Af fiski og
palli hafa sumir fengið nóg í sumar. Það væri þó sennilega gott að eiga pallbíl ef síðasta fjögurra daga veiðiferðin segir e-ð til um framtíðina, því slíkur varð aflinn, að ef ég hefði tekið hann með mér heim, þá hefði ekkert dugað nema stærsti pallurinn. Pallurinn einnig góður til að flytja fönguleg fljóð milli bæja. Flestir fiskarnir eins og túnfiskar í laginu -læginu- og aflið eftir því og lýsið lak af þeim. Sennilega er það merki um sæmilegan þroska þegar maður sleppir fallegum fiskum og líður vel þegar stærsti fiskurinn er kominn að landi eftir dágóða stund, en losar sig síðan sjálfur og í stað þess að kasta sér á-ann eins og e-n tíma hefði verið gert, þá fer vellíðan um mann í kjölfar þess að sjá hann synda útí ána að nýju. Væmið segja sumir, en þessi tími við ána gefur manni möguleika á barnslegri gleði að nýju eða jafnvel endurnýjun hennar, sem stundum er af ansi skornum skammti segja kannski einhverjir. Það að sjá fálka fljúga 10 m ofna við sig í Skriðuflóa - eltandi önd -, gefur manni aðra sýn en venja er daglega, en veisla er fyrir þennan einfara fugla á þessum slóðum sem Mývatnssveitin er. Ég skora á fólk að drífa sig í haustlitaskoðun, sennilega eru þeir fyrr á ferðinni vegna óvenju mikilla þurrka í sumar, litrófið þannig að það þarf ekki að mynda. Á sama tíma hópast aðrar tegundir saman (í hópa) eins og Íslendingar hafa gert í sumar og haust, þúsundum saman á Dalvík að fá ókeypis fiskbita (e-r segja áreiðanlega að þetta sé bara félagsskapurinn!), e-s konar dagar hér og þar, en síðan vilja allir eiga sumarbústað og aka einir um í bílum.
Fyrstu haustvindar blása utandyra þessa stundina og það styttist í Parísferð með frúnni. Best að læra franskt matseðlatungusnobb og annað til að slá um sig með í þeirri ferð en frönskukunnáttan er minni en engin.
Í lokin má nefna að ég sá forsíðu DV í dag er ég keypti í matinn, en þar stóð að sjúkraskrár eða efni þeirra hefði fokið um allt Grafarvogshverfið, - trúnaðarmál sem hver sem er gæti lesið. Þetta er engin nýlunda kannski, ég hef alltaf haft það að á tilfinningunni að hér væru engin trúnaðarmál til ef marka má tal fólks og umfjöllun.