Brottrækur ger
munu sumir telja er þeir hafa fregnir af því að Halur og vinur hans halda af landi brott á morgun; Halur mun dvelja í vestrinu á aðra viku ef almættið lofar. Sjálfur verður hann líkastur hinum villta skógarmanni (homo silvester) á þessum slóðum ef að líkum lætur, en í fylgdarliði hans verða skrautmiklir sveinar og freyjur glæstar.
Á þjóðveldisöld voru refsingar með þrennum hætti: Útlegð (sekt), fjörbaugsgarður og skóggangur. Fjörbaugsgarður var þriggja ára útlegð úr landinu en skóggangur ævilöng útlegð. Gunnar Hámundarson á Hlíðarenda er einn þekktastur fjörbaugsmanna en Grettir Ásmundsson skóggangsmanna. Eigi mun Halur fylla flokk þeirra þótt sumir telji hann þar eiga ágætlega heima og jafnvel fyrr en þetta er ritað.
Óvíst er með öllu hvort hann komist nærri nútímaverkfærum sem gera honum mögulegt að senda raflínur um alheiminn þar sem hann verður staddur hverju sinni. Hann þarf á enn frekari hvíld og íhugun að halda jafnvel þótt engin verk hafi unnið lengi sem allir vita.