sunnudagur, júlí 31, 2005

Flatneskjan

í enskuæðinu tekur engan enda. Nú er svo komið að flestar norrænar ráðstefnur fara fram á ensku nema í göngum og afkimum þar sem norrænir menn stinga saman nefjum. Engin ráðstefna er "merk" nema málið verði enska, flatn-enska töluð í ýmsum útgáfum. Enn sérkennilegra er það að "flestir" sem e-u máli skipta á ráðstefnunni mæla á ensku sem er hjákátlegt þar sem enginn veðjar á aðrar móðurtungur. Halur skilur vel hina hagrænu og málrænu einföldunaráráttu er hér kemur fram, en verður ætíð jafnljóst að þetta er ekki algjört gæfuspor þegar hann heyrir norræn sönglög (Kim Larsen á ensku? eða sænskur vísnasöngur?) eða sér norrænar kvikmyndir (hver getur t. d. hugsað sér að sænskir leynilögreglumenn tali annað en sænsku!?). Jafnframt skal fram tekið að Halur er hrifinn af enskri tungu þar sem hún á við, þannig að enginn verði móðgaður.

Undirrót þessara skrifa voru þau að Halur heyrði lag með Kim Larsen í morgunsárið, sitjandi móti sólu á tröppum Vinaminnis með Mána og Birtu þefandi af sólarbirtu og angan morgunsins. Verst að Halur kemst ekki á tónleika með þeim skemmtilega manni (veit að hann er ekki allra, en sönggleðin óviðjafnanleg) í lok næsta mánaðar.

Nú fer að koma tími til að leggja hnífinn og áslátt til hliðar.

föstudagur, júlí 29, 2005

Afmælisdagar,

búrtsdagar eða búrsdagar eru góðir dagar og enn betri ef einhverjir eiga, sem náð hafa alla leið nærri því að fimmtugu, vantar einungis kannski svona 2 ár uppá. Þannig er háttað hjá bróður í Grundarhúsum í suðuramti, sem enn er ern, en skrokkurinn aðeins farinn að gefa sig á álagssvæðum eftir hlaup og göngur og jafnvel burð. Kvefpest eftir siglingu til Köben, en hana má gera fjarverandi með sterkum sopa á afmælisdegi utanhúss, jafnvel eftir kvöldmáltíð, ef ekki áður. Engin önnur resept á það. Á þessum aldri byrja menn að líta aftur yfir farinn veg, stórir sigrar koma upp í hugann, jafnt sem minni sigrar. Áhugi á gróðri og ræktun er ágæt vísbending um góðan aldur og þroska. Þeir er búa í Vinaminni óska afmælisdrengnum til hamingju með daginn, þakka gamalt og nýrra af nálinni og vonandi á hann og hans nánustu mörg góð ár í vændum, ef ekki áratugi mismarga.

miðvikudagur, júlí 27, 2005

Sumir segja

að letin sé versti óvinur framfara, en margir eru þar tilkallaðir. Halur tekur undir þessa fullyrðingu að nokkru leiti, en ekki öllu. Hann hefir stritað megnið af sumrinu, sem kannski er nú loksins að koma í næsta mánuði, en litlar framfarir hafa orðið hjá honum almennt talað. Flest gengur hægt eða ekki framávið eins og hjá Framsóknarflokknum, sem áður hefur verið lofaður af Hali. Halur krefst hins vegar lítilla framfara eða breytinga, hann er sáttur með það sem hann hefur í hendi hverju sinni. Hvað það er skiptir litlu, aðeins að hann hafi eitthvað fyrir stafni og sé ekki haldinn óróleika sökum leti þannig að einhverjir sjái. Hann má ekki slæpast. Hann má ekki sletta útlensku eins og einn viðmælandi (ótrúlegt að e-r tali við hann) sagði nýverið: "Allt í kei" eða "Allt í key"! Halur mun þó enn reyna að koma á einhverjum verkum er leiða til framfara.

þriðjudagur, júlí 26, 2005

Hali

var litið í suðurátt eða suðvestur frá Vinaminnisgarði réttara sagt og sá þá kvöldþokuna eða skýin koma inn yfir landið. Skamma stund fannst honum sem eitthvað vantaði er hann leit í áttina að Fálkafelli; þar ofanvið vantaði nefnilega fjallið Súlur er huldar voru skýjum kvöldsins, kuldaskýjum er svo algeng hafa verið í sumar. Einungis sást melurinn og holtið við Fálkafell, eins og klippt hafi verið á hluta landslagsins eins og verið er að gera fyrir austan þessa dagana. Í staðinn kemur bjartsýni fólks er búið hefur við misjafna kosti í ýmsu. Landslag er aldrei kemur að nýju nema í breyttri mynd er vissulega afstætt. Það minnir Hal á tvennt sem enn er nægilegt magn af hérlendis; nefnilega vatn og grjót. Kannski tekst okkur að eyða vatninu, vart verður svo með grjótið.

fimmtudagur, júlí 21, 2005

Kattakonan

hefir verið fjarri Vinaminni og vinum sínum þar, köttunum Mána og Birtu. Það má ljóst vera að líf þeirra verður ekki svipur hjá sjón er hana vantar, þótt aðrir heimilsdrengir reyni allt gott og sérlega sá eldri af drengjunum. Sumir hafa dýratilfinningu í sér, dýrin finna þá og laðast að þeim, liggja á þeim, láta halda á sér, klappa sér eftir eigin geðþótta; kattakonuna leita þeir ávallt uppi og finna. Hún má vart leggjast í sófa eða annars staðar, jafnvel sitja, öðruvísi en þeir koma og bítast um pláss henni hjá eða á. Hún mismunar þeim sjaldan eða aldrei, nema þeir hafi verið óþekkir. Kattakonan er væntanleg heim á morgun og þá verða ekki síst hinir háfættu kettir tveir ánægðir að nýju, þeir sakna hennar greinilega töluvert. Aðrir heimilismenn halda sínu striki og reyna að bera höfuðið hátt.

miðvikudagur, júlí 20, 2005

Ótrygg

vísindi eru víða; sama hvort átt er við veðurvísindi eða læknisfræði. Hvoru tveggja er afar óáreiðanlegt í sjálfu sér, öfugt við það sem margir halda. Þrátt fyrir allar tölvur og annað, m.a. gervihnetti, sem segja eiga til um veðrið, þá hefur það (hér er reyndar átt við veðurspá!) meira og minna farið fyrir ofan garð og neðan norðan heiða. Ótrúlega einfaldir hlutir geta farið úrskeiðis í læknavísindum en góðu heilli vita fæstir af þessu með tölfræðina, enda óbærilegt að lifa eftir henni. Nú er Halur heldur heim á leið er aftur komin glenna eftir skúr, dumbungur í morgun, sól 3 klst. síðar, hlýtt yfir hádaginn, aftur skýjað og kalsi, sennilega batnandi eftir skúrinn. Þetta fer að minna á kellíngablogg. Killinn sagði e-n tíma að hann væri "vondur í bíó" Halur fer að halda (veit) að hann sé "vondur í bloggi".

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Rammleg

verk eru traust eða vel unnin. Svo vakti fyrir Hali er hann hefir undanfarið hugsað til þess hvernig best yrði að ramma inn nokkrar svart-hvítar ljósmyndir. Þá var honum aftur hugsað til þessara íslensku orða er byrja á ramm- eitthvað, eins og t.d. rammskakkur, -sterkur, -skyggn, -saltur, -villtur, já, rammvilltur á vel við Hal, - en vonandi verða myndirnar ekki rammskakkar eða ramminn sjálfur er þær loks komast í ramma. Hér á Akureyri er erfitt að fá ramma sem ramma vel við myndirnar nema eins og ætíð að láta smíða þá af þeim er slíka hluti kunna og eiga efnið, það tekur því ekki fyrir Hal að smíða nokkra ramma; þeir yrðu væntanlega rammskakkir. Grannir, svartir trérammar með kartoni umhverfis myndirnar er það sem þarf. Annars er furða hversu mikið haustveður hefir verið í sumar og hvað þá undanfarna daga; ekki skrítið þótt menn hafi talað, hugsað og dreymt veðrið hér á árum áður. Íslendingar, held ég, hafa gjörsamlega margir gleymt uppruna sínum og staðsetningu á hvolfinu; hér á að vera leiðinlegt veður, allt annað er veðurauki.

sunnudagur, júlí 17, 2005

Af klemmu og hitamæli

má ýmislegt ráða; um daginn var verið að minnast á hitamæli við veiðar í nokkrum mæli. Halur kynntist undarlegheitum í kjölfarið er hann, enn einu sinni af algjöru metnaðar- og getuleysi var að reyna að stunda líkamsþjálfun eða leikfimi eins og sumir sunnanmenn kalla þá grein, allt annað en hlaup. Halur sat á hjóli og varð sveittur, steig niður og fann fyrir nálardofa í þjóhnappi hinum vinstri og viti menn; þar sem hann fór með hönd sína meðfram gömlum íþróttabuxum, reyndar nýþvegnum af freyju sinni þótt enginn væri þurrkurinn, fann hann fyrir ílöngum hlut sem var með skarpar brúnir, á stærð við maskara kvenna eða lítinn gervilim. Hann hugsaði einnig til þess hvort um væri að ræða harðan lort sem gleymst hefði eða náð herslu á skömmum tíma, þrátt fyrir þvottinn. Eftir svolitla stund og mikinn og versnandi nálardofa, gekk hann afsíðis, tók niðrum sig og viti menn; einhver hafði komið klemmu fyrir nærri endagörn og var hún ástæða dofans, hrein ennþá en svo hefði ekki lengi verið. Betra var, að ekki var um hitamæli með kvikasilfri að ræða, þá hefði Halur orðið fyrir vægri kvikasilfurseitrun og jafnvel skurði nærri daus, kannski lagt aðeins af, enda var kvikasilfur notað til megrunar hér á árum áður í lyfjaformi; fátt er það sem ekki hefur verið reynt eða notað í þeim efnum.

Í lokin þetta: "Á Akureyri er alltaf gott veður", fullyrðing rétt eða röng? Engin þörf að vera að mæla sig.

miðvikudagur, júlí 13, 2005

Engin ördeyða

var í veiðinni í Mývatnssveit síðustu daga, enda vel hvasst og hvassviðri gefur oft fyrirheit um góða veiði þótt misjafnt verði nú á stundum flugu að feykja; Halur vill hins vegar ekki í nokkru mæli sér hreykja, það gera eigi smæðarmenni í líkingu við Hal. Halur fór sem sagt í veiðiferð, eina af nokkuð mörgum gegnum tíðina á svæði þetta þar sem hólmar eru taldir í hundruðum. Áin mun kaldari en í fyrra á sama tíma, minna vatn í henni sem kemur sér aldeilis vel fyrir jafn lágvaxinn hal og Halur er, hálfgerður dvergur. Þessa dagana er kvótinn fjórir fiskar á dag; mörgum finnst það alltof lítið, öðrum við hæfi og enn aðrir segjast vilja sleppa öllum fiski eða drepa allt! Ljóst að áin þolir vel að gefa nokkra fiska á dag og aðal rökin kannski Hals megin að þetta er herramannsmatur sem hvergi er fáanlegur lengur (margir mega ekki slíkt heyra og Halur veit að ísbirnir fást ekki í "Klónus") og meðan áin þolir þetta og jafnvel batnar að nokkru þegar mestu er sleppt, þá er Halur fylgjandi því að drepa einhverja fiska sér til matar. Hann veit þó af tilboðum verslana og nægt er framboðið af alls kyns tilbúningi; hreinræktaður villtur fiskur er þó hvergi neitt líkur hinum tilgerða.

Halur kvað við árbakka:

Óljúfur verð, ef urriða meiði,
einstaka þó til matar deyði.
En í hugann greipi,
hjartnæmt skeyti:
"Hámarksgleði yfir lágmarksveiði."

föstudagur, júlí 08, 2005

Ördeyða

álagsins er merkilegt fyrirbæri, en sjálfsagt þekkja allir landar vorir það í eiginlegri merkingu, ástæður þó misjafnar eins og með allt í lífinu. Ýmis konar merki verða á vegi manns sem hjólar um bæinn; í fyrradag hjólaði Halur eftir karli miðaldra, ef hann sá rétt, og bílskiltið var skemmtilegt. Á því stóð: G og þar fyrir neðan ÖRN. Þetta minnti Hal á tvennt. Í fyrsta lagi görnina í okkur, meltingarveginn, þ.e. görn skepnunnar er gengur upprétt á jörðu hér. Kannski verið karli fjarlægt er hann kom þessu á skiltið. Í öðru lagi minnti þetta Hal á veiðistað í Laxá í Mývatnssveit er heitir Görn eða Görnin, reyndar tveir staðir með slíku nafni. Þar setti Halur í einn afar sterkan og góðan urriða f. nokkrum árum þ. 17da júní en sá dagur verður honum eftirminnilegur alla tíð, bæði sökum veiðinnar og hins að aldrei hefir hann orðið fyrir þvílíku mýbiti á einum degi. Að lokinni veiðiferð gat hann eigi kreppt hnefa. Sundurlaust kannski, en þannig verður það að vera.

sunnudagur, júlí 03, 2005

Framkvæmdir

Hals eru af ýmsum toga, en flestar gerðar meir af striti en viti. Marg sinnis hefir hann ráðist á "hólinn" í Vinaminnisgarði, er í upphafi var þakinn ýmsum illgresistegundum og í sjálfu sér allt í góðu ef hljómgrunnur hefði verið fyrir slíkum garði. Grjót var einnig talsvert þar, asparrætur nágrannans sem enn eru til trafala þegar jörð er ræktuð eða tilraunir gerðar þar að lútandi. Enn ein árásin var gerð í gærdag og sú með góðri en ekki ókeypis hjálp eldri sonarins í Vinaminni; tímakaupið samkomulag milli hans og frúarinnar er allar fjárreiður hefur, inn og út. Sonurinn græddi reyndar a.m.k. 30 mínútur meðan Halur var að fylgjast með för frúarinnar á hinn ókleifa hamar Eyjafjarðar, sjálfar Súlur, vel yfir þúsund metra sigur. Stóð í stofu með sjónauka og frúin tilkynnti sig og eftirtektarvert var að engrar mæði varð vart hjá henni. Með í för voru drengir tveir, annar kominn alla leið frá Noregi til að sigrar hamar þennan. Ísak Freyr þaut með þeim á tindinn í fyrsta sinn en vonandi ekki síðasta. Tækni og þrautseigja frúarinnar var ómæld á leið þessari og vænt þætti Hali að hafa örlítið af hvoru tveggja.

Aftur að hólnum: hann er enn eina ferðina tilbúinn til frekari útfærslna garðyrkjulega séð og nú verður það sprengigrjót með gróðri! Sem sagt: aftur meira strit en vit eða hvað?