sunnudagur, september 26, 2004

Kötturinn

reyndi að komast til BNA um daginn en var meinaður aðgangur að hinu fyrirheitna landi. Ekkert kemur reyndar á óvart lengur og undarlegt þetta land þar sem "allt" fyrirfinnst, á hvorn veginn sem er. Í tilefni þessa er rétt að kasta fram vísu sem líkist því sem braghent kallast:

Stígvélaköttinn kaninn eigi kann,
að meta múslima þann,
mein Íslams að honum fann.

Og meira:

Fátt skal staggla um Stevens styggt,
því nærri hefur nefnilega tryggt
nafni eilífð þar land er byggt.

Samt er margt sem kemur á óvart sem fyrir augu ber í blöðum. Nýlega voru sænskir listaverkasalar að halda á verki eftir Rembrandt upp stiga nokkurn í Stokkhólmi ef ég man rétt, verkið metið á miljarða eða álíka. Þeir voru með hvíta hanska í bröttum stiganum, en verkið var óvarið, enginn kassi eða neitt annað utan um verkið. Maður veltir þá fyrir sér hvort verkið sé ekki barasta falsað eins og hin mörgu verk sem svo voru álitin hérlendis í e-u hlægilegasta réttardrama síðustu ára.

Það er hins vegar öruggt að kötturinn sem breytti um kirkju er ekta, hvað þá hin sígildu lög hans.



fimmtudagur, september 23, 2004

Vinir

eru af mörgum gerðum. Í dag náði konan í reyktan fisk á flutningamiðstöðina, sem Yngvi á Skútustöðum II (þar eru íslenskar hænur í hlaði) hafði komið með úr sveitinni, en þennan fisk hafði ég sent austur fyrir rúmri viku. Yngvi hefur áður komið með fisk beint í Vinaminni ef hann hefur átt leið hjá; talið það sjálfsagt mál að því er virðist, en ég hef árum saman látið hann taðreykja silung fyrir mig að fornum hætti. Sennilega hefur hann komið við í Vinaminni en ég eða við ekki heima. Það er þægileg tilfinning að eiga skipti við slíka menn, halda sig við það að veiða í Laxá og síðan reykja í sveitinni. Ég hafði látið reykja nokkuð mikið í haust, þar sem ég hafði ákveðið að gefa fisk til einhverra fisklausra, enda sælla að gefa en þiggja.

Mér var tjáð við matarborðið að ég ætti að eignast fleiri vini en borðhnífinn og skurðhnífinn. Það er þó nauðsyn að eiga góðan hníf t.a. skera og flaka fisk heima við og gildir hið sama um skurðhnífinn, hann þarf að vera flugbeittur ef gagnast skal til góðra verka.

miðvikudagur, september 22, 2004

Munaðarharðlífi

er nokkuð sem sumir halda að ég sé haldinn, en þeir hinir sömu þekkja mig eigi. Þótt ég hafi verið með sama nestið í vinnunni á annan áratug (svo dæmi sé tekið), drukkið vatn eða svolítið kaffi með og borðað banana í eftirrétt, þá er ég ekki að missa af neinu. Ekki fæ ég harðlífi af mötuneytis- eða sjálfssalafæðu. Þetta nesti kennir manni ýmislegt um lífið og tilveruna og sérsataklega hitt að engin þörf er að breyta því sem vel virkar. Margir matmálstímar hefðu farið fyrir lítið ef ég hefði ekki haft slíkan nestispoka með mér, en plastpokinn er ókeypis; hann fæ ég þegar ég fer í búðir eða konan mín, það er þessi grái þunni sem auðvelt er að eyðileggja ef ekki er vel með farið. Stundum tek ég einn eða tvo aukapoka í Bónus. Oft get ég notað þannig poka dögum saman, nema óhapp skeði með hnútinn, sem er sjaldgæft. Það er engin þörf á því að vera með það sama og aðrir, en í dag er afar algengt að lesa eða heyra um hluti sem "allir" verða að eignast eða framkvæma, þótt flestir geti sennilega vel án þeirra verið. Það sannast einnig iðulega í veiðinni hjá mér, að ég þarf ekki að vera með það sama og aðrir, engin þörf á að apa eftir öðrum nema ef vera skyldi ánægjunnar vegna að breyta til þegar það á við; það er gaman. Ég lifi samt sem áður engu harðlífi í sjálfu sér og munaður er víða mér nærri í Vinaminni, þótt hann sé ekki nauðsynlega eftir því sem tíðarandinn segir til um, en sá andi minnir mig fremur á andremmu en hitt. Ég held að margir gætu haft gagn af góðum venjum, þótt þær falli ekki inní mynstur dagsins í dag, en ég minnist þó að illt er vondum vana að kasta.

föstudagur, september 17, 2004

Fjóspúkinn

er aftur kominn á stjá og þakkir miklar eru færðar hinum nafnlausa frænda fyrir gersemar í bragformi.

Frænda eru þakkir færðar
fyrir braginn,
en vænti fjóspúkinn værðar,
Vali frá um daginn?

Fjóspúkinn fnykinn eigi kann
að þakka,
þegar refur í læknislíki - hann
langar á að bakka.

Fnykurinn fjóspúka olli leiða
þegar fann.
Ei hann vissi - á var að skeiða,
Valur hann.

Að fanga góðan fnyk,
fáum er gefið,
en fjóspúkinn fær prik
fyrir þefið.

Þótt frægur sértu púki fjóss,
frægara er þitt nef.
Kætist og kviknar ljós
í kúkaþef.



fimmtudagur, september 16, 2004

Skagafjörðurinn

er langur mjög . Ók hluta hans í blíðviðri - eins og ætíð - milli kl. sjö og átta í gærmorgun, mun minna af gæs en venjulegast á þessum árstíma á túnum Skagfirðinga sem voru ekki mjög svo illa farin eftir þurrka sumarsins eins og víða annars staðar, allir (en fáir) fóru fram úr Subaru leigubifreið minni sem er ótrúlega illa hljóðvarin frá vegi, á 90 km hraða, sem ég ek nærri alltaf á, heyrist vart í Rás eitt. Eftir að hafa talað við sextíu skjólstæðinga á þremur dögum í þessari viku, finnst mér gott að vera í hljóðinu innan um kettina.

Sat á kaffihúsi í hádeginu þar sem þrír Skagfirðingar sátu sinn á hverju borði og drukku kaffi og meðí, ég var fjórði maðurinn. Það var reyndar ekki fyrr en sá þriðji kom inn að þeir tóku tal saman milli borðanna, þeir settust ekki hver hjá öðrum. Töluðu um gamlan bónda sem ég þekkti úr sveitinni, voru að velta fyrir sér öldrun hans eða frískleika, þekktu hann allir. Þeir voru sennilega 48, 56 og 67 ára gamlir og allir útiteknir. Ég sat á milli þeirra og allt barst í eyru. Skrítið að þeir sátu ekki saman, en ekki hálf-skrítið að það þurfti þriðja manninn til að þeir færu í gang með rabbið; allt er þegar þrennt er, þrír hrafnar flugu, í heimspekinni er margt þrennt og ekkert nýtt.

Fjóspúkinn lyktaði vel á heimleiðinni.




sunnudagur, september 12, 2004

Eitt er eftir

til að reyna að komast hjá framkvæmdunum við Kárahnjúka, sem í senn eru nauðsynlegar fáum sem ég þekki, en nauðsynlegar þeim er ég starfa stundum með á Neskaupsstað og Héraði eða það tel ég víst. Hið eina sem er eftir (kannski fleira sem ég nefni síðar), er að fá Tom Waits fluttan þangað og biðja hann um að taka nokkur gömul og nýrri sönglög við undirleik náttúrunnar, en til vara að koma með nokkra kjarnaspilara og ásláttarhljóðfæri. Þetta Kárahnjúkadæmi næ ég alls ekki að losa mig við og veit að sumir eru þreyttir á því (mér nærri og fjarri), en náttúrulega veit ég vel um viss vandamál á útnárum eftir að hafa unnið víða í fiski á yngri árum, en þá byrjaði fólk að vinna í fiski 10-12 ára að aldri - "ég er gamall" sagði maður áður og enn. Er að spá í hvernig þeir taka meintu moldroki frá lóninu; ég man vel eftir moldrokinu hér í bæ í sumar þegar veðrið var hvað best og umhverfi bæjarins og fjöllin hurfu í brúnan moldarbakka sem kom af hálendinu og framan úr firði.

Til vara mætti fá Súkkat á svæðið til að kyrja nokkra bragi með léttum undirleik, en Súkkat hlýtur að vera eitt best geymda leyndarmál tónlistarbransans á Íslandi, þótt sumir mér nærri hafi gaman af og má þar nefna drenginn Andra Þór sem hefur hrifist mjög og óvænt. Súkkat er þó ekki eftir því sem ég veit best leynihljómsveit; hefur gefið út að ég held tvo diska (eru í safninu) fulla af tónlistarfæðu.

laugardagur, september 11, 2004

Það kostar

minna að búa á Akureyri - yfirleitt - og þá sérstaklega þegar mig vantar e-ð sérstakt, sem er nánast aldrei. Um daginn vildi ég kaupa rúm handa Ísaki, hringdi á þá staði sem selja mögulega rúm hér í bæ. Á einum stað var til rúm sem okkur vantaði, fór því í Rúmfatalagerinn (ég fer aldrei á slíka staði nema tilneyddur), keypti gott rúm, tróð því í jeppann og ók heim, setti það á stað hins gamla og ónýta sem fór útí skúr en er á leiðinni uppá hauga. Oftast er það svo að það sem mig vantar fæst yfir höfuð ekki í bænum, varla á landinu, slíkar eru sérþarfir mínar oft á tíðum.

Kosturinn við að búa á Akureyri er því sá að þar fæst afar lítið sem kostar aðeins meira, en er yfirleitt ódýrara þegar upp er staðið, það hef ég sannreynt yfirleitt. Það kostar því minna að búa á Akureyri þegar maður er haldinn þeirri áráttu sem hér hefur verið minnst á. Oftast kemst maður hjá því að kaupa nokkuð þar sem ekkert er til. Hin sparnaðarleiðin er að fara í ímyndunarverlunarferð á netinu, hugsa sig nógu lengi um hlutina og hætta síðan við allt saman. Á þessu ári hef ég sparað "milljónir" með þessum hætti. Eini ókosturinn við netið er sá að þar erfitt um vik að prófa hlutina, en í leiðinni sparar maður enn meira, þar sem ákveðin fjarlægð verður gegnum skjáinn og freistingin verður ekki hættuleg, því freistingarnar eru til þess að falla fyrir.

fimmtudagur, september 09, 2004

Bláber, nei

íslensk bláber eru eitthvað sem er ekta, ekki barasta einhver iðnaður í plasti eða umbúðum í bakka eða körfu. Mér áskotnuðust aðalbláber, sem eru þau bestu ber sem fást á Íslandi úti í náttúrunni, einstakt bragð og þéttni, sömuleiðis liturinn sem er blárri en allt blátt fyrir litblinda. Ber þessi færði maður mér í dag, kom sérstaklega með þau til mín, ég stolist aðeins til að smakka. Enn er von meðan þeir hafa ekki fyllt öll dalverpi og víðáttur af vatni og lónum, enn má finna ber í hlíðum og óbyggðum. Íslensk aðalbláber er eitt það besta sem má fá, jafnvel þótt rifsberin og hin stöku jarðarber sem ræktuð hafa verið í Vinaminnisgarði í sumar hafði bragðast vel og eiga eftir að batna. Það er gott fyrir mann eins og mig með "CEO-disease" einkenni að fá að gjöf bláber, þá er enn von á bata.

þriðjudagur, september 07, 2004

Niðurgangur nærri

mér eigi er, en bloggsíður eru flestar þannig að það er spurning hvort viðkomandi hafi niðurgang, misþunnan þó, fremur en skrifangur. Þetta er eins og að fara í verslun þar sem flestir hafa ekkert skárra að gera í fleiri klukkustundir annað en að standa framan við stæðurnar með körfu, halda á óþarfa hlutum og velta fyrir sér e-u sem þarf ekki að kaupa. Sumt er þó nauðsynlegt og nefna skal All-Bran og banana, það krefst engrar skoðunar við. Hægt er að velja margfalt dýrari lausnir í heilsubúðum sem eru e-r mestu okurbúllur sem til eru hérlendis, þeirra ráð engu betri, allt er þekkt sem vel reynist, bara að gera eða framkvæma, upplýsa sjálfan sig. Þeir sem slíka hluti kaupa, þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur aðrar en þær að eiga nægilega mikið af pappír þótt hann sé seinni tíma uppfinning. Sjálfur kaupi ég reglulega 52 rúllur (ekki B52!).

Hauströkkrið er mætt fyrir utan gluggann, nokkur næðingur en sæmilegur lofthiti.

mánudagur, september 06, 2004

Sannar sögur

eru alltaf bestar. Ég hitti um daginn vinnufélaga og tókum við tal saman um veiðiskap enda var ég á leiðinni í nokkurra daga túr. Ég bar (og ber) mikla virðingu fyrir þessum veiðimanni eftir að hafa séð hann í dagblaði nokkru fyrr í sumar, en þar var hann þekkjanlegur á mynd, liggjandi við árbakkann, með nokkrar feitar og nýgengnar sjóbleikjur framan við sig og jeppa í baksýn, greinilega ánægður með góða morgunveiði. Ég sagði honum að ég hefði rekist á þessa mynd og hvort þetta hefði ekki örugglega verið hann. Hann sagði svo hafa verið, en hins vegar hafi þessi mynd (af honum) verið tekin af félaga hans sem veiddi alla fiskana og setti myndina síðan í blaðið án hans vitundar eins og hann hefði verið að hvíla sig eftir góða veiði. Þetta fannst honum e-r versti grikkur sem hann hefði orðið fyrir lengi. Fjölmargir komið að máli við hann sökum hinnar góðu veiði. Virðing mín minnkaði eigi við þetta, ef e-ð var, þá jókst hún einungis.

laugardagur, september 04, 2004

Jábræður

eru æði misjafnir til orðs og æðis. Mig langar til að vekja athygli á einum sérstaklega góðum penna sem skrifar pistla í Fréttablaðið af og til, en það er Andri Snær Magnason. Kannski er hann einungis góður þar sem við deilum skoðunum um hluti eins og virkjanamál, náttúruna og Landsvirkjun, sem ég las um í barnaskóla að væri eitt merkilegasta og besta fyrirtæki á Íslandi. Hún hefur ásamt iðnaðarráðuneytinu gefið út eina af fáum ófáanlegum bókum á Íslandi, sem heitir "Lowest energy prices" og fjallar um það hversu gott er fyrir stórfyrirtæki að fjárfesta í íslenskri orku sem er ódýrari en ókeypis ef einhver skilur. Þessi bók mun vera geymd í hirslum seðlabankans, en er ekki til sýnis eða aflestrar. Bókin er þó varla í sama flokki og allir hinar fjölmörgu jólabækur sem fara í jólaköttinn og sennilega er það þannig með margt sem nýtur vinsælda að þar eru gæðin afstæð. Sumir segja að vinsældir þýði lágkúru, ekkert vinsælt geti verið gæðalegt. Þetta er kannski bara þunglyndistal en horfið í kringum ykkur eða á sjónvarpið eða sjónsarpinn. Allt orkar tvímælis þá gert er.


Annars er málningarvinnu svo gott sem lokið eftir nokkurra daga hlé, var eiginlega lokið, en smáræði bætt við og rifsberin komin í krukkur, svolítið þunnt í krukkunum en bragðið í lagi, erfitt að halda þeim á brauðinu. Meira er til og spurning um að sjóða aðra umferð aðeins lengur, en vinsældir mauksins eru minni en t.d. hindberjasultu sem við vöndumst í Noregi og ekki tekist að slíta tengslin við.

Þessari soðningu er samt sem áður lokið, en þorskurinn (eða urriðinn) hefur ekki verið soðinn í langan tíma, sumir segja að maður eigi ekki að sjóða fisk í vatni, kannski gufu, en ég kýs aðrar aðferðir. Ég þarf að fara að velja fisk í taðreykingu, en ég hef orðið aðhlátursefni sunnan heiða vegna taðreykingaráráttu, ekki áráttu kannski, fremur áhuga á fornum venjum og bragði, sem margir ekki þekkja lengur.

föstudagur, september 03, 2004

Draumur

allra karla er að vera í hljómsveit og er það áreiðanlega einn þeirra drauma sem ég næ vart að upplifa, nema þegar ég sá athugasemd frá lesanda sem þegar hefur boðið mér í band með sér (eða var það bland, vart hland); þá hef ég aftur hugsað um þennan draum um að spila á búllum eða knæpum og stærri sölum eða bara heima. Þetta mál þarfnast frekari greiningar og stefnumótunar, en er það ekki tískan í dag (?).

Konan var að ræða um það í gærkvöldi er við gengum framhjá Kaupangi, en það er verslunarmiðstöð nærri okkur, miðstöð er kannski of mikið af því góða, að þar væri alltaf svo mikil hlandlykt við vegginn og ég hef fundið sem nærri getur þar eð starf mitt gefur mér kost á því að vera meira og minna með hland- og kúkalykt í vitum og heitan fingur. Ég sá nýlega í blaði að hollenskur kráareigandi var orðinn hundleiður á hlandlyktinni við e-t skotið nærri kránni þar sem karlar pissuðu ætíð. Hann fjárfesti í fjarstýrðri sturtu sem fór í gang ef pissað var neðan hennar; flestir munu hafa hætt fyrri iðju og fjárfestingin borgaði sig. Ef e-r gæti gefið mér hugmynd um það hvernig ég gæti komið slíkri sturtu fyrir í mínu starfi, þá er velkomið að senda mér línu um það á blogginu. Annars má allri lykt venjast þótt aðrir séu því ekki endilega sammála. Það má einnig biðja menn um að minnast vísna Megasar um hlandforina og Bigga á plötunni "Á bleikum náttkjólum" ef ég man rétt, sem er skyldueign.

Draumurinn um eða í dós verður kannski hljóðdós.


miðvikudagur, september 01, 2004

Hver er munurinn

á söngvara og andvara eða
hverjum sem gefur frá sér hljóð; Ísak gefur frá sér gítarhljóð við hlið mér á meðan verið er að athuga með bústaði í útlöndum. Allir þurfa að færa sig um set öðru hverju, hér á Akureyri færa menn sig lítið um set, enda setlögin orðin þykk og mikil. Framfarir verða gjarnan eins og ferðalög, þær verða sökum hreyfingar og stundum tilviljana.

Það hefði verið gaman að læra á hljóðfæri fremur en að syngja og það þekkja allir sem mig hafa heyrt syngjandi, nema ef vera skyldi í Haga á menntaskólaárunum, þar sungu allir ef því var að skipta og engar athugasemdir gerðar.

Þurrausinn er maður eftir að hafa byrjað að vinna að nýju, en það tekur alltaf e-a daga að komast á skrið. Reyndar hitti ég ágætan vin og kollega þegar ég var að fara heim úr vinnu í dag og hváði hann við, þar sem hann hafði ekki séð mig lengi og hélt jafnvel að ég væri hættur störfum á hælinu, sem sjálfsagt margir yrðu fegnir. Hver veit hvað gerist á næstu misserum er best að spá sem minnst í hér á þessari síðu.

Ég hlakka til að fá mér hentugan og bragðbesta fisk í haust með hvítvíni sem ég náði úr uppáhaldsá minni í sumar.