Æri-Tobbi
er afar viðmótsgóður halur sem fátt er um vitað, en kemur upp í hugann eftir að hafa lesið pistil Æris þar sem sýndar eru myndir frá Löngufjörum, en mörk þeirra eru nokkuð á reiki í seinni tíð, stundum taldar ná alla leið að Búðum en aðrir segja að Stakkhamri. Þarna hafa hetjur riðið á þeysireið gegnum aldir og tískan hefur að nýju vakið þær upp frá dauðum fyrir hestafólk, en þetta ku vera vinsæl reiðleið. Mikið ævintýri varð við Stakkhamar um 1975 og var ég þar þátttakandi. Þetta var á þeim tímum þegar skotveiðmenn voru ekki búnir að leigja eða kaupa allar jarðir og þá sjáldan sem maður komst af bæjum til veiða, þá var oftast orðið dimmt eða óskothæft, af ýmsum ástæðum. Margar sneiðar af bakkelsi og öðru færði húsfreyjan á Stakkhamri vesælum borgarbörnum. Einn daginn var ákveðið að halda niður að Krossum ef ég man rétt en þeir eru eyðibýli á fjörunum; fyrir ókunnuga má geta þess strax að þarna gætir sjávarfalla og þarf að sæta lagi víða ef ekki á illa að fara. Farið var á Mercury Comet frá Stakkhamri í blíðu og sól, fjörurnar mældar og þá var þarna talsvert líf á sandinum, fugl og selur. Til þess að hafa vaðið fyrir neðan okkur, þá héldum við tímanlega heim á leið, en það fór ekki betur en svo að bíllinn festist á vaðinu við Stakkhamar (þar eru hamrar) og með hverri mínútu sem leið flæddi að bílnum. Þá voru góð ráð dýr, ég snaraðist að bænum og bóndi heimavið, þekkti strax til vandans enda ekki einsdæmi að hans sögn. Ók í loftköstum á traktor niður eftir að bílnum, ég tók síðan kaðal og óð útí "hafið" og náði að kafa með kaðalinn og ná festu; því næst var bíllin dreginn upp en það var ekki einfalt verk sökum leirs og slæmra skilyrða þarna. Á 15-20 mínútum hafði Atlantshafið flætt um svæðið þannig að hvergi sást móta fyrir landi, hvað þá bifreið. Þetta slapp þó allt fyrir horn og síðar færðum við bónda Aumingja fyrir hjálpina. Ekki var aftur farið að Krossum akandi.
Þetta gefur tilefni til að rifja upp vísu Æra-Tobba sem svarað hafði mönnum er hugðust halda á fjörurnar með vísu þessari:
Smátt vill ganga smíðið á
í smiðjunni þó ég glamri.
Þið skulið stefna Eldborg á
undan Þórishamri.
Á þessum stað var hins vegar ekkert vað að finna og segir sagan allir í hópnum hafi drukknað þarna. Var hann kallaður Æri-Tobbi upp frá þessu og talið að hann hafi hlotið þá refsingu að tapa skáldskapargáfunni, en um það má nú deila.