mánudagur, ágúst 30, 2004

Af fiski og

palli hafa sumir fengið nóg í sumar. Það væri þó sennilega gott að eiga pallbíl ef síðasta fjögurra daga veiðiferðin segir e-ð til um framtíðina, því slíkur varð aflinn, að ef ég hefði tekið hann með mér heim, þá hefði ekkert dugað nema stærsti pallurinn. Pallurinn einnig góður til að flytja fönguleg fljóð milli bæja. Flestir fiskarnir eins og túnfiskar í laginu -læginu- og aflið eftir því og lýsið lak af þeim. Sennilega er það merki um sæmilegan þroska þegar maður sleppir fallegum fiskum og líður vel þegar stærsti fiskurinn er kominn að landi eftir dágóða stund, en losar sig síðan sjálfur og í stað þess að kasta sér á-ann eins og e-n tíma hefði verið gert, þá fer vellíðan um mann í kjölfar þess að sjá hann synda útí ána að nýju. Væmið segja sumir, en þessi tími við ána gefur manni möguleika á barnslegri gleði að nýju eða jafnvel endurnýjun hennar, sem stundum er af ansi skornum skammti segja kannski einhverjir. Það að sjá fálka fljúga 10 m ofna við sig í Skriðuflóa - eltandi önd -, gefur manni aðra sýn en venja er daglega, en veisla er fyrir þennan einfara fugla á þessum slóðum sem Mývatnssveitin er. Ég skora á fólk að drífa sig í haustlitaskoðun, sennilega eru þeir fyrr á ferðinni vegna óvenju mikilla þurrka í sumar, litrófið þannig að það þarf ekki að mynda. Á sama tíma hópast aðrar tegundir saman (í hópa) eins og Íslendingar hafa gert í sumar og haust, þúsundum saman á Dalvík að fá ókeypis fiskbita (e-r segja áreiðanlega að þetta sé bara félagsskapurinn!), e-s konar dagar hér og þar, en síðan vilja allir eiga sumarbústað og aka einir um í bílum.

Fyrstu haustvindar blása utandyra þessa stundina og það styttist í Parísferð með frúnni. Best að læra franskt matseðlatungusnobb og annað til að slá um sig með í þeirri ferð en frönskukunnáttan er minni en engin.

Í lokin má nefna að ég sá forsíðu DV í dag er ég keypti í matinn, en þar stóð að sjúkraskrár eða efni þeirra hefði fokið um allt Grafarvogshverfið, - trúnaðarmál sem hver sem er gæti lesið. Þetta er engin nýlunda kannski, ég hef alltaf haft það að á tilfinningunni að hér væru engin trúnaðarmál til ef marka má tal fólks og umfjöllun.

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Að taka ekki

tímann við málningavinnu er mjög ólíkt mér. Allir hafa sagt við mig heimafyrir að ég taki tímann á öllu sem ég geri og viti uppá hár (minna af því) hvað hvert verk taki langan tíma og þá venjulega með gula Casio úrinu sem ég keypti forðum og hefur verið nokkuð aðhlátursefni að sjá svo gamlan mann með þannig úr og á því er m.a. mynd af hauskúpu.

Þannig er með öll verk, rétt að halda áfram á jöfnum hraða, vinna án strits (starfa án strits sagði Laó Tsé), ég var ekki með klukkuna en heyrði af og til í útvarpinu, mest af því sem þaðan kom óheyrindi, gufan þó lítið notuð. Augu hússins aftur farin að lýsa í hauströkkrinu, ég hætti sökum myrkurs að hnýta nokkrar flugur í kvöld fyrir næsta veiðitúr, geri það á morgun og verður þá Gull-Þór vafinn í nokkrum stærðum milli þess sem ég klára vonandi að mála. Hlustaði í staðinn á Tom Waits sem enginn apar eftir, þar er sambland af Jesú, sálmum, utangarði, heygarði, ræsinu, kántrí, hardkor, rokki og kabarett, leikhúsi - öllu.

Þakka Kidda fyrir góð ráð.

sunnudagur, ágúst 22, 2004

Útlitið

er ekki allt fremur en tungumálið. Það eru forréttindi að vera þannig að ekki sé tekið eftir manni nema ef vera skyldu ellilífeyrisþegar sem ég hefi kynnst svolítið í starfi mínu sem kallar á mann dag eftir dag, en þó ekki í dag þar sem ég er í fríi.

Sumt sem ekki virðist vera mikið líf í vekur þó áhuga sumra eins og t.d. bambusstöng sem hefur verið stolið í þrígang úr einu beðanna heima, reyndar ekki sama stöngin. Konan stoppaði mig þegar ég sá einn strák stela henni um daginn og minnti mig á manninn í næsta húsi sem elti krakkana um allt hverfið ef þau hefðu gert smá prakkarastrik, þessu man hún eftir alla ævi um karlinn en lítið annað. Þessir hlauparar voru til í öllum hverfum og einnig sunnan heiða, sumir afar strangir og tóku stráka uppá eyrunum ef því var að skipta. Lengi vel mátti t.d. ekki spila fótbolta á grasi í Laugarnesinu fyrir svona körlum sem voru hálfgerðir fantar að manni fannst og betra að haga sér bara vel sjálfur þannig að eltingarleikir við strákapör væri ekki hið eina sem strákarnir í hverfinu minntust er þeir uxu úr grasi. Það hlýtur þó að vera góð minnig ef maður hefur sloppið undan slíkum karli og hlaupið hann af sér. Vart er það útlit stangarinnar sem heillar!

Nú er ég að mála gluggana, reyndar hættur í bili sem betur fer, því rétt í þessu kom alvöru spánarskúr úr lofti þannig að regndroparnir hoppuðu af þökunum. Gluggarnir hvítir eins og dauðinn, og merkilegt að öll húsin í götunni eru hvít eða hvítleit. Hvítur er góður litur að vetri til fjalla og fer einnig vel ísjökum og jöklum, Gvendur Jaki var ekki hvítur.

Eins og sjá má hefur útlit og nafn síðunnar breyst svolítið og að síðustu legg ég til að allir hrópi: Forsetinn lengi lifi, en leggið niður embættið (eða var það Framsóknarflokkurinn)?

föstudagur, ágúst 20, 2004

Sannar sögur

eru misgóðar. Óvæntar fréttir einnig, en eina sögu heyrði ég nýlega sem færði mér fréttir af hundi sem var afar veikur fyrr á árinu vegna blæðinga frá ónefndu líffæri og ég annaðist með lítilli aðgerð (hún var mjög óvenjuleg og verkfærin einnig sem notuð voru!). Eftir vinnu hjólaði ég á staðinn. Mér leist nú ekki á blikuna þegar ég sá hundinn, en það sem ég gerði hefur sem betur fer bjargað honum; slíka aðgerð aldrei áður gert á hundi en líffærafræði þeirra er sennilega keimlík okkar á margan hátt. Fögnuður eigenda og ættingja víst ómældur.

Þetta gladdi mig afar mikið þar sem ég hafði í e-a mánuði verið með gulleitan miða á skrifborðinu í vinnunni og verið að spá í að athuga hvernig málið endaði þar sem ég hafði ekkert heyrt frá þeim er báðu mig um að líta á þetta.

Ég get því hjólað glaður heim í dag framhjá þeim stað þar sem aðgerðin var framkvæmd, en fram til þessa dags var mér alltaf hugsað til hundsins litla og þess hvernig honum hefði vegnað.

Þetta minnir mann á það hvað lítil verk geta skilað mikilli ánægju og árangri, það þarf ekki alltaf að vera "eitthvað merkilegt", þótt endalokin geri umtalað verk merkilegt í sjálfu sér.

fimmtudagur, ágúst 19, 2004

Leyndarmálin

eru alls staðar í náttúrunni eins og ég varð var við í ferðinni um Vatnsnesið, sennilega er þetta eitt af óþekktu svæðunum ásamt t.d. Kelduhverfinu. Veiðimenn eiga sér marga leynda draumastaði við ár og vötn, lygnur, hyli og breiður ásamt flúðum þar sem á stundum breytist ásýndin við það að fiskur tekur agnið eða fluguna. Auðvelt er að sofna á slíkum stöðum milli kasta.

Ég fer ekki í gönguferðina um Kringilsárrana um helgina, verð væntanlega að mála gluggana og ganga frá lausum endum heimafyrir, vefja flugur; þetta bíður bara betri tíma eða þannig nema lónið verði komið áður en ég fer þarna um, en svæðið hef ég litið að nokkru augum áður.

Ég er nánast hættur að horfa á beinar útsendingar og hef alveg sleppt OL og handboltanum, það stendur þó uppúr hneykslið með eymingja grísku hlauparana sem lentu í nöðruslysinu, maður er löngu hættur að lesa fregnir af dópmálum í frjálsum og fleiri greinum eftir að Jarmíla hin tékkneska setti metin hér um árið, en hún minnti karlmann sem farið hafði í hálf-misheppnaða kynskiptaaðgerð.

Á morgun byrjar skólinn, gamla fólið. Það verður gaman að sjá hvernig sumir taka þar á málunum. Það má teljast merkilegt hvað bloggarinn nennti að vera lengi í skóla því ekki voru öll þessi ár eintóm hamingja, hvað þá kennslan; stór hluti reyndar utanskóla í hálgerðri leti og kaffihúsaferðum.

föstudagur, ágúst 13, 2004

Endalokin nálgast (ekki)

Fyrir biskupa, presta og prédikara
Biskup á að vera óaðfinnanlegur, einnar konu eiginmaður, bindindissamur, hóglátur, háttprúður, gestrisinn, góður fræðari, ekki drykkfelldur, ekki ofsafenginn, ekki sólginn í ljótan gróða, heldur gæfur, ekki deilugjarn, ekki fégjarn. Hann á að vera maður sem veitir góða forstöðu heimili sínu, og heldur börnum sínum í hlýðni með allri siðprýði, ekki nýr í trúnni. Hann á að vera maður fastheldinn við hið áreiðanlega orð, sem samkvæmt er kenningunni, til þess að hann sé fær um bæði að áminna með hinni heilnæmu kenningu og hrekja þá, sem móti mæla. (1Tm 3.2-6 og Tt 1.7-9).

Þetta stendur í Fræðunum minni frá Lútheri gamla og er e-u við það að bæta (?) öðru en þessu frá sama:
Fyrir æskulýð almennt
Þér yngri menn, verið öldungunum undirgefnir og skrýðist allir lítillætinu.

Nú er maður kominn með buxurnar niður fyrir hnén og ég mun ekki viðhafa það að smella annarra textum í mín skrif að nauðsynjalausu. Ég var búinn að svara "konunni" vegna sturtuferðarinnar og er reyndar að hugsa um að loka baðinu á efri hæðinni þar sem leikþættir mínir hafa ekki alltaf þótt vel heppnaðir. Einnig er kominn tími á það! Ég er viss um að Victoría er ekki svona vond við Davíð sinn eins og fram kemur í sturtuklefakaflanum og mér er sagt af fólki sem var nýlega á Spáni, að hún sé nú ekki stjúpid.

Lengi lifi konungur sólarinnar.

fimmtudagur, ágúst 12, 2004

Líf á undan dauðanum

Það er greinilega líf utan Vinaminnis og mér finnst ég þekkja norðlenskan hreim með norsku ívafi í kommentum; varla var þetta gaur og reyndar ekki frá Dalvík eða Dalbæ eða Dagverðareyri heldur nærri Ljósavatni. Hver man ekki eftir goðanum Þorgeiri og drumbunum sem hann kastaði í fossinn eða hvað? Bestu málshættirnir á ensku voru þeir sem Jón Páll heitinn kom með í beinni og ég veit að Baldur (ef þetta er Baldur) kann marga eftir hann.

Ég er að hugsa um að senda gömlum og gleymdum vinum (ég átti einu sinni marga vini þótt þið trúið mér vart) tilboð um að kíkja á bloggið og senda mér línu, það er ekkert vit í öðru. Aðrir mega gjarnan gera slíkt hið sama. Gott að "dokker" eruð í góðu formi.

Var annars að koma heim eftir viðkomu í e-s konar "paradís" en ég var við síðdegisveiðar í Eyjafjarðará (sá enga aðra veiðimenn) og umhverfið og náttúran í dag í sérstöku formi eftir óendanleg hlýindi og sól í sumar. Gekk eftir öllu veiðisvæðinu t.a. kynnast því nákvæmlega og skrái punkta í Veiði-Þór síðar. Sem betur fer þurfti ég ekki að taka mikinn afla með mér heim þar sem frystikistan er þegar full af fiski og veiðiferðum alls ekki lokið í sumar eða haust, flestu verður sleppt og reyndar þegar búið að vera mikið af slíku. Það borgar sig vart að fara í gæsina í haust, þetta er orðið hálfget Víetnam-dæmi eða álíka og ekkert nema boð og bönn, allt leigt út eða selt og lítið hægt að banka uppá á bæi eins og var þegar ég var yngri í þessu. Þá sáust þéttbýlingar vart til sveita (þoli ekki orðið dreifbýli) og veitingarnar voru þannig að þeim verður ekki gerð nein skil með orðum.

Vonandi sökkar þessi síða ekki alveg en þegar ég kom heim í kvöld hitti ég eldri son minn útivið, en hann er með það verkefni að skrapa glugga fyrir málningu, hjá honum er miður dagur um kl. 20-22:00.

Fer á Sauðárkrók á morgun að öllu óbreyttu með liðið.

Í lokin má nefna að ég kem vart til að ræða dægurmál eða það sem er talið fréttnæmt af fólki flestu eða hitt sem kemur fram í sjónvarpsfréttum þar eð ég hef ekki horft á þær á fjórða ár eins og fram hefur komið - eða var þetta orðinn lengri tími?!.

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Ekki gleyma

Ekki er gott að gleyma skemmtilegum orðtökum sem maður heyrir á förnum vegi. Áðan ræddi ég við bónda er talar sem fornmaður og ekki var aldraður (ekki átt við sjálfan mig) og sagði m. a. það að "þetta kyrrir kroppinn" og "hafðu heila þökk fyrir." Að kyrra kroppin hef ég ekki fundið í heimildum mínum og minnist þess ekki að hafa áður heyrt.

Ég skora því á lesendur að færa mér fregnir af skemmtilegum orðum, orðtökum, heimatilbúnum eða ekki.

Svolítil öfundsýki kom upp hjá mér þegar ég las um Crick heitinn (einn af feðrum DNA eða svo) hitt að hann hefði síðustu áratugina starfað við að hugsa sniðuga hluti, engin sérstök verkefni eða dagskrá hjá honum. Svipað kom fram í e-u gömlu ljóði eftir tékkneskan höfund (Holub?) þar sem snillingur var spurður að því hvort hann þyrfti ekki að skrifa hjá sér merkilega hluti, en svaraði því til að það væri svo sjaldgæft (aldrei í dag!?) að hann mundi nú ekki gleyma því ef það gerðist.

Ekki meira í dag.

Textinn er skýr eða skír!

Það er frábært að lesa rabb á netinu og sérstaklega skrifar ungt fólk skemmtilegan texta. Tvö dæmi: "bt og skífan sökka feitann böll!!!!!" - og síðan: "Aldrei mun ég nokkurn tímann versla í BT eða Tæknival, ekkert nema sólbrúnir gaurar með aflitað hár sem vita ekki hvað "Power" takki er."

Á meðan slíkur texti er til leiðist manni ekki og tungan lifir þótt sumir tali tungum tveim. Það væri gaman að sjá hvað sonur minn eldri skrifar á nóttunni eða hvað.

Ég óska einnig eftir uppástungum um orð sem eru skrifuð eins á íslensku og ensku, en hafa þó ekki sömu þýðingu eða þannig. Ég nefndi eitt dæmi heima um daginn en það var orðið "turn" sem er afar áhugavert og ekki hvað síst í framburði.

mánudagur, ágúst 09, 2004

Matur og menn

Ágætur drengur bar fram þá fyrirspurn fyir skömmu hvort ekki væri unnt að setja mataruppskriftir á bloggsíðuna. Það er eins með þær eins og veiðina, þetta þarf að læra með hjartanu við réttar aðstæður, matargerð er í raun e-s konar hugarslökun, sumir nefna það jóga, en það skiptir ekki máli. Reyndar var það konan mín sem bakaði þessi frábæru vínarbrauð með heitri marsipanfyllingu á afmælisdaginn minn, hún bakar þau a.m.k. einu sinni á ári og er sennilega besta bakkelsi sem hægt er láta oní sig. Gæðin eru alltaf hin sömu, enda langt á milli bakstra. Svo er með marga einfalda hluti, þeir verða einungis ágætir ef maður hittir þá sjaldan fyrir eða þannig.

Í lokin vil ég nefna að ég hef verið í fréttasjónvarpsbindindi (stöðugt) á fjórða ár. Minnast skal orðanna: "Þú skalt enga aðra guði hafa en Sjónvarpsguðinn".

sunnudagur, ágúst 08, 2004

Ástand

Mér verður stundum hugsað til feðganna sem voru á grasbalanum með nokkra girðingastaura og gaddavír, þokusúld, kalt í lofti, ég nærri að veiðum í flóanum, engin orðaskipti en samt gekk allt svo vel; þetta að þurfa ekki að ræða alla hluti er spennandi aðferð til fullkomnunar samskipta manna á milli, svipað og eiga dýr sem þarf einungis stöku sinnum að ræða við, aðallega gæla við.

Samtöl eru þó einn af kostum tilverunnar þegar vel er að verki staðið.

Verndun dýrastofna

Í dag fór ég með Ísaki syni mínum að skoða skútu IFAW sem lá við bryggju á Akureyri í blíðskaparveðri. Skútan er glæný stálskúta, 70 fet að lengd og mastrið 26 m ef ég man rétt sem er engin smáhæð. Hún er búin ýmsum sértækum tólum t. a. fylgjast með ferli hvala í höfunum og þá einnig umhverfis Ísland. Það væri áreiðanlega vel gert að styðja slík samtök ef tryggt er að þau væru ekki athvarf iðjulausra fyrirmanna, konunga og prinsa, eins og sum eru reyndar; ég hygg að þessu séu það ekki og veitir víst ekki af að styðja verndun dýrastofna og hindra ómanneskjulegar tilhneigingar í garð dýra. Nýlega voru fregnir af "hálfgerðum" kattadrápum hérlendis í stórum stíl. Íslendingar hafa í gegnum tíðina drepið allt sem hreyfist, það hefur lítið breyst og hver getur varið dráp eins manns á 100-200 gæsum eða 50 löxum eða silungi á e-m dagsparti eða degi, hreykt sér af slíkri veiði og látið mynda sig fyrir blöð og tímarit. Sjálfur styð ég dráp til hóflegrar neyslu. Ef Íslendingar væru fleiri en reyndin er, þá væru sennilega fáir skotfuglar á himni eða fiskar í ám og vötnum. Það er einnig merkilegt að fylgjast með umræðu um hvalkjöt, kjöt sem var kreppukjöt í mínu ungdæmi.

Þessi dagur fer ekki í sögubækurnar sökum dugnaðar, en suma daga er gott að gera lítið, hafa ekkert fyrir stafni, lesa útí garði, horfa á síamskettina Mána og Birtu, en kattardýr hef ég ætíð öfundað svolítið af byggingarlaginu og fiminni; konan mín líkist ketti hvað þetta varðar en sjálfur er ég líkari trjádrumb sem hreyfist en beygist ekki. Listinn yfir ógerða hluti er þó ennþá alltof langur en margar útgáfur hafa verið skrifaðar af honum í sumar.

Gardínurnar koma vel út í kjallaranum og rétt sem konan segir hvað varðar biðtíma eftir öðrum gardínum, best að klára þetta strax. Hún bakaði rababarapæ með síðdegiskaffinu, sem var gott, rababarinn úr garðinum og ég sá að brokkólíið fer stækkandi, einnig kálið og jarðarberjaplönturnar dafna vel og líklegt að ég rækti meira næsta sumar.

Í lokin má nefna að bestu skrif mín lengi þurrkuðust óvart út í gær og var þar engum um að kenna nema tækninni sem er hverful. Tók nokkrar stafrænar myndir í dag af grasi og e-u álíka auk skútunnar sem skoðuð var eftir hádegið.

Þessi texti er skrifaður þannig að allir sjái að ég kann enn að skrifa venjulegan stíl þar sem ekkert kemur á óvart eða neinum stílbrögðum var beitt, engar gátur innanborðs.

föstudagur, ágúst 06, 2004

Ljósmyndun er listgrein

Það hefur lengi vakið furðu mína hversu ljósmyndun er lítill gaumur gefinn hérlendis. Sýningar fara ekki hátt, nema e-r PR ljósmyndari sé á ferðinni, um getu verður ekkert fullyrt. Í sumar rakst ég fyrir tilviljun á nokkrar ljósmyndir eftir Pétur Thomsen sem menntast hefur í Frakklandi. Myndir hans frá Kárahnjúkasvæðinu voru sérlega áhrifamiklar og gæðum prýddar. Hef verið að spá í að kaupa eina slíka fremur en olíu, vonandi getur það orðið síðar.

Ef ég keypti slíka mynd, þá gæti heimilisfólkið hugsanlega fengið meiri frið frá mistímabærum stafrænum skotum mínum, en ég hef haft það á tilfinningunni að ég mætti fækka skotunum, sem ég skil ekki, þar sem allar myndir verða verðugar með aldri; það er einungis spurning um tíma og þolinmæði.

fimmtudagur, ágúst 05, 2004

Tókst

Þetta tókst og það er byrjunin. Meira kemur síðar og mikilvægt að allir fylgist með. Það er möguleiki að biðja um mynd af mér fyrir aðdáendur ef e-r finnast en þá hef ég ekki séð árum saman. Helst að bændur muni eftir mér og ellilífeyrisþegar.

Áskorun tekið

Það er gaman að taka áskorun frúarinnar í Vinaminni um ritstörf á netinu þannig að fleiri geti einnig fylgst með skrifunum. Allt er óvíst með virknina enda er magn ekki hið sama og gæði. Helsta ritverk mitt, Rafkver Vals um þvagfærasjúkdóma, sem telja má tímamótaverk, er aðeins aðgengilegt þeim er hafa aðgang að innraneti FSA (Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri). Það væri þó gaman að birta nokkur sannindi úr því á þessari síðu af og til.

Þetta um bílstjórann í framsætinu er afar áhugavert og ætíð valdið mér nokkurri klígju að sjá karlinn hlunkast inn og útúr bílnum eftir því sem hentar honum að setjast við stýrið; hér á Akureyri aka menn í eina til fjórar mínútur í vinnuna og síðan sest konan í bílstjórasætið og yfirgefur það þegar hún sækir karlinn í vinnuna síðdegis. Hjá öllu þessu væri unnt að komast ef menn gengu eða hjóluðu í vinnuna hérna norðan heiða en allir hlutir eru í göngu- eða hjólafæri.