Loksins fór
Halur að nýju í sínemasjó og þar barði hann augum filmuna "Broken Flowers" eftir J.J. ásamt áhugaverðri tónlist í eyrum - þó ekki Tom Waits í þessari ræmu; margir kvikmyndagerðarmenn velja góða tónlist eins og t. d. Cohen-bræður og Tarantino, þótt sumt verði vinsælt og því nokkuð þvælt á köflum. Þetta var gamaldags vegamynd að nokkru, hugmyndafræðileg úttekt á firringu og skipbroti nútímans, en allt með ánægjulegri framsetningu og misskondnum húmor. Minnti stundum á "Smoke" sem var frábær mynd og hana sá Halur fyrir slysni þar eð handritið var gert eftir sögu rithöfundar sem Halur hafði áður lesið annað efni frá. Það er ekki flókið að velja um sali í þessu sínema bæjarins, tveir salir úr að velja og Halur leit hvorki á miðana né annað, heldur gekk kl. 20.00 beina leið í sal A enda taldi hann þetta aðal myndina og hún ætti að vera í aðal salnum. Þá var myndin byrjuð þar; eftir 1-2 mín. leit Halur á húsfreyju er fylgdi honum, enda ekki gott að láta hann vera einan á ferli að kveldi til, þau horfðu hvort á annað og sögðu: "Þetta er vitlaus mynd". Síðan var haldið í sal B og þar var myndin að hefjast innan um popp og kók, smjatt á nammi og fleiru auk síma af GSM gerð sem aftur eru orðnir plága í sínemasölum. Halur vildi breyta um bekk og fékk því framgengt. Bill Murray fer fyrir liði ágætra leikara, flestir frábærir í raun og eru "ekki-leikarar" öfugt við marga sem á tjaldið komast í dag. Hann var einnig frábær í "Lost in Translation" og sumum öðrum myndum, sem reyndar fengu lélega dóma en Halur skemmti sér konunglega yfir. Sumir gengu út úr salnum í gær og það var áreiðanlegt merki um ágæta mynd, fleiri slíkar mættu hingað berast.