Rispur
í mannlífinu eru ágætar. Rispur á hljómplötum eru ennfremur ágætar og minna Hal á þá staðreynd að allir hlutir eru forgengilegir, jörðin, heimurinn, guðir og menn, fjármagn og hlutafé, lausafé. Rispurnar eru sérlega ánægjulegar í margs konar samhengi; rispur í mannlegum samskiptum þolast misvel, ripsur á gleri kannski viðkvæmastar finnst mörgum eins og í mannlífinu, sálinni, hvar sem hennar má nú leita. Síðan er unnt að taka rispur í hinu og þessu. Íslendingar eru rispufólk. Halur ráðleggur öllum að hlusta á rispur nóbelsskáldsins íslenska í miðdegissögunni, þar má heyra meistaralestur á meistaraefni, um 40 ára gamall lestur. Paradísarheimt var það heillin. Tilvitnanir þaðan af heimasíðu skáldsins eru eftirfarandi:
„... þegar heimurinn er hættur að vera dásemdafullur í augum barnanna okkar þá er nú lítið orðið eftir ..." (2. kafli)
„Að vakna við að maður hefur mist alt og veit að maður á ekki leingur neitt, er það þá að vera manneskja?" (27. kafli)
„Ég hef fundið sannleikann og það land þar sem hann býr, áréttaði vegghleðslumaðurinn. Það er að vísu allmikils vert. En nú skiftir mestu máli að reisa við aftur þennan vallargarð." (30. kafli)
Halur bætir engu við þetta og telur sjaldan eða aldrei tilefni í slíkar færslur, nema kannski hjá HKLLA.