fimmtudagur, desember 30, 2004

Hér þýðir

ekki að vera í neinum dulbúningi eins og ágætur frændi reyndi að hylja sig á bak við (sjá comment-kaflann í "Maður ársins") nýlega, hann er beðinn um að taka áskoruninni og herða skáldajarlinn. Halur Húfubólguson bögubósi, kom hins vegar að máli við Lapsus Linguae og vildi koma á framfæri einni bögu (sem vart náðist úr leirforminu):

Vatnabúinn vaskur kallar,
veiðimanninn á.
Vill´ann þegar vetri hallar,
vatnabúa ná.






þriðjudagur, desember 28, 2004

Maður ársins

er á næsta leiti. Þetta er einn þessara standarda sem bylur á manni ef útvarpið er opnað eða réttara sagt hinar stöðvarnar (Rás eitt eina stöðin). Hvernig stendur á þessu? Nær væri að spyrja: Hver er ekki maður ársins? Allir hljóta á sinn hátt að vera menn ársins. Ég hygg og vona að allir geti nefnt e-n mann ársins sér nærri. Hver er ekki maður ársins?

Jón á Móti

er sjötugur í dag. Jón hefur búið á næsta bæ við Vinaminni allt frá því húsið var reist á sjöunda áratugnum og verið nágranni minn síðan ég flutttist til Akureyrar í síðara skiptið fyrir 10 árum. Á þeim tímum byggðu menn húsin sín sjálfir í aukavinnu með annarra aðstoð. Hann er náttúrulega faðir Rósu sem er vinkona freyju minnar, en þær hafa verið vinkonur frá forskólaaldri og eru enn; það mátti heyra er ég sat í kjallaranum í gærkvöldi og hlátrasköllin heyrðust niður og vægur púrtvínsilmur var í lofti. Jón hefur aldrei slegið slöku við í hjálpsemi við mig fremur en aðra sjálfsagt enda af þeirri kynslóð manna sem mega ekki vamm sitt vita. Hann er sístarfandi, iðinn og laghentur, þó rólegur að eðlisfari, en gigtin farin að segja til sín. Ekki sá hlutur til sem hann lánar manni ef því er að skipta. Það er merkilegt til þess að vita að maður ræðir fremur við hann en marga aðra miklu yngri hér á slóðum þegar svo ber við að menn mætast á förnum vegi.

Vonandi á Jón á Móti mörg góð og gild ár framundan og er honum óskað heilla á þessum ágæta og bjarta degi, þegar sjá má birtuna læðast á suðurhimninum.

laugardagur, desember 25, 2004

Rapp-port eða

skýrslugjöf úr norðurhjáleigu er við hæfi að gefa þegar hálfgerðu óveðri er að ljúka norðan heiða, of lítill snjór þó bæst við þar sem þurfa þykir vegna vinda úr norðri. Óveður er nokkuð sem er eða hefur verið fátítt árum saman hér í bæ, minnist þó hins slæma vetrar 1995 þegar vart rofaði til frá því í janúar fram til aprílloka. Ýmislegt hefur þó safnast í hlíðar undanfarið og drengir tveir þegar búnir að prófa brettin í dag sem virka betur en flest annað til orkugjafar á allan hátt. Sjálfur fór ég út á hlað Vinaminnis í morgun og mokaði talsverðum snjósköflum í burtu.

Síðan hefi ég spilað með bros á vör og glaum í eyra "SMILE" Brians gamla Wilsons sem kom mér ánægjulega á óvart hvað gæði varðar, nærri fertugt verk loks á disk komið. Elskuleg eiginkona færði mér hljóðgjöf þessa og kom á óvart sem betur fer. Enn betra varð það þegar ég lagðist til hvílu (nærri laupnum) vel fyrir miðnætti í gær og var að hugsa um bækur sem gaman væri að glugga í (aðrar en í jólapakka voru). Var þá hugsað til Andræðis Sigfúsar Bjartmarssonar (frá Sandi og nágrenni) og viti menn; þegar nýþvegnum sængurfötum var lyft frá rekkjugrunni austan megin í Vinaminnissvefndyngju kom þar í ljós bókarkver sem lagt hafði verið af freyju minni í rekkjuna og var það sjálfur Sigfús með sín Andræði. Það verður enginn verri af því að blaða í gegnum þá bók.

Hér í fámenninu var hins vegar eintóm gleði í gær og heldur hún áfram í dag. Í gær kom ein miðdagsgjöf með kaffinu frá nágranna og vini afar mikið á óvart; nánar um hana síðar.

Gleðileg jól hinir fáu er þetta lesa stöku sinnum.




fimmtudagur, desember 23, 2004

Þegar dönsk

orð verða íslensk, þá er nokkuð gaman. Sum orð úr dönsku hljóma þannig, að þau virðast vera íslensk að uppruna þótt um það megi sjálfsagt deila, enda eigi með Ásgeir Blöndal mér við hlið og hans orðsifjar allar. Rakst fyrir skömmu á einn mann í símanetskránni, sem hafði það virðulega starfsheiti "altmuligmaður". Hann mun vera sá eini með slíkt heiti hérlendis. Auðvitað skilja allir slík orð og sjálfum finnst mér að svona heiti auðgi málið og tilveruna. Kannski er ég undir gömlum áhrifum þegar danska var töluð meðal "fína fólksins" hér á Akureyri fyrri hluta síðustu aldar, það hef ég lesið og má þar nefna virðuleg sunnudagskaffiboð í þessu samhengi.

þriðjudagur, desember 21, 2004

Marantz er dauður!

Loksins er Marantz 1070 magnarinn dauður, honum hefur verið komið fyrir á endanlegum stað, var reyndar ekki "alveg" dauður. Þennan magnara keypti ég fyrir sumarhýruhlutann (enn og aftur) sumarið 1974 ef ég man rétt, en þá voru þetta áreiðanlega lang-bestu kaupin á mögnurum í höfuðborginni. Hann stóðst prófin í partíum, hávaða, gleði og glaumi, íhugun, klassík, djassi, rokki, Neil Young og allir hinir fóru í gegnum hann; hann var portvörður tónlistarinnar árum og áratugum saman. Síðustu 10-15 árin var hann í notkun hjá Hirti bróður, sem greiddi honum götu tónlistar þar til hann endurnýjaði alveg í geiranum og er enn að endurnýja með gömlum tæknibúnaði.

Þessi hlutur var ekta amerískur og framleiddur í Ameríku norðursins, bilaði aldrei og ekkert vesen eins og með margt sem keypt er í dag bæði þaðan og héðan; það virðist vera framleitt til að bila eða endast í e-r misseri eða nokkur ár í besta falli. Slæmt fyrir mig sem vil eiga hlutina lengi og ekki skipta út fyrr en ónýtir eru.

Í tilefni dagsins spilaði ég nokkur lög með Bowie, en hann var nokkuð góður í gamla Marantzi mínum. Ég þarf að draga fram e-ð gamalt með honum.

laugardagur, desember 18, 2004

30 ár

eru nokkuð langur tími þegar mannsævin er ríflega hálfnuð ef ekki meira. Í dag var ég kallaður til að flytja gamalt skrifborð út úr húsi hér í götunni, hafði borðið fylgt eiganda frá unglingsárum og síðast verið í barnaherbergi. Varð mér þá hugsað til skrifborðsins sem ég sjálfur keypti fyrir sumarvinnuhýruna 1974 eða um það leiti er ég var að byrja í menntaskóla. Þetta skrifborð hef ég síðan ætíð flutt með mér, hvert sem ég hefi nú farið, land og strönd, innan lands og utan, margsinnis skrúfað saman og sundur; alltaf stendur það fyrir sínu og skúffurnar fullar af mis-ónauðsynlegum hlutum og blöðum. Oft komið til tals að setja það í geymlsu, en alltaf kemst það upp þar eð það hefur staðist tímans tönn. Á borði þessu er æði margt sem ég hefi unnið og skapað (allir eiga að hlægja núna) og gaman væri að vita hversu margar blaðsíður hafa verið lesnar við borðið og í seinni tíð ýmis bréf og prentað efni.

Þrjátíu ára gamalt borð er skemmtilegt að eiga, að hætta notkun þess er svipað og taka eitthvað úr sjálfum sér og kasta því á haugana fyrir lífstíð.

Núna eru góð 30 ár síðan Closing time kom út með Tom gamla Waits, fyrsta skífa hans eins og fyrsta og eina skrifborðið mitt.



föstudagur, desember 17, 2004

Gælunöfn

eru hluti tilverunnar í heimi hér. Önnur regla og skemmtileg er sú að kenna karla og konur við maka sinn, hvort sem það er Árni Sínu eða Árni hennar Sínu og öfugt. Þetta er víst algengast var mér sagt í sjávarplássum, en þó eru nú flest hver að líða undir lok. Sumir fá gælunöfn við hæfi en aðrir öfugsnúin nöfn. Ég minnst eins sem var með mér í barnaskóla og var ætíð nefndur Eiki feiti. Stundum birtast myndir af honum í blöðum og auglýsingum og þá er hann enn Eiki feiti, dæmigerður holdgervingur feitmetisins (ekkert slæmt um það að segja), en sjálfur hefur hann m.a. rekið saltbar. Öll familían var feitlagin og er víst enn; hvernig getur maður nú flúið erfðirnar? Eiki feiti var (og sjálfsagt ennþá) mjög glaðvær náungi og alltaf nóg að éta heima hjá honum man ég eftir þegar hann var heimsóttur. Hann brosir sama góðlátlega brosinu í auglýsingum dagsins. Á sínum tíma hefði verið óþarfi að uppnefna hann með þessu gælunafni (bar það með sér í bekkinn, aðfluttur í hverfinu!), þar sem yfirleitt voru ekki nema 2-3 af hverjum 30 strákum feitir í þá daga.

Aðrir sálmar. Gerði kjarakaup í gær sem "aldrei" er unnt að gera á Akureyri. Sparaði 10 þúsund krónur á einu símtali suður. Keypti síðan jólatré á útsölu í verslun sem er rekin af sunnanmönnum. Útsölur á Akureyri minna enn á Sölu varnarliðseigna, enda löngu hættur að reyna við útsölur almennt talað í bæ þessum þar sem Metrópólis er að rísa. Ég veit ekki hvaðan allt þetta fólk kemur sem ætlar að kaupa þessar íbúðir þar sem nærri lætur að engir englar flytja í bæinn svo að segja til frambúðar.

Legg til að Akureyri - öll lífsins gæði - ætluð útvöldum, verði nefnd Metrópólis norðursins. Hér blasa þegar við fjölmörg háhýsi, hvert öðru sviplausara. Heyr himna smiður eða smiðir; varla á færi eins manns. Halelúja! Álfadrottning er að beisla (beizla) gandinn.

föstudagur, desember 10, 2004

Skemmtileg orðtök

eru á hverju strái. Allir kannast við það að eitthvað skuli vera runnið undan rifjum einhvers og þarfnast ekki nánari skýringar. Í starfi mínu geta orðtök breytt um merkingu og stundum spyr maður sig um uppruna þeirra. Einu sinni lagðist maður inn á sjúkrahús sökum þess að hann hafði fallið á síðuna og hlaut rifbrot nokkur með tilheyrandi. Tekin var röntgenmynd sem m.a. sýndi brotin og einnig var tilkominn vökvi í brjóstholinu. Þá var sagt að "vökvinn væri runnin undan rifjum mannsins" í eiginlegri merkingu þar sem brotin gefa blæðingu sem lekur í brjóstholið þegar verst er. Þetta er því greinilega hin upprunalega skýring þessa orðtaks, þ. e. að blóðvökvinn rennur undan rifjum eftir áverka eða álíka. Á sama hátt gæti óréttlætið í heiminum verið runnið undan rifjum þeirra, sem eru rifbrotnir eða voru það hinir er misstu rif? Til er sjúkdómur sem kallast "12ta rifs heilkennið" og er hann þokukenndur í bókmenntunum eins og svo margt annað.



miðvikudagur, desember 08, 2004

Lennon og Jim Morrison

eiga báðir þennan dag á sinn hátt, annar skotinn til bana og hinn fæddur á þessum degi fyrir e-m áratugum, en lést ungur eins og margir aðrir. Það er vel til fundið að rifja upp gömul lög með þessum kempum. Gömlu Doors plöturnar voru og eru enn góðar og sumar frábærar. Heyrði fyrst í þeim hjá Magga Vald. held ég barasta á Háaleitisbrautinni, á tíma þeim er hann var ekki hættur að drekka og stundum var mikið drukkið með Doors, bæði einmenningur og tvímenningur, þrímenningur og meira. Ég keypti fyrir nokkrum árum flestallar upptökur sem Lennon gerði, demó og meira til; góðir diskar þegar þeir eiga við. Það vottar þó fyrir ofurfjölmiðlaháttum með Morrison á stundum.

Svona í lokin má nefna eina sögu (margar útgáfur) sem ég heyrði í gær og kannski fleiri hafa heyrt. Maður nokkur var að spá í það hvort hann ætti ekki e-ð inni hjá skattinum í árslok. Enga peninga átti hann, en reyndar átti hann að fá greiddan til baka ónotaðan samafaraskatt. Þannig hugsa konur. Er einhver úti sem á rétt á endurgreiðslu?

mánudagur, desember 06, 2004

Könnun

á könnun ofan; samfara-, kynlífs-, samtals-, síma-, hlustenda-, kennara-, samninga-, nemenda-, námsefnis-, neðanmáls-, matar-, fiskneyslu-, hamborgara-, grænmetis-, heilsufars-, offitu-, svefn- og hægðakönnun.

Allt er kannað, ekkert nema "enter"-takkinn í gildi; hef rætt þetta oft, einnig hér. Fiskur í dag, kjöt á morgun, olía í dag, en smjör á morgun.

Nýjasta steypan er könnun á "námshæfni" barna- og unglinga á Íslandi og nágrannalöndum, einnig Evrópu. Kannski eru þeir verstu og bestu, hinir bestu og verstu; hvað veit ég, þar sem allt er miðað við staðla og normalkúrvur. Varla að nokkur geti neglt nagla í vegg í sumum fögum í háskóla, sérstaklega eftir að "úrvals-aðferðir" og "kannanir auk einkunna" réðu valinu.

Ég hringdi áðan suður til Reykjavíkur í apótek eitt; þar fékk ég þær fréttir, að bólgu- og verkjastillandi endaþarmsstílar og krem væri það vinsælasta þessa dagana sunnan heiða, séstaklega eftir helgi jólaborða og ítroðslu. Segi bara; gætið að hægðunum og gyllin(i)æðinni, en hún getur orðið nokkuð æðisleg.

Best að kanna þessi mál hér; ég ætla að kanna hvort ég þurfi að hægja mér.
Á einhver forrit til að gera slíkar kannanir? Það yrði nú hægðaleikur.

laugardagur, desember 04, 2004

Heppnasti maður í heimi?

Enn einu sinni kom minn betri helmingur mér til hærri hæða og það ekki dónalegra. Mér var boðið ásamt nokkrum öðrum, að slást í för með Kvennaklúbbi Akureyrar fram í Öxnadal þar sem heitir að Hálsi og Halastjarnan hefur lent, rétt hjá Hrauni og þar sem háir hólar (Hólar) hálfan dalinn fylla. Halastjarnan er staður sem þú þyrftir að kynnast, staður sem enginn fer samur út af, ef hann er og verður e-ð í líkingu við það sem hann var í gærkvöldi, fagurt veður, rétt yfir frostmarki, smá snjóföl og Hraundrangi kallaði á mann í myrkrinu milli þess sem maður létti af tönkunum. Þarna varð maður fyrir þeirri óvenjulegu lífsreynslu að fá e-ð sem ekki gleymist í bráð; afburða matreiðsla Rúnars Marvinssonar, samsetning sem ekkert fær slegið svo glatt, óvenjulegur borðbúnaður og tilheyrandi, kokkurinn sveittur í eldhúsinu og unnt að taka rabb saman þótt stutt væri, unaðslegar freyjur og sérstaklega eiginkonan mér nærri sem kom mér þangað, borðfélagar og dömur sem höfðu það að markmiði að skemmta sér með gleði en ekki snobbi og leiða, þjónustan vinaleg og ekki þvinguð. Matargerðarlistin er ekki bara skraut, örbylgjuofn, hálftilbúnir og upphitaðir réttir þegar kúnninn kemur, stjörnur og fjöldaframleiðsla eins og á stórum stöðum; á Halastjörnunni er matargerðarlistin komin að hástigi bragðsins; það eitt skiptir máli. Aldrei aftur jólahlaðborð, aldrei aftur jólahlaðborð.

Matseðilinn þarf ég ekkert að nefna í þessu samhengi, hann fer ekkert, en kannski nánar síðar um hann.

Heppnasti maður í heimi? Svari hver fyrir sig. Það kæmi til geina að stelast aftur á Halastjörnuna við tækifæri, en góðir hlutir þola alltaf nokkra bið, þeir batna bara við hana. Ég tel öruggt að maður líti þar inn að nýju þegar tími er til kominn. Halastjarnan er áreiðanlega lent í Öxnadal.

miðvikudagur, desember 01, 2004

Ævisögur

eru í tíðarandanum, hafa verið og verða sennilega lengi enn. Nú eru þær enn einu sinni inni og skiptir þá ekki máli hvort sá sem skrifað er um sé lífs eða liðinn. Ég las ævisögu um Vilhjálm heimskautafara í fyrra, hún var á margan hátt athyglisverð, enda maðurinn afar umdeildur í lifanda lífi, svartur og hvítur. Skemmtilegt að lesa um ævi hans og lifnað í stórborgum vestan hafs. Það væri gaman að sjá eða heyra álit hans á þessari sögu sem mun vera af "betri" gerðinni, fræðilega séð. Sagan um Karluk-slysið er enn umdeildari.

Mér finnst að forlögin íslensku ættu að gefa út tvenns konar útgáfur af ævisögum liðinna manna, önnur þá skrifuð að manninum látnum af "höfundi" og hin skrifuð með athugasemdum að handan; það ætti að vera auðvelt að tengjast framliðnum hérlendis þar sem annar hver Íslendingur er skyggn eða í góðu sambandi án GSM síma.

Höldum áfram að lesa um ævintýri Blíðfinns fyrir Ísak Frey, sennilega með betri bókum sem ég hef lengi lesið, ekki bara fyrir börn. Margar góðar einnig frá Bjarti, sem ég hef stutt frá upphafi og ráðlegg flestum að vera í Neon-klúbbnum. Engum öðrum klúbbi tilheyri ég nú reyndar, enda verið nokkuð lítið fyrir slíka.

Bendi lesendum mínum að kíkja á blogg frúarinnar í dag.