendur og yfirleitt einn í bíl, það sá ég þegar ég neydddist að fara til borgarinnar um daginn. Hann á sannarlega þakkir skildar fyrir að muna eftir frænda sínum í Gúlagi norðursins og er alltaf velkominn í húsið er hann á leið framhjá á Bimmanum eða öðru farartæki.

mánudagur, október 25, 2004

Framfarir

hafa orðað nokkrar í verkfallinu, sem ég tala annars ekkert um, þar hefur allt verið sagt en allt virðist vera leyfilegt í garð barna og fatlaðra; öll siðalögmál, önnur lögmál og reglur eða ritúöl eru brotin á þessum hópum.

Það sem ég ætlaði að segja var það að við Andri gerðum saman pítsur í gærkvöldi, það var afar skemmtilegt en þetta hafði verið á dagskránni lengi, þar sem hann er í matreiðslu sem valfag í skólanum (ef e-r man eftir honum). Það stóð alltaf til að hann eldaði einu sinni í mánuði í vetur og er þetta vonandi byrjunin. Í gær voru plötupítsur, en ekki Calzone, þeir Ísak fengu með osti, skinku, pepperóní og oreganó auk chílipipars í bitum. Við gamalmennin fengum okkur ost, oreganó, pepperóní, skinku, "gredde" ost, þistilhjörtu, tómatar ferskir og chílipipar, en á mínum hluta voru einnig sveppir. Þetta er allt annar matur en sá sem er pantaður eða frosinn.

Allur matur, sem er heimatilbúinn er góður, eins og allt sem gert er heima og er sjálfsprottið, ekki aðkeypt; maður er manns gaman og aðkomumaður einnig. Slíkir sprotar eru alltaf aufúsugestir sem banka uppá. Mér finnst við (einnig ég) þó líkjast sumum öðrum þjóðum æ meira hvað það varðar, að fara ekki í heimsóknir til vina og vandamanna án þess að hafa verið boðin formlega áður, það er miður. Þessu þarf á að taka í tíma.

fimmtudagur, október 21, 2004

Íþróttamaður ársins

hefur lengi vel verið kosinn eftir duttlungum íþróttafréttamanna og yfirleitt valinn eftir því hvað vinsælast er eða "inni" hverju sinni hjá þeim sem telja sig best vita hvað á að vera vinsælast og best. Boltamenn hafa verið vinsælir og e-r fleiri í "viðurkenndum greinum" og í e-u samhengi sem ég hef skilið misvel. Konunöfn hafa verið fáséð á bikarnum og hvað þá nöfn fatlaðra íþróttamanna sem sennilegast hafa náð hvað glæsilegustum árangri allra íslenskra íþróttaæfara árum saman. Það er því afar mikið ánægjuefni að erlendir aðilar hafa betur séð en heimóttar-íþróttaritarar íslenskir, að við hæfi væri að verðlauna Kristínu Rós, sundkonu, fyrir framúrskarandi árangur og ef ég man rétt er hún fyrsti fatlaði afreksmaðurinn, sem þessi verðlaun fær (viðurkenningin er veitt í samstarfi sjónvarpsstöðvarinnar Eurosport og Alþjóða Ólympíunefndarinnar).

Aldrei sér maður glaðari íþróttamenn en þá sem fatlaðir eru (verð þó að viðurkenna að slíka hef aðeins séð í sjónvarpi), alveg óháð því hvar þeir lenda í röðinni, sigur þeirra er augljós samanborið við marga aðra. Viðbúið er að íslenskir ritarar gefi þessu loks gaum eftir áðurnefnda viðurkenningu og sannast að gleggt er gests augað.

Íþróttamennska sem vinsælust er hérlendis og skrif um hana, minna á það, sem kalla má "prógress afturábak".

miðvikudagur, október 20, 2004

Snjóhettan

er komin að nokkru yfir bæinn en þetta er vissulega norræn sletta og hetta sem hljómar þó ágætlega og fer eftir íslenskum reglum. Þess vegna hjólaði ég ekki í vinnuna, gekk að nýju sem var fínt og ef allir gengu eða hjóluðu hér innan bæjar þá væri unnt að spara mikið og í leiðinni bæta heilsu fjölmargra og það ókeypis.

Komst einnig að því að best er að lesa bækur um borgir eftir að hafa verið á staðnum! - minnir á eina manneskju sem byrjar alltaf á endinum í sögubókum og þá helst krimmum; núna skil ég hana betur.

Vonandi snjóar bara nógu mikið í vetur þannig að skíðafærið verði bæði gott og lengi fram eftir, það eru þó flestir búnir að gleyma snjónum hérlendis þar sem vetur hafa verið með eindæmum slakir og sumur í tæpu meðallagi að hinu síðasta undan skyldu.

Nú fer aftur að koma tími á það að fá sér taðreyktan silung úr Mývatnssveit, hann bíður í frystinum eftir vetrinum.

þriðjudagur, október 19, 2004

Sartre

varð mér loks ljós eftir að ég tók ljósmynd af konunni minni við eina (eða réttara sagt standandi á einni) af hinum frægu brúm yfir Signu í nýlokinni Parísarferð; hún var þó ekki með pípu við hönd eða í munni. Í sömu ferð ók ég í almenningsvagni nr. 63 framhjá nokkrum menningarstöðum frá síðustu öld, þar sem reykfylltir salir sköpuðu framtíðina, sá einnig hinn rétta bláa lit í safni Pompidus og nokkra klassíkera þar sem lengi hafa beðið mín frá fyrri hluta síðustu aldar. Þeir réttlæta svona ferð einir sér, annað er bónus (alltaf ódýrastir). Feginn að hafa farið slíka ferð og bíð eftir að komast þangað að nýju; sú bið verður vart löng. Vonandi hef ég þá betri tíma og sömuleiðis konan mín þannig að við verðum e-m hundraðköllum fátækari; það hlýtur að vera hræðilegt að vera kona í París (ekki klisja) og sérstaklega frá Íslandi þar sem allar kellíngar kaupa það sama í sömu búðinni og henda eftir eina notkun. Aldrei hef ég séð meira af flottheitum en þar, en sleppti þó að skoða í flesta glugga.

Sjálfum tókst mér ekki að eyða neinu í allri ferðinni og kemur víst engum á óvart, enda vantaði ekkert í sjálfu sér. Ekki var nú erfitt að komast á jörðina, hvað þá eftir að hafa borðað vel steiktar kjötbollur með brúnni sósu, kartöflum og sultu í kvöld. Þetta er einn besti matur sem ég fæ og hafa víst allir heyrt það heima hjá mér.

Það er gott að ég hafði ekkert sérstakt prógramm í ferðinni annað en að fylgja konunni milli staða. Þetta er ein þessara borga sem togar í mann; flestar þær sem ég hef komið í áður skipta mig litlu í dag og oftast verið fegnastur að komast heim aftur (sveitamaðurinn).

sunnudagur, október 10, 2004

64

reitir skákborðsins eru óbreytanlegir eins og veðrið sem er þessa stundina. Einnig er frammistaða íslenska landsliðsins í fótbolta óbreytanleg; samt eru þeir alltaf að velta því fyrir sér hvers vegna gengið batni ekki, fleiri fá borgað fyrir að leggja lítið á sig. Það var þá betra þegar sparkað var fram fyrir miðju og bara beðið í vörn milli þess sem stöku sigrar unnust sem skiptu engu máli í neinni keppni. Leikur liðsins minnir á Framsóknarflokkinn sem segist vera framfarasinnaður flokkur sem sækir aldrei fram á við eftir því sem ég hef best séð og flestir löngu komnir í "skildagatíð" eða verið á eindaga árum saman í fábreyttum og litlausum umbúðum; umbúðirnar eru þó ekki allt. Gömlu bómullarbolir landsliðsins virkuðu betur en gerviefni nútímans.

Ég ætla að gera e-ð skemmtilegt á næstunni, panta kannski plötur á netinu, hef alltaf verið veikur fyrir Brian Wilson sem loks hefur náð að senda frá sér "Smile" enda er gott að hlusta á hann milli þess sem "Real Gone" er spiluð í ruslageymslunni. Sá fyrir tilviljun gamla meistarann Bob Dylan spila "Not Dark Yet" þegar ég var að spóla 3ja mínútna myndbandi úr aðgerð síðdegis.

Nú tel ég bara niður dagana áður en móttökuathöfnin verður í París á næstunni eða eru þeir allir farnir heim til sín samlandarnir aftur sem voru að drekka franska rauðvínið með ís?! Ég verð aðallega á "vinstri bakkanum", ef einhver vildi finna mig um helgina, annar (önnur) en konan mín sem ætlar að sjá um mig á bökkunum.

þriðjudagur, október 05, 2004

Loksins, loksins,

kæru vinir gef ég að nýju frá mér meltingarefni fyrir anda ykkar. Og það eftir svefnlausa nótt á Neskaupsstað í fárviðri, í blokk sem minnir á gettósvæði, fjúkandi timbur og ruslatunnur umhverfis, hella (eða voru það hellur) fyrir eyrum og blástur gegnum íbúðina. Var að spá í að fara á sjúkrahúsið, en nennti því ekki, þar var einnig rafmagnslaust á annan tíma í nótt. Hér var alvöru fárviðri í gærkvöldi og nótt.

Dvöl minni fer senn að ljúka, en enn er möguleiki fyrir þá sem vilja ekki leita sér læknis í heimabyggð að hitta mig hér á Neskaupsstað og fá skoðun, þar sem fólk horfir nú uppá við eftir áralanga álúta höfuðstöðu, hvað þá á næstu fjörðum sunnan við. Svolítið hefur snjóað í fjöll og á sama tíma og þetta er ritað heyri ég í útvarpinu að leyfa skal skotveiðar á rjúpu á næsta ári; veit vart hvað mér finnst um það, en Íslendingar skjóta á allt sem hreyfist. Hvað á maður að gera við fleiri en 15 rjúpur í matinn fyrir venjulega fjölskyldu eða 50 laxa eða álíka; hver étur þetta magn í dag?

Þessi fréttaflutningur veður þá ekki meiri að sinni, en vænta má skárri skrifa þegar heim er komið.