föstudagur, apríl 28, 2006

Vorvinnan

er hafin í Vinaminni en þar er átt við eilífa hringrás náttúrunnar í Vinaminnisgarði, garði sem gefur talsvert af gleði og "slökun", ókeypis já. Slökun er í tísku og hvers vegna þarf alltaf að vera að tala um slökun í hinu og þessu, gott að vera í garðinum og slaka á segir fólk; það er jafn gott að vera í garðinum alveg óháð því hvort um slökun sé að ræða eður ei. Þú ert þar sem þú ert hverju sinni og þú ert það sem þú ert hverju sinni. Fremur ætti að tala um vellíðan en slökun. Síðan væri gott að fara með vorkvæði HKL í hljóði eða upphátt; kannski er það slökun eða ekki slökun, bara slökun ef borgað er fyrir hana í peningum á námskeiði þar sem fólki er kennt að gera það sem allir kunna áður en ef til vill búnir að gleyma. Vonandi ná sem flestir að vera sem mest úti við í sumar enda er það ókeypis.

mánudagur, apríl 24, 2006

Hæfileikaleysi

Hals er algjört eða fullkomið þegar komið er að því að umbera skipulag hjá þeim er Halur verður því miður á stundum að fylgja eftir ellegar taka tillit til (ummmhh). Skipulagsleysi er eitt af bölum nútímans þegar allt skal vera skipulagt í þaula; betra var það áður í sveitinni eða á sjónum, allt hafði sinn vana gang, það var í lagi þar. Enda er löngu vitað að Halur rekst illa í "hópvinnu". Því er honum spurn hvort hann sé á réttri hillu eður ei!? Skipulag á þeim stað er Halur sækir virka daga til að reyna koma e-u í verk líkist að flestu leyti skipulaginu í bæjum og borgum landsins; allt til bráðabirgða og það reddast. Sagt hefur verið að enginn eigi að éta og skíta á sama stað, en svo er umhorfs í heilsugeiranum hvað varðar skipulag. Annars er best að horfa út í sólina. Halur er uppgefinn á engu og þetta er verra en nokkurt..............."Bráðum kemur betri tíð....."

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Vísindin efla (ekki)

alla dáð eða hvað má segja um eftirfarandi texta úr dagblaði (!?): "Testósterónmagn í mönnunum var einnig tekið með í reikninginn (með því að bera saman baugfingur og vísifingur - sé sá fyrrnefndi lengri bendir það til mikils testósteróns) og í ljós kom að þeir sem höfðu mest af testósteróni stóðu sig verst í leiknum, og þykir þetta benda til að þeir sem hafa mikið testósterón séu sérstaklega næmir fyrir kynferðislegum myndum.
Dr Siegfried DeWitte, einn höfunda rannsóknarinnar, sagði: „Við teljum okkur allir vera skynsama menn, en niðurstöðurnar benda til þess að þeir sem hafa mikið af testósteróni séu einkar viðkvæmir fyrir kynferðislegum boðum.“ Það þarf engum að leiðast síðasta vetrardag með slíkar upplýsingar. Halur hefur lengi vitað að karlar geta ekki gert tvennt samtímis og því kvað Halur:

Tvennt ei karlar kunna á
og kannski eigi segja má;
að engum hafi tekist
svo hafi kerla á rekist,
samtímis huga- og reðurreisn að ná.

Nei, ekki meir!

Einn er sá

dagur sem hefir sérstakan sess í huga Hals. Hann nálgast og tengist tíma þeim er allir vilja hafa sem bestan eða ágætastan. Sennilega hafa fáir dagar meiri þýðingu hérlendis, þótt áður hafi hann verið enn þýðingarmeiri. Hugmyndir eru væntanlega alveg ljósar hjá hverjum og einum hvað sumardagurinn fyrsti þýðir eða stendur fyrir öfugt við t.d. páskana í eiginlegri merkingu eða aðra helgidaga. Væntingarnar eru miklar. Margir sumardagar hafa verið kaldir og hor í nös fylgifiskur þessa dags oftast nær í norðri. Allir hafa meira eða minna rétt fyrir sér sem spá fyrir um veður sumarsins framundan; það verður bæði og sjálfsagt þannig að spárnar eru einfaldar. Ekki ósvipað og spár (niðurstöður) hinna nýríku skoðanakannanaímyndarmótanditækifærishyggjufyrirtækja sem hérlendis sem erlendis hafa risið upp á hæsta stall og notuð eru af öllum sem þurfa að panta "rétta skoðun" í umræðunni. Síðasti vetrardagur hefir einnig mikla þýðingu enda liggur hann næstur hinum ágæta fyrsta sumardegi.

þriðjudagur, apríl 18, 2006

Einlyndi

í skoðunum er Hali eigi að skapi. Því finnst Hali ljóst að lýðræðið hafi undir lok liðið í núverandi mynd. Hvernig má það vera að skoðanir manna almennt talað, á hinum breytilegu þáttum lífsins, rúmist t. d. innan þess sem kallað er því sérkennilega nafni, stjórnmálaflokkur. Slíkir flokkar stefna að einræði, en ekki lýðræði. Illa er fyrir þeim komið (telur Halur) sem sættast á allar meinsemdir eins og sama stjórnmálaflokks í skoðunum, hverjar sem þær eru hverju sinni. Halur mun því hér og með línum þessum hætta öllum afskiptum með penna eða öðru sem að slíkum flokkum lítur og pólitík einnig; allt er betra en það. Nóg var nú samt komið. Ekki ósvipað er að halda með íþróttaliði og vera sáttur við allar gjörðir þess innan vallar sem utan (leikmenn jafnt og annað) svo lítið dæmi sé nefnt úr daglega lífinu; hins vegar má alveg "lifa með slíku".

mánudagur, apríl 17, 2006

Gamalt fólk, aldraðir

eru ekki leiðinlegir eða þreytandi, það hefur iðulega sannast hið gagnstæða. Sjaldan reynir Halur að horfa á íslenskar myndir en það gerði hann í gærkveldi enda ekki alveg sofnaður um áttaleytið (Halur er aldraður); nýbúin að vera kreppa í mat, en hann mettur þó. Hinir öldruðu vistmenn Hrafnistu voru sannarlega ekki með nein leiðindi, en ekki er þó allt sem sýnist er aldurinn færist yfir. Hins vegar benti húsfreyjan honum á þátt "Bergs" nokkurs meðal aldraðra. Hann var allt í öllu, en á sama tíma var því velt fyrir sér hver hin eiginlegu "laun" hans væru fyrir allt er hann gerði fyrir aðra. Sjálfsagt ekki til að þenja veskið ef mið er tekið af launum þeirra er sinna öldruðum þótt e-r undantekningar séu örugglega þar á. "Laun" eru afstæð, en allir þeir er hjálpa öðrum eða greiða gera og gleðja, hvað þá öldruðum, þeirra laun verða ekki reiknuð í aurum eða krónum.

sunnudagur, apríl 16, 2006

Grágæsir

á flugi voru Hali sýnilegar er hann gekk með bæklinga húsa á milli í dag; fyrsta merki vorsins hjá Hali og styttist því í fuglaskoðun vorsins og veiði ef almættið lofar (Guð); Guð er enginn skyndibiti eins og álver eða virkjun. Svipað er með álverin og skyndibitann; eftir að búið er að kyngja (bræða), þá er best að flýta sér á salörn. Halur hélt ekki að hann ætti eftir að lesa bók á íslensku (með innihaldi) er fjallaði um brennandi málefni en það hefir hann aldrei þessu vant gert, en það er auðvitað "Draumalandið" og að nefna hana er náttúrulega aðeins klisja. Kannski er hún eins og textar Becketts, allir eiga en enginn (of fáir) les(a); eða Íslendingasögurnar. Stal nokkrum setningum úr Gísla sögu um daginn, þær voru sannar og eftirminnilegar. Það stendur þó ekki til að búa til lón í Glerárdal, hann var kaldur á köflum í gær. Páskarnir eru eftirminnilegir fyrir það sem ekki varð, en svo er með marga hluti. Halur heldur þó sínu striki.

mánudagur, apríl 10, 2006

Gleði og ekkert annað

er á dagskránni í Vinaminni. Hali var bent á það að svona langt páskafrí eins og er í skólum hérlendis væri bara af hinu góða fyrir börnin; satt er það. Ekki þarf húsfreyjan í Vinaminni styttra frí en börnin (hér er ekki átt við Hal). Síðan á eftir að borða páskaeggið sem kötturinn Máni vann í happadrætti KA drengja nýverið. Skíði, snjór og e-r sól í heiði er framundan; það sýnist Hali ef gáð er utan við óbrotinn glugga. Best að hætta þessu kellíngabloggi.

sunnudagur, apríl 09, 2006

Forkastanlegar

skoðanir eru Hali ekki fjarri almennt talað. Halur hefur lengi haft "forkastanlegar" skoðanir á skólakerfinu, en ekki kennurum í sjálfu sér enda þar víða valinn maður þó ekki sé í horni hverju. Einna verst er ástandið með stúlknagerviseringu skólakerfisins, lítilsgildingu íþrótta, heyfingar, lista, myndmenntar, teikningar (skemmtilegasta fagið í skólanum eða gat verið svo) og utanbókarlærdóminn, en þetta liggur alla leið gegnum kerfið og út um endagörn háskólanna. Halur gladdist því í dag er í heimsókn kom í Vinaminni, íslensk kona, búsett vestanhafs, heimskona, gift heimsþekktum manni í jákvæðri merkingu (en ekki á Íslandi), sjálf með skoðanir og svo óvænt sem það í eyrum lætur, líkar þeim er Halur hefir á skólakerfinu. Enn ánægjulegra var nú það að Halur gróf nýlega upp gömlu symfóníuna um skólakerfið og þjóðfélagið almennt með meiru á eigin fótaspilara, sem allir eiga, gömlu góðu P. Floyd hlóðgervin sem hafa elst ótrúlega vel, en sumir þola eigi. Eftir 12 ára aldur hefir Halur meira og minna verið í andstöðu við kerfið, einnig skólakerfið og umhugsunarefni hví hann lenti eigi utan alfaraleiðar á tíma þeim eða síðar. Ekkert er auðveldar en það í skólakerfinu, bara orðið segir allt sem segja þarf, skólakerfið. Kannski höfðu pönnukökurnar með kaffinu þessi góðu áhrif á gestinn og Hal? Bara fjandi góðar pönnukökur og ekki var kaffið síðra.

Að gera hlutina

í fljótheitum getur verið tvíbennt mjög ef ekki meira. Halur þarf í raun aldrei að gera neina hluti í flýti, því hann hefir allan heimsins tíma til allra hluta. Verkkunnáttufátækt er þó ofarlega á baugi, enda tókst honum nýlega nærri samtímis að dást að grýlukertum og síðan brjóta þau ásamt glugga einum sem hann vissi eftir á færi örugglega svo ef ýtt yrði á kertin. Hann friðaði samviskuna með því að betra væri að ein ónýt rúða færi á haugana fremur en einhver manneskja, jafnvel barn, yrði fyrir grýlu í kertalíki. Auðvelt var að fá samviskufriðun þar sem páskar eru í nánd. Nú er bara að finna einhvern atvinnulausan smið á landinu sem skellt getur nýrri rúðu í gluggann.

föstudagur, apríl 07, 2006

Atvinnulausir

á Íslandi hafa löngum haft afar neikvæða ímynd í þjóðfélaginu. Verri jafnvel en geðsjúkir eða fatlaðir. Þótt þeir hafi ekki opinberlega verið kallaðir aumingjar þá lætur það nærri. Áhrif atvinnuleysis á einstaklinga og ættingja eru óteljandi. Nú á að bæta um betur með nýju frumvarpi þar sem m. a. má lesa úr skv. blöðum þetta: "Hinn atvinnulausi þurfi að vera tilbúinn að taka starfi hvar sem er á landinu, án nokkurra fyrirvara og hvort sem um fullt starf, hlutastarf eða vaktavinnu sé að ræða. Að öðrum kosti teljist viðkomandi ekki í virkri atvinnuleit. " Þetta væri nú kannski eðlilegt orðalag fyrir iðnaðarráðuneytið eða glæpafyrirtækið Landsvirkjun, ekki aðra. Ríkisvaldið er stærsta opinbera vandamál lýðveldisins; það sniðgengur lög og rétt og mannréttindi eru brotin daglega jafnt í orði sem á borði.

mánudagur, apríl 03, 2006

Stöku sinnum

fer Halur í laugar innanbæjar; laugar utan alfaraleiðar (utanbæjar) hafa ætíð heillað hann meira. Skýringarnar eru augljósar, en helstar þær að sundbúnaður er af skornum skammti, skýlan sveitó og tæknin engin. Bæta má við útliti en því verður ekki gerð nánari skil. Einnig er alltof langt bakka á milli. Halur vill breytingar og kvað:

Sjaldan Halur synda fer,
sjálfsagt vita allir hér.
En sökum þreytu
og þrálátrar bleytu
þráir hann í lauginni sker.

sunnudagur, apríl 02, 2006

Skuggi

hefur margar skírskotanir (hjá Hali). Skuggi er t. d. þekkt straumfluga meðal útvalinna og myndasöguhetja svo nokkuð sé nefnt. Síðan eru ýmis orðtök honum tengd eins og að vera í skugganum, vera í skugga af sjálfum sér, skugga annarra, skugga fjölskyldunnar, skugga ættarinnar eða ættingja. Halur fór á listsýningu í dag og taldi sig þá og þar vera að fara á sýningu ákveðins listamanns, en viti menn; þegar að var komið, þá var um allt annan mann að ræða, en sá hinn sami er þá í skugga nafna síns eða hvað? Hvor er í skugga hvers? Halur er alltaf í skugga sjálfs síns. Sýninguna mætti nefna skuggasýningu. Allt er meira eða minna í skugga síbylju og endurtekningar. Á þessum árstíma er mikið um skuggaspil.