sunnudagur, október 30, 2005

Rispur

í mannlífinu eru ágætar. Rispur á hljómplötum eru ennfremur ágætar og minna Hal á þá staðreynd að allir hlutir eru forgengilegir, jörðin, heimurinn, guðir og menn, fjármagn og hlutafé, lausafé. Rispurnar eru sérlega ánægjulegar í margs konar samhengi; rispur í mannlegum samskiptum þolast misvel, ripsur á gleri kannski viðkvæmastar finnst mörgum eins og í mannlífinu, sálinni, hvar sem hennar má nú leita. Síðan er unnt að taka rispur í hinu og þessu. Íslendingar eru rispufólk. Halur ráðleggur öllum að hlusta á rispur nóbelsskáldsins íslenska í miðdegissögunni, þar má heyra meistaralestur á meistaraefni, um 40 ára gamall lestur. Paradísarheimt var það heillin. Tilvitnanir þaðan af heimasíðu skáldsins eru eftirfarandi:

„... þegar heimurinn er hættur að vera dásemdafullur í augum barnanna okkar þá er nú lítið orðið eftir ..." (2. kafli)
„Að vakna við að maður hefur mist alt og veit að maður á ekki leingur neitt, er það þá að vera manneskja?" (27. kafli)
„Ég hef fundið sannleikann og það land þar sem hann býr, áréttaði vegghleðslumaðurinn. Það er að vísu allmikils vert. En nú skiftir mestu máli að reisa við aftur þennan vallargarð." (30. kafli)

Halur bætir engu við þetta og telur sjaldan eða aldrei tilefni í slíkar færslur, nema kannski hjá HKLLA.

föstudagur, október 28, 2005

Venjur

eru misjafnar og einhvers staðar stendur að illt sé vondum vana að kasta. Halur er óskaplega vanafastur maður (kona). Hann fer venjulegast á sama salernið, gerir allt eins þar, sest ef því er að skipta og tekur pappír í hönd nærri meðvitundarlaus af hamingju. Eins er þegar hann sest við borð og fær sér ristabrauð með brúnosti og sultu, allt er eftir fyrirfram ákveðnum reglum. Stundum hefði hann gott af því að líta í kringum sig eftir öðru áleggi, nema ef væri reyktur fiskur á borðum; þá sér hann um þá hlið mála, að skera og setja á borð. Síðan þarf hann fljótlega að skreppa á salernið, allt eins og venjulega. Brúnostssneiðar og fiskibitar eru eins og salernispappírinn; endahnykkurinn á ágætum vana og lofaðri hamingju.

miðvikudagur, október 26, 2005

Raunveruleikinn

var til tals síðast, en hvað veit Halur svo sem um hann fremur en aðra hluti. Hann veit þó að sumir hlutir eru aðeins raunverulegir skamma stund. Halur hefur meira af áhuga en nokkurri kunnáttu eða þekkingu (enda engin) verið að líta yfir ljósmyndasíður undanfarið auk þess sem hann kíkir á forsíður blaða er frúin hefur honum nærri. Ljósmyndir nútímans eru allar meira og minna óraunverulegar nema annað hafi sérstaklega verið tekið fram. Nútíminn er óraunverulegur. Þetta minnir Hal á hjónabönd nútímafólks, saman í dag og skilin á morgun. Svipað og fiskur á færi sem sleppur; í lagi ef nægur matur er til, en annars síður. Fiskur úldnar fljótt í hita og sól eins og sum hjónabönd. Halur þarf að hugsa sig um hvað hann vill gera í hinum óraunveruleikamyndasmiðsverkum. Það er þó alltént unnt að eiga frummyndina, hún er ætíð sönn útaf fyrir sig. Hins vegar verður vart deilt um ánægju sem hafa má af bættum verkum og það er nokkuð sem Halur mun reyna ef hann verður heppinn; ekki þarf allt að sjást og gott að "innyflin" sjáist ekki utan frá. Síðan mæli ég aftur með krostíni frúarinnar. Endurtek: Flestir hlutir eru aðeins raunverulegir skamma stund.

mánudagur, október 24, 2005

Hver er

raunveruleikinn í þessu: "VaGínas flytur lagið Screwdriver." Þetta er nokkuð, sem allir þurfa að hlusta eftir eða á, sérlega á degi þessum, þar sem konur streyma úr vinnu (loksins kominn tími til). Félagarnir réttlæti og óréttlæti ná vonandi einhverri málamiðlun fyrir veturnætur. Munið að hlusta eftir þessu lagi eða hljóði frá Skrúfdrævernum. Mæli með að bragðað verði á balsamediki frúarinnar settu á krostíni og fíkjur, já fíkjur, best sjálfsagt með kvennavíni a.m. Portó, espressó fyrir karla eða karlkerlíngar. Konur munu hins vegar orðnar túróttar eins og karlar áður voru. Betra er að gera, en láta vera segir Halur.

sunnudagur, október 23, 2005

Hundurinn

Halur er að því er virðist í átaki í dag ef marka má sólargang og stöðu tungla innan baugs og utan. Átaksmaður er Halur eigi, en í morgun bað húsfreyjan eða réttara sagt stakk upp á því að (les: Halur) baka hægðabætandi bollur og fór svo að Halur barðist við deig á meðan freyjan synti í lauginni og lét karla dást að sér á bakkanum, enda frost norðan heiða og bakkahorf ágætt þegar svo er. Halur minnist þeirra tíma er hann sat í heita pottinum og dáðist að sundmaga og sundbol kvenna og sennilega hefir freyjan verið þar fremst í flokki. Sundfit frusu ekki við fætur hennar en Halur hefur verið að gæla við þá hugmynd að "stela" fitunum þannig að hann kæmist hjálparlaust milli bakka og þyrfti ekki að pústa sig alveg eins oft og venjulegast. Annars fer þessu átaki sjálfsagt að ljúka, en Halur fór hina fyrstu skíðagönguför vetrarins í dag, það mætti snjóa 10 cm til viðbótar, þá yrði færið afbragðsgott. Skíðaganga, jafnvel að standa á skíðunum einum saman án hreyfingar innan um snjó og hæfilegan kulda, er eitt hið allra skemmtilegasta sem Halur veit og þekkir. Halur getur skrifað eins og kellíng.

Eitt hið skemmtilegasta

sem Halur gerir er það að hlusta á frásagnir eða viðtöl við fólk, karla og konur. Vandinn er hins vegar sá að viðtöl eru æði misjöfn að gæðum, bæði af hálfu spyrjanda og viðmælanda eða –anda. Bestu viðtölin eru oftast nær afar hæggeng, þagnir, helst langar, óvanir viðmælendur, viðmælendur er aldregi hafa sést opinberlega á mynd eða komið sér sjálfir á framfæri á einhvern hátt. Verstu viðtölin eru hin er líkjast hraðfleygum kjálkum stjórnmálamannsins eða hins vana viðmælanda er telur sig þurfa að koma svo miklu efni á framfæri að úr verður kista full af orðum en engum eða litlum skilningi eða málsverði komið á framfæri fyrir hlustanda; enn verra ef hreyfimynd fylgir með viðmælandanum og spyrjanda sem sumir þurfa og verða að leika aðalhlutverkið. Það hefir Halur lesið að svo mun vera með flesta þætti í sjónvarpi ef vel er að gáð; þeir eru þættir stjórnandans (sem hefur lítinn anda!?) og elta rófuna á sjálfum sér, sjálfum sér til framdráttar. Halur skilur þó að margir geti þótt þessir ágætir eða góðir vinir. Það er í lagi. Þetta er líklegast ein ástæðan fyrir því að Halur hætti að fullu að fylgjast með stjórnmálum og alls ekki neinum viðtalsþáttum eða öðru álíka er stjórnmál ber á góma enda gómbragðið lítið. Samtöl er Halur heyrir manna á milli af þeim toga minna hann einnig á það að engu hefir hann misst af í þeim efnum. Gömul viðtöl sem t. d. tekin voru upp við bændur og búalið, fólk til sveita fyrir nokkrum áratugum, vinnandi fólk og óvinnandi; þau eru hátíð fyrir hugann. Halur er þó eins og sumir, hann vill of oft grípa orðið þau fáu skipti er hann heyrir einhvern segja eitthvað áhugavert sér nærri (það er sjaldan), en þá er listin að þegja og muna, hlusta og þegja.

fimmtudagur, október 20, 2005

Misjafnt er

hvað verður að teljast "información importante" eins og sagt er sums staðar sunnan við okkur. Eiginlega gerist ekkert hjá Hali daglega sem er í frásögur færandi nema kannski að spor hans milli daga eru ekki nákvæmlega á sama stað á malbikinu eða stéttinni. Annað breytist meira og virðist hafa sjálfstætt líf að nokkru en misvel gengur að koma öllu til leiðar. Baðið í Vinaminni kláraðist ekki í haust eða sumar og baðkarið sem þar er þessa stundina er til sölu og tekur frúin væntanlega við tilboðum enda lærð í þeim efnum; ekki mun Halur hæfur til slíkra hluta. Nýtt baðkar mun vera í bænum einhvers staðar. Halur mælir ekki með nuddi í nein baðkör og þar er greinilega misskilningur á ferð eða tilbúið söluráð allra framleiðenda; það er einfaldast að leggjast í slík kör og prófa, en það er hvergi hægt á almannafæri, hvað þá í verslunum. Skilaboðin eru því þessi: kaupið aldrei baðkar án þess að prófa, jafnvel lekaprófa, en það var samkvæmt venju nauðsynlegt í Vinaminni í samræmi við sumar aðrar framkvæmdir sem þar hafa fram farið. Halur tekur þessu þó bara með jafnaðargeði, enda standa honum nærri glæsileg börn, kettir og kona, sem aldrei sýnist ætla að gefast alveg uppá honum (það skilur hann ekki)!

miðvikudagur, október 19, 2005

Eru dýr læs?

Svari hver fyrir sig, en Halur er sannfærður um það að dýr séu í raun og veru læs og betur læs en margur maðurinn. Lítið vilja margir lesa nú um stundir og er það miður; er mörgæsin læs? Hér dugar ekki að koma með neinar vangaveltur um sannanir og þess háttar; aðeins það að dýr eru læs og verður það að teljast nokkuð næs. Sannanir eru einnig oftast nær afstæðar. Nú er bara að sjá hvort þeir sem ætla á Kanarí um jólin eða áramótin (Reykjavíkurliðið) skreppi suður á við og leggi nokkrar lesþrautir fyrir mörgæsirnar. Ekki meira. Þetta fer að verða eins og geldneyti (eða ráðuneyti).

sunnudagur, október 16, 2005

Kæru félagar!

(klapp)
Nú er komið að því að Halur fari yfir matseðilinn (klapp). Allt sem stefnt hefur verið að hefur tekist, allt hefur náðst, allt er í höfn (klapp).

Í dag er soðinn fiskur með rúgbrauði og floti (klapp).
Á morgun er nýr dagur hjá ykkur ásamt leiðtoganum (klapp).
Þið hafið stigið til himna í fresli, dugnaði, ágirnd, stuðningi og dýrkun við mig (klapp).
Töðugjöld markaðarins eru leigugjöld lýðræðisins (klapp) og þið munuð öll verða hólpin, aðeins ef þið trúið á ljósið, sigurvegarann (klapp).

Mörgæsin fór í mannslíki til Suðurpólsins í lok bókarinnar (klapp).

Lengi lifi flokkurinn (klapp), foringinn (klapp), gott er að halla sér á klósettsetu (klapp). Góðar og jafnvel ágætar eru hringvöðvahreyfingar lýðræðisins, grindarbotnsæfingar lýðræðisins (klapp).

Á tímum

endalausrar útlitsdýrkunar er gott að kíkja á kroppa í sundlauginni norðan heiða, en þangað fer Halur sárasjaldan enda sund ekki ofarlega á listanum. Það er merkilegt að til séu staðir þar sem útlitið er eins berháttað og raun ber vitni, allar útgáfur af hor og fitu, hringjum og dekkjum, vambir, horrenglur, belsenútlit jafnvel. Skrítið þegar útlitsdýrkunin er nærri algjör eða nákvæmlega algjör, en orðið nákvæmlega er fengið frá ungu fólki, allt er nákvæmlega í dag. Hinir sömu garpar stinga sér til sunds, brækur misgóðar og skildi hún skjótast af við stökk eða stungu?! Stíllinn flatur, bogadreginn, skellur, prammi, súla, hvass, breiður, hettur á höfði, gleraugu og fleira eftir atvikum. "Lánuð sundföt" koma skemmtilega út oft á tíðum, þau geta verið toppurinn á sundjakanum eða sunddrottningunni. Í dag var þó nærri ónauðsyn að fara í sund; það gerði sama gagn að standa úti við í fáeinar mínútur, nákvæmega blautt. Halur tók nokkur óþroskuð sundtök meðan hin nýja drottning Eyjafjarðar tók tugi ferða í köldu lauginni; Halur húkti eins og skítur í horni hinnar laugarinnar enda minnist hann orðanna úr Laugardalnum: "Það er kúkur í lauginni, allir uppúr!"

fimmtudagur, október 13, 2005

Á þessum degi

mun Kládíusi hafa verið byrlað eitur og lést hann í kjölfarið (sennilegast). Þetta er dagurinn sem Pinter fékk sænska púðrið, en e-r höfðu reyndar reiknað með að hann yrði dauður áður, þar sem hann fékk víst illkynja vélindisæxli fyrir 2-3 árum og flestir er það fá eru dauðir innan árs nema til aðgerðar komi og hún þá möguleg. Það er gott ef verðlaun vekja áhuga á einhverju eða einhverjum sem þyrfti að ná til fleiri lesenda eða einstaklinga, e-ð sem fengur er í að lesa eða álíka. Nýverið voru margir erlendir rithöfundar hérlendis og Halur sem er afar hæglesandi, er þessa stundina að lesa skemmtilega og vel skrifaða bók eftir Andrej Kúrkov -Andrej Kúrkov- sem fjallar meðal annars um mörgæs og menn sem eru alltaf að fá sér vodka milli máltíða, en þar á bæ munu víst karldýrin m. a. fæða ungana ef Halur man rétt eða álíka. Mörgæsategundir munu vera nærri tuttugu talsins þessa stundina og þannig er mörgæs ekki sama og mörgæs. Heitið mörgæs reyndar með afbrigðum vel heppnað. Textinn er núna orðinn líkastur því að mörgæs hafi ritað hann og því er næst á dagskrá að hætta. Næsta bók verður eftir annan púðurverðlaunahöfund, J.M. Coetzee, en nú fer þetta að nálgast hefðbundið snobb. Stopp.

Þetta er sami textinn með stærra letri!!!

mánudagur, október 10, 2005

Hin heilaga þrenning

er ýmis konar og fer eftir efni sem um er fjallað; trúarlega á hún að vera á hreinu þótt sumir efist sjálfsagt og alls kyns þrenningar eru til hér og þar, alls staðar reyndar. Halur minnist tímans er hann fékk að fylgjast með menntun vinar síns, en þar var hin heilaga þrenning að mati hans þessi innan meltingarfæranna: Ógleði, niðurgangur og uppköst, en hér má augljóslega bæta við hægðartregðu eða skipta á henni inná fyrir t. d. ógleði. Föðurland hálft er hafið stendur e-s staðar og hver hin heilaga þrenning sjómannsins er, veit Halur eigi. Hann veit hins vegar að hann hefur hina heilögu þrenningu hins daglega lífs svona: Jafnræði, frelsi og forræði einstaklingsins. Stundum breytir hann þessu viljandi og það er eins og annað hjá honum, en vart má það teljast djörfung. Nóg komið að svona tali. Í framhjáhlaupi flæktist Halur inn á vefsíðu menntskælinga norðan heiða og sá þar margan manninn (konur!); var þar mikið jafnræði manna á milli í flestu nema útlitinu.

laugardagur, október 08, 2005

Engin breyting

hefir orðið á háttum Hals undanfarið, enda verið á sama stað lengi og ekki fyrir neinar breytingar eða nýjungar, nema neyddur til. Hann sýnist stundum takast á við ný verkefni eða jafnvel fylgjast með dægurmálum, en það er nú ekki svo; aðeins er um líkingar að ræða eða tálsýnir í texta eða tali. Hann varð fyrir skömmu að ræða við miðaldra mann austan af fjörðum og fór vel á með honum og þessum manni, enda sveitamaður. Vildi þó ekki betur til en svo að skyndilega heyrði Halur hljóð er minnti hann á hundsgelt eða gjálfur í kvikindi af smærri gerðinni; fannst það nærri sér en áttaði sig eigi hvaðan kom. Heyrn Hals er eins og sjón hvergi nærri fullkomnun. Maðurinn sá hve órólegur Halur varð við hljóð þetta, þannig að hann sagðist vera með hund í vasanum en það var ekki eiginlegur hundur, heldur gemsi með hundskvikindishljóði sem fyrir heyrnarlausan Hal virtist raunverulegt. Þetta var hins vegar tálhljóð.

Halur kvað til sönnunar á dægurmálaleysinu svona:

Dægurmálin dæmalaus,
dæmast skulu mesta raus.
Því endalaust mas
og einhlítt þras,
aðeins gefur verk í daus.

Hundsgelt í holti er betra en gelt dægurmálanna, oft er í holti heyrandi nær.

fimmtudagur, október 06, 2005

Fáu fylgist

Halur með af dægurmálum, en viti menn; þegar hann var að koma til Vinaminnis heyrði hann í útvarpinu skemmtilegt erindi um Hannes H. og síðustu (daga H.) steypuna í dægurmálum landans og engu verður við það bætt hér. Þetta minnir á Íslendingasögur í Þefað og Heyrt stílnum. Halur minnst bögunnar fyrr af árinu (janúar) sem var svona:

Eyjar mínar og "ann-nesi"
andann nærir.
Harla margt á "Hann-nesi"
halur lærir.

Hver fundar með hverjum og hvar verður harla góð krossgáta framtíðarbarna. Það er bara að ? viti af þessu.

miðvikudagur, október 05, 2005

Ótrúlegir hlutir

gerast enn! Og ekki kemur það neinum á óvart sem til þekkir eða hvað?! Ekki á óvart, þar sem húsfreyjan í Vinaminni átti í hlut, húsfreyjan sem lengi hefir þurft að þola talsverða ágjöf frá Hali, enda Halur ekki vel saman settur nema að litlu leiti. Halur fékk að fara á Hælið í morgun eftir að hafa stundað sveitalækningar í Skagafirði, einhver óróleiki var í honum, einhver sem hann eigi vissi hver var fyrr en hann hljóp að símtóli til svörunar og á hinum endanum var húsfreyjan. Þjónninn, Halur Húfubólguson, var í raun auðmjúkur, og gladdist mjög (sem er sjaldgæft) er húsfreyjan minnti hann á tónelika í Freikirchen í desember n. k., en þar mun Antony leika og spila ásamt hljómsveit. Sjálf var hún afhuga tónleikum þessum, en eins og góðmenna er háttur eða siður, þá bauðst hún til að panta miða fyrir Hal, sem taldi að væri um seinan, en viti menn; allt gekk eins og í sögu. Halur hefði sjálfur gert í buxurnar í máli þessu eins og allir sjá eða hinir fáu er þetta lesa og þóttist reyndar vera upptekinn á þessum tíma sem um ræddi þegar panta þurfti miðana. Svona gerast góðir hlutir alltaf nærri húsfreyjunni og auðmjúkur þjónninn, Halur Húfubólguson, er hvenær sem er tilbúinn að bæta ráð sitt, enda af nógu af taka. Ótrúlegt hvað húsfreyjan bætir upp vankanta Hals, stagar í götin og pressar heilaskyrtuna; hún gefst aldrei upp.

mánudagur, október 03, 2005

Árstíðir, tungl,

sólargangur og annað þess háttar hefir ætíð verið Hali hugleikið; haustjafndægur er liðið en flestir eru þó hrifnari er kemur að vorjafndægri (vorjafndægur, jafndægur á vori, jafndægri á vori og sama gildir um haustjafndægur í orðavali). Tíðin hefir verið ótíð, mest barningur til sveita og margur akurinn farið fyrir lítið þar sem korn hefir átt að þreskja norðan heiða. Það sá Halur vel á ferðum sínum um sveitir nýlega og gæsin sýnist að mestu flúin suður yfir heiðar; enga gæs var að sjá í Skagafirði um helgina og eigi heldur í dag, en nú hefir hlánað og þekkt gæstún auð, en all mikið sást til álftarinnar sem þegar er byrjuð að hópa sig. Flest það sem einu sinni átti að vera betra norðan heiða er breytt; meira að segja rigningin er flúin norður. Halur lætur þó veðrið eigi hafa áhrif á sig og horfir fram til haustsins með sömu ánægju og áður enda haustið einn ánægjulegasti tími ársins.